STÓRA jólagleði Kramhússins fór fram á laugardaginn í Borgarleikhúsinu. Þetta var í 23. sinn sem nemendur Kramhússins komu saman fyrir jól og sýndu listir sínar, en þessi viðburður er löngu orðinn fastur hluti af jólastemmningunni hjá mörgum Kramhúsgestum.
Sýningin var nokkurs konar fjölmenningarlegur kokteill, þar sem ægði saman magadansi, harmónikkuleik, dansatriðum og fleiru frá ýmsum löndum.
Sýningin heppnaðist gríðarvel og voru gestir afar ánægðir með hin fjölmörgu skemmtilegu atriði og alls kyns spaugilega viðburði sem kitluðu hláturtaugar viðstaddra. Eftir skemmtunina nutu gestir veitinga í anddyri Borgarleikhússins og hélt gleðin hjá mörgum áfram fram eftir nóttu.