"ÞAÐ var yndisleg stund fyrir okkur Grænlandsfarana að lenda á Reykjavíkurflugvelli og fá viðtökur frá Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra. Síðasta vika hefur verið ævintýraleg í alla staði," segir Hrafn Jökulsson, forseti Hróksins, um skákferð félagsins til Grænlands, þá þriðju í röðinni, sem lauk á laugardag.
Ferðin var farin í þeim tilgangi að efla skáklíf í landinu og fengu um 500 grænlensk börn skáksett að gjöf frá leiðangursmönnunum. Forsætisráðherra tók á móti hópnum þegar hann lenti á Reykjavíkurflugvelli, en alls voru sex þátttakendur í leiðangrinum til Grænlands. "Við höfum farið með bátum ísmannsins Sigurðar Péturssonar gegnum hafísinn við Austur-Grænland og með þyrlum til allra helstu nágrannaþorpa Íslendinga."
Hrafn segir að móttökur Grænlendinga hafi hvarvetna verið hinar sömu. "Þeir fagna skákinni og þeir fagna þeirri hönd sem Íslendingar rétta þeim," segir hann. "Börnin voru himinlifandi. Ég hef ekki séð glaðari börn. Þau fengu skáksettin sín og aðrar gjafir frá fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum á Íslandi. Tærari gleði höfum við ekki séð," segir hann. Hrafn bætir við að ferðin hafi orðið að veruleika fyrir tilstilli sameiginlegs átaks mjög margra.
Mikilvægast að halda starfinu áfram
Hann kveðst telja að árangurinn af hinu nýja landnámi Íslendinga á Grænlandi sé þegar farinn að sjást. "Mikilvægast af öllu tel ég þó að við höldum áfram," segir hann. Hrókurinn, Barnaheill á Íslandi, Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands, og Rauði krossinn muni funda strax eftir helgina ásamt hinum nýja stórmeistara Íslendinga, Henrik Danielsen. Þá verði framhaldið skipulagt.Við komuna til Íslands á laugardag voru teknir inn þrír nýir heiðursfélagar í Hrókinn, þau Árni Höskuldsson gullsmiður, Stefán Þór Herbertsson, formaður Kalak, og Kristín Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla á Íslandi.