Ekki tókst að mati gagnrýnanda að vinna nógu vel úr því prýðilega efni sem framleiðendur myndarinnar höfðu í höndum sér.
Ekki tókst að mati gagnrýnanda að vinna nógu vel úr því prýðilega efni sem framleiðendur myndarinnar höfðu í höndum sér. — Photographer: Chuck Hodes
Leikstjóri: Harold Ramis. Aðalleikarar: John Cusack, Billy Bob Thornton, Connie Nielsen, Randy Quaid, Oliver Platt. 88 mín. Bandaríkin. 2005

EINHVERN tímann voru þau Charlie (Cusack), Vic ( Thornton), Renata (Nielsen), Bill (Quaid) og Van Heuten (Platt), litlu, sætu, góðu börnin hennar mönmmu sinnar. Það er ótrúlegt og afskaplega langt síðan að aðalpersónurnar í Ice Harvest voru ærlegar manneskjur. Charlie er lögfræðingur sem hefur látið metnaðinn flakka fyrir vel launuð skítverk fyrir mafíuforingjann Bill, í Wichitaborg, þar sem myndin gerist á aðfangadagskvöld. Vic er smákrimmi og félagi Charlies í ráni á rösklega tveim milljónum dala í skugga hátíðar ljóssins. En það er myrkt yfir persónunum, gjörðum þeirra og borginni, sem er einn krapaaur og hálkublettir, og mönnum sem ökutækjum tekst bölvanlega að halda strikinu.

Renata er þokkafullur klámbúllueigandi og dræsa inn við hjartað, Van Heuten er kjaftfor fyllibytta, arkitekt í innsta hring heldri borgara Wichita og nýgiftur fyrrum eiginkonu Charlie vinar síns sem hann stakk undan. Bill er mafíuforinginn og eigandi klámafþreyingarinnar í Witchita, peningaskápurinn hans er freistingin sem félagarnir falla fyrir.

Í bókinni Ice Harvest, eftir Scott Phillips, er þetta lið hvað öðru svikulla og ómerkilegra láglífispakk, en á kolsvartan og meinfyndinn hátt. Bókin er kaldhæðin ádeila á græðgi og bresti mannskepnunnar, sviðsett í mátulega háðskum aðstæðum, veraldlegu krummaskuði í atkvæðalitlu fylki í umhleypingum á jólum.

Í myndinni er umhverfið það eina sem skilar sér úr bókinni, fyrir utan nöfnin á persónunum. Söguþráðurinn er aðeins kunnuglegur, endirinn nýr - í staðinn fyrir mátuleg endalok sem hæfðu kjafti skel er komið litlaust spurningarmerki. Samtölin eru daufleg, persónurnar hanga í lausu lofti, framvindan furðu tilþrifalítil og ófyndin.

Bíómyndir byggðar á bókum þurfa ekkert nauðsynlega að fylgja þeim eftir í hvívetna. Oft verða þær betri en efnið sem þær eru byggðar á, þá er ástæðan undnatekningarlaust færari handritshöfundar og kvikmyndagerðarmenn en verkið sem þeir höfðu til fyrirmyndar. Þegar kvikmyndagerðarmönnum tekst að klúðra góðum bókum er það yfirleitt sökum þess að annaðhvort er illmögulegt að flytja innihaldið á tjaldið eða þeim sem að því stóðu hefur mistekist. Sú er ástæðan fyrir því að Ice Harvest er ein vonbrigði frá fyrsta skoti til loka.

Ekki vantar mannskapinn. Cusack og Thornton, Quaid og Platt, eru allir öndvegis leikarar á góðum degi og Ramis hefur gert frábærar gamanmyndir - inn á milli. Þegar maður frétti að þessi mannskapur var að vinna að kvikmyndagerðinni, hoppaði hjartað. Allt kemur fyrir ekki, stórgóðir möguleikar bókarinnar eru vannýttir, að Platt einum undanskildum. Hér fer góður biti í hundskjaft, eða eigum við að segja jólaköttinn?

Sæbjörn Valdimarsson