* JAKOB Sigurðarson lék aðeins í 10 mínútur með Bayer Leverkusen Giants í þýsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik á laugardag er liðið tapaði gegn Bonn á heimavelli, 94:85. Jakob skoraði eina þriggja stiga körfu í leiknum. Giants eru í næstneðsta sæti deildarinnar með þrjá sigurleiki líkt og tvö önnur lið.
* HLYNUR Bæringsson skoraði 6 stig og tók 8 fráköst á 38 mínútum fyrir hollenska körfuknattleiksliðið Woon Aris sem tapaði 65:63 á heimavelli gegn Groningen . Sigurður Þorvaldsson lék í 12 mín., og skoraði 3 stig fyrir Aris en liðið er í neðsta sæti með 2 stig eftir 12 umferðir.
* DIDIER Defago frá Sviss var dæmdur úr leik eftir að hafa sigrað í alpatvíkeppni á heimsbikarmóti í karlaflokki í gær í Val d'Isere , en Defago reyndist hafa notað útbúnað sem stóðst ekki reglur.
* MICHAEL Walchhofer frá Austurríki sigraði þar með en annar varð landi hans Rainer Schönfelder og Bandaríkjamaðurinn Bode Miller varð þriðji. Í þessari keppni var keppt í bruni en brautin var aðeins styttri en vanalega og í síðari hlutanum var keppt í stórsvigi.
* MARTINA Ertl-Renz frá Þýskalandi setti met í gær er hún tók þátt á heimsbikarmóti í alpagreinum á skíðum en mótið var 403. mótið sem hún tekur þátt í. Ertl-Renz, sem er 32 ára og hefur sigrað á 14 heimsbikarmótum og á silfurverðlaun frá Ólympíuleikum , bætti þar með met Anika Wachter frá Austurríki.
* ALÞJÓÐLEGA úrvalsliðið í golfi hafði mikla yfirburði gegn úrvalsliði Asíu á Lexus-mótinu í Singapúr þar sem bestu kylfingar heims í kvennaflokki áttust við. Annika Sörenstam frá Svíþjóð var fyrirliði og leikmaður alþjóðlega liðsins sem fékk 16 vinninga en Grace Park frá S- Kóreu var fyrirliði og leikmaður Asíuliðsins sem fékk 8 vinninga.
* ALÞJÓÐLEGA liðið var með 8 vinninga gegn 4 fyrir lokadaginn og þurfti aðeins 4½ vinning til viðbótar til þess að tryggja sér sigur
* ROBERT Allenby náði að sigra á ástralska meistaramótinu í golfi eftir bráðabana gegn bandaríska kylfingnum Bubba Watson . Allenby er fyrsti kylfingurinn sem nær að sigra á öllum þremur stórmótum áströlsku mótaraðarinnar á sama árinu. Allenby og Watson voru báðir á 17 höggum undir pari að loknum 72 holum, 271 höggi, en Watson fékk skolla á fyrstu holu bráðabanans en honum tókst ekki að setja stutt pútt ofan í fyrir pari.
* NICK O'Hern frá Ástralíu var í efsta sæti mótsins allt þar til að fimm holur voru eftir en hann fékk skolla á 16. og 17. braut og missti þar með af sigrinum og varð hann fimmti.