Slys vegna glannaaksturs fá en þeim mun alvarlegri
Að sögn fulltrúa tryggingafélaganna er hlutfall slysa sem verða vegna hrað- og glannaaksturs ekki hátt í tjónum almennt, heldur má skrifa flest tjón ungra ökumanna á reynsluleysi. En eftir því sem slysin verða alvarlegri, þeim mun hærri er tíðni hrað- og glannaaksturs sem orsök og slíkar orsakir meira áberandi. Þótt áhættufíklar séu fáir valda þeir alvarlegu tjóni þegar þeir lenda í slysum.
Mögulegt getur verið að greina áhættufíkn ungra umsækjenda um ökuskírteini og koma þannig í veg fyrir að hættulegustu einstaklingarnir fái leyfi til að aka bifreiðum. Þetta er meðal þess sem fram kom á málþingi um unga ökumenn, sem Umferðarstofa stóð fyrir á dögunum. Á málþinginu veltu menn fyrir sér hvers konar ástæður lægju að baki hegðun svonefndra hraðakstursfíkla og mögulegum leiðum til að koma í veg fyrir að slíkir einstaklingar kæmust upp með háttarlag sitt.
Meðal þeirra leiða sem ræddar voru má telja sýnilega og markvissa löggæslu, fræðslu um eðli og afleiðingar hraðaksturs, mögulega hækkun bílprófsaldurs og einnig hvort eðlilegt eða æskilegt sé að allir fái ökupróf. "Við höfum verið að reyna að greina hvers vegna menn keyra hratt og ástunda það sem við leyfum okkur að kalla ofsaakstur," segir Sigurður Helgason, sviðsstjóri umferðaröryggissviðs hjá Umferðarstofu.
"Það sem gefið var upp sem meginskýringin er bara hrein og klár spennufíkn. Því fylgir það að margir gera sér ekki grein fyrir eðli og afleiðingum hraðaksturs. Þetta er líka viss sýniþörf að menn halda að þeir séu eitthvað stærri og meiri ef þeir ástunda svona akstur. Spurningin sem margir spyrja sig er hvort eðlilegt sé eða æskilegt að allir fái ökupróf. Í Bretlandi og Finnlandi eru til viðhorfspróf sem hægt er að nota til að koma í veg fyrir að sumt fólk geti fengið ökuréttindi. Sérfræðingar í þessum málum telja þetta geta reynst áhrifaríkt tæki til að finna þá sem ekki er ástæða til að fái ökuréttindi."
Þroskamunur á einu ári
Að sögn Sigurðar var kveikjan að því að hann sló þessum hugmyndum fram á málþinginu sú, að sérkennari úti á landi hefði sagt sér að hún velti fyrir sér hvort, og þá um hverja af nemendum hennar væri að ræða þegar hún heyrði af alvarlegum umferðarslysum á svæðinu. "Þar kviknaði sú hugsun hvort hægt væri að greina í gegnum atferli, t.d. í skólakerfinu, hæfni og eiginleika ungs fólks og hvort það sé rétt og eðlilegt að það fái réttindi til að keyra bíl."Sigurður segir fjölda þeirra einstaklinga sem flokkast undir "svarta sauði" ekki mikinn, en þeir séu vissulega meira áberandi. "Þetta er einhvers konar öryggisleysi og það má segja að þessi áhættufíkn sé ákveðið félagslegt fyrirbæri, að menn séu að sýna sig fyrir hópnum," segir Sigurður og bætir við að hjá mörgu ungu fólki sé bíllinn nokkurs konar félagsmiðstöð. "Það má heldur ekki gleymast að ungir ökumenn, á aldrinum 17-20 ára eru sá hópur ökumanna á Íslandi sem hefur bætt sig mest undanfarin ár."
Atferli hraðakstursfíkla og tjáning þeirra um hegðun sína, eins og t.d. hefur komið fram á spjallþráðum á netinu lýsir að mati Sigurðar engu öðru en skelfilegu viðhorfi og virðingarleysi gagnvart eigin lífi og annarra. "Að mínu mati þyrfti að skoða það mjög gaumgæfilega hvort þessir menn ættu að vera með bílpróf," segir Sigurður.
Aðspurður um fleiri leiðir til að minnka hættuna af hraðakstri segir Sigurður eina leið þá að takmarka hestaflatöluna í ökutækjunum sem þessir menn mega keyra. "Það er þannig í sumum löndum að ungir ökumenn mega ekki aka bílum nema upp að vissum hestaflafjölda miðað við þyngd bílsins," segir Sigurður. "Ef allt eftirlit og löggæsla er í lagi og fylgst er með þessu á það að leiða til þess að þessir bílar komast ekki eins hratt og þeir annars gætu."
Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni í Reykjavík, segir hugmyndir þær sem komu fram á málþinginu vel þess virði að skoða nánar. "Ég tel að það að hækka bílprófsaldurinn upp í 18 ár og takmarka vélarstærðina sé strax góð leið," segir Geir Jón og bætir við að þroskabreytingin á þessu eina ári sem þar er um að ræða sé gríðarleg.
"Kennarar eru að segja mér að þetta séu allt aðrir nemendur 18 ára en 17 ára. Ég held að við myndum sjá miklar breytingar með því. Það væri miklu skilvirkara að miða þetta allt við 18 ára aldurinn.Það var ekki út af engu sem menn ákváðu að hækka sjálfræðisaldurinn upp í 18 ár."
Geir Jón segir líka skipta máli að ef menn fá nú punkta á sitt bráðabirgðaskírteini, fresti það því að þeir fái fullnaðarskírteini þangað til punktarnir fyrnast. "Það er töluverð pressa á menn að haga sér betur."
Að sögn Geirs Jóns benda rannsóknir til þess að slys ungra ökumanna séu heldur á niðurleið en uppleið, en vissulega komi slysin í skorpum. "Ef það væri gerlegt að skima menn þá væri það afskaplega gott, ef menn þyrftu að taka svona próf áður en þeir fengju ökuskírteini. Þetta myndi þá virka eins og nokkurs konar læknisvottorð, að menn séu ekki síður heilir á sálinni en líkamanum. Þetta þarf allt að fara saman.