Hús Ásrúnar var reist fyrir um 76 árum og það stendur vel fyrir sínu.
Hús Ásrúnar var reist fyrir um 76 árum og það stendur vel fyrir sínu. — Morgunblaðið/Þorkell
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Oft heyrist að gatnakerfið í Reykjavík sé kolsprungið og tímafrekt sé að fara akandi á milli staða, einkum á álagstímum, sem virðast reyndar vera teygjanlegir tímar.
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is

Oft heyrist að gatnakerfið í Reykjavík sé kolsprungið og tímafrekt sé að fara akandi á milli staða, einkum á álagstímum, sem virðast reyndar vera teygjanlegir tímar. Við slíkar aðstæður getur verið gott að þurfa ekki á bíl að halda til að sinna erindum sínum. Búseta í miðbænum eða nálægt honum getur leyst þennan vanda því með því að búa á þessu svæði getur fólk í það minnsta gengið flestra ef ekki allra erinda sinna.

Lét sérfræðing taka út húsið

Ásrún Hauksdóttir hjúkrunarfræðingur fæddist á Hvanneyri og bjó þar fram undir fermingu. Síðan átti hún heima í Eskihlíð í Reykjavík og festi loks kaup á litlu húsi við Bergstaðastræti fyrir nær 30 árum. Húsið og næsta nágrenni er hennar sælureitur.

Bergstaðastræti er að hluta í Þingholtunum. Í bók Páls Líndals, Reykjavík, Sögustaður við Sund , segir að gatan sé nefnd eftir Bergstöðum og megi upphaf hennar rekja til 1860. Verulegur hluti hennar hafi byggst um aldamótin 1900 en hús Ásrúnar var reist 1929.

"Þar sem ég á ekki bíl og hef ekki bílpróf vildi ég fyrst og fremst búa í miðbænum í göngufæri við allt sem ég þyrfti á að halda," segir Ásrún varðandi ákvörðun hennar um að flytja úr Hlíðunum í miðbæinn, en þá vann hún á Landspítalanum og vildi búa skammt frá vinnustaðnum. "Dóttir mín var barn á þessum árum og því skipti líka miklu máli að vera nálægt leikskóla og barnaskóla, svo hún gæti gengið í skólann þegar fram liðu stundir. Ég vildi fá íbúð sem ég hefði bolmagn til þess að kaupa og reka og skoðaði margar niðurgrafnar kjallaraíbúðir, jafnvel ósamþykktar. Einbýlishús var aldrei inni í myndinni en allt í einu datt ég niður á þetta litla hús og það kostaði ekki miklu meira en sumar þessar ósamþykktu íbúðir. Ég fékk kunningja minn, góðan smið, til þess að taka húsið út fyrir mig, fara yfir það að utan og innan, svo ég vissi nákvæmlega hvað ég væri að kaupa og að ég ætti ekki á hættu að þurfa að fara út í miklar viðgerðir, sem ég réði ekki við. Húsið reyndist í góðu lagi og viðgerðir voru ekki aðkallandi. Við mæðgurnar vorum því í góðum málum, húsið stutt frá leikskólanum Laufásborg og Austurbæjarskólanum, í næsta nágrenni við Landspítalann sem og annað, og hér hef ég kunnað mjög vel við mig. Ég var hæstánægð og hef verið það síðan."

Mikilvægi Hallargarðsins

Sagt hefur verið að Hallargarðurinn við Fríkirkjuveg sé einn af best varðveittu módernísku almenningsgörðum hérlendis. Jón H. Björnsson landslagsarkitekt hannaði og gerði garðinn fyrir rúmlega hálfri öld og síðan hefur garðurinn veitt mörgum borgarbúum og öðrum mikla ánægju. Hann er skammt frá húsi Ásrúnar og er einn af uppáhaldsstöðum hennar.

"Sveitaeðlið er mjög sterkt í mér og það skiptir mig miklu að vera á reit þar sem er ekkert malbik," segir Ásrún. "Hallargarðurinn er slíkur reitur. Hann er í göngufæri frá heimilinu og í garðinum kemst ég best í samband við náttúruna, náttúruna sem ég kalla guð."

Hundarnir á góðum stað

Dýrahald er órjúfanlegur þáttur sveitalífsins og þeir sem flytja úr sveit á mölina eiga oft erfitt með að vera án dýra. Ásrún er ein þeirra sem hafa tekið ástfóstri við hunda. Hún á nú tvær tíkur, Afródítu og Úu, og fer greinilega vel á með þeim. Hún segir að hundaeigendum sé reyndar oft gert erfitt fyrir í borginni. Til dæmis megi vera með hund fyrir neðan og ofan Laugaveg en ekki á Laugaveginum sjálfum. Spurningin sé hvernig eigi að fara með hund yfir Laugaveginn án þess að brjóta lög. "Það er eins og gert sé ráð fyrir að sótt sé um undanþágu í hvert skipti," segir hún. "Ég var ekki komin með hunda þegar ég keypti húsið hérna en það er auðveldara að vera með hunda í einbýlishúsi en í fjölbýli. Lögreglan tók til dæmis af mér hund þegar ég bjó í fjölbýlishúsinu í Eskihlíðinni. Ég var víst ekki með neina undanþágu."

Rétt eins og mannfólkið þurfa hundarnir á reglubundnum rannsóknum að halda og segist Ásrún vera vel í sveit sett hvað það varðar. "Dýralæknastofa Dagfinns er hérna rétt hjá, á Skólavörðustígnum, og þangað fer ég með tíkurnar í skoðun árlega, sprautur og annað eftirlit, þegar eitthvað amar að þeim."

Útiveran heillar

Útivera og ganga gegna mikilvægu hlutverki í lífi Ásrúnar. Hún nýtur þess að vera úti með hundana sína og svo er nánast allt annað, sem hún þarf að gera, í göngufæri. Það setti hún enda á oddinn, þegar hún keypti húsið.

"Vinkona mín keyrir mig í Bónus í hverri viku en annars er kaupmaðurinn á horninu nánast á næsta horni, stutt í sjoppuna, fiskbúðin rétt hjá og bankinn á næsta leiti," segir Ásrún. "Hérna er allt, sem ég þarf helst á að halda, í göngufæri."