Íbúar í grennd við flugvöllinn í Port Harcourt urðu vitni að slysinu sem varð þegar DC-9-þota með 110 manns um borð var að lenda í þrumuveðri.
Íbúar í grennd við flugvöllinn í Port Harcourt urðu vitni að slysinu sem varð þegar DC-9-þota með 110 manns um borð var að lenda í þrumuveðri. — Reuters
Port Harcourt. AFP, AP.

Port Harcourt. AFP, AP. | Forseti Nígeríu, Olusegun Obasanjo, hefur frestað fyrirhugaðri heimsókn sinni til Portúgals og boðað til neyðarfundar með flugmálayfirvöldum þar sem flugöryggi í landinu verður til umfjöllunar vegna slyssins á laugardag er DC-9-þota Sosoliso-félagsins hrapaði við alþjóðaflugvöllinn í borginni Port Harcourt. Minnst 107 af alls 110 manns um borð fórust. Svörtu kassarnir úr vélinni fundust í brakinu í gærkvöldi og verður kannað hvor þeir geta skýrt hvað fór úrskeiðis.

Óttast er að innviðir flugsamgangna í Nígeríu, þ.e. flugvellir og ýmis tæknibúnaður, séu ekki færir um að anna hratt vaxandi umferð milli helstu borga landsins sem er hið fjölmennasta í Afríku með yfir 100 milljónir íbúa. Einnig er bent á að margar af vélum flugfélaganna séu orðnar gamlar og viðhald lélegt. Slys eru afar tíð og hafa alls 1.019 Nígeríumenn farist í slíkum slysum frá 1991.

Ekkert er enn vitað um orsakir sumra slysanna. Í október sl. hrapaði Boeing 737-300-vél eftir flugtak á vellinum í Lagos í Nígeríu. Þá fórust 117 manns. Flugfélagið Sosoliso var stofnað árið 1994. Það hóf áætlunarflug í júlí árið 2000 og flýgur til sex borga í Nígeríu, að sögn vefsíðu flugfélagsins.

Varð vélin fyrir eldingu?

DC-9-vélin rann út af flugbraut í lendingu í mikilli rigningu og þrumuveðri á laugardag, lenti í skurði og tættist þar í sundur í mikilli sprengingu og eldi. Sjónarvottar töldu að kviknað hefði í henni rétt áður en hún lenti á brautinni og eru uppi getgátur um að hún hafi orðið fyrir eldingu. Meðal hinna látnu var 71 barn, öll úr sama grunnskóla á vegum kaþólsku kirkjunnar í borginni Abuja. Einnig voru tveir erlendir læknar úr röðum samtakanna Læknar án landamæra meðal hinna látnu.

Ættingjar fórnarlambanna reyndu í gær að bera kennsl á líkin. Með ljósmyndir í hönd gengu fjölskyldur fram hjá skaðbrenndum líkum sem höfðu verið lögð á gólf líkhússins í Port Harcourt. Sótthreinsandi vökva hafði verið sprautað á líkin sem voru geymd í herbergi þar sem engin kæling er fyrir hendi.

"Það eina sem við getum gert núna er að grafa og syrgja hina látnu," sagði karlmaður á staðnum.