UM einni milljón króna var stolið út af bensínkorti stórfyrirtækis áður en starfsmenn þess urðu þess varir að kortinu hafði verið stolið. Í liðinni viku handtók lögreglan í Hafnarfirði mann þegar hann hugðist nota kortið á bensínstöð í Hafnarfirði og leiddi rannsókn í ljós að fimm menn höfðu skipst á að nota kortið.
Að sögn lögreglunnar í Hafnarfirði rekur fyrirtækið marga stóra bíla og nemur eldsneytiskostnaður þess mörgum milljónum. Af þeim sökum urðu menn ekki varir við þjófnaðinn fyrr en um síðir. Eftir að málið var tilkynnt til lögreglu leið hins vegar skammur tími þar til bensínþjófarnir náðust.
Ef miðað er við að fimmmenningarnir hafi ávallt borgað fullt verð fyrir 95 oktana bensín stálu þeir um níu þúsund lítrum af eldsneyti á meðan þeir notuðu kortið.