Peking. AFP. | Staðfest hefur verið í Kína að lögregla hafi skotið nokkra þorpsbúa í Guangdong-héraði til bana í mótmælum sl. þriðjudag og hefur embættismaður, sem gaf skipun um árásina, verið handtekinn.

Peking. AFP. | Staðfest hefur verið í Kína að lögregla hafi skotið nokkra þorpsbúa í Guangdong-héraði til bana í mótmælum sl. þriðjudag og hefur embættismaður, sem gaf skipun um árásina, verið handtekinn. Frá þessu greindi kínverska fréttastofan Xinhua eftir að hafa þagað um málið í nokkra daga og sagði hún að þrír hefðu dáið. Íbúar í þorpinu halda því hinsvegar fram að um 20-30 manns hafi verið skotnir til bana.

Ef íbúarnir hafa rétt fyrir sér er þetta mesti fjöldi mótmælenda sem lætur lífið í átökum við lögreglu frá fjöldamorðunum á Torgi hins himneska friðar vorið 1989. Sérstök rannsókn á atburðunum í Guangdong hefur verið hafin. Deilur munu hafa verið milli íbúanna og stjórnvalda um bætur fyrir land sem lagt var undir orkuver, mannvirkið mun einnig koma í veg fyrir fiskveiðar þorpsbúa í á við staðinn.

Mótmæli gegn spillingu, mengun og landtöku eru afar algeng í sveitahéruðum Kína. Embættismenn sem Xinhua vitnar í segja að meira en 300 manns hafi tekið þátt í mótmælunum í þorpinu sem heitir Dongzhou og er skammt frá borginni Shanwei. Mótmælendur hafi verið hvattir af "undirróðursmönnum" þess að ráðist á lögreglu með bensínsprengjum, hnífum og dýnamíti. Segja embættismennirnir að lögreglan hafi því neyðst til þess að skjóta á mótmælendurna til þess að verja sig.

Nemandi sem fylgdist með atburðunum sagði einnig að ekki hefði verið um neitt ofbeldi gegn lögreglu að ræða. "Við gerðum ekki ráð fyrir að lögreglan myndi skjóta. Fyrst köstuðu þeir táragassprengjum og síðan skutu þeir," sagði hann.

Árið 1989 voru kínversk yfirvöld fordæmd eftir morðin á Torgi hins himneska friðar þar sem talið er að mörg hundruð manns hafi fallið. Að sögn fréttaritara BBC er sjaldgæft að kínverska lögreglan noti raunverulegar byssukúlur til þess að bæla niður mótmæli.