Margt jákvætt en drukknar í væmni og lágkúruleika hins rómantíska gamanmyndaforms að mati gagnrýnanda.
Margt jákvætt en drukknar í væmni og lágkúruleika hins rómantíska gamanmyndaforms að mati gagnrýnanda.
Leikstjórn: Mark Waters. Aðalhlutverk: Resse Witherspoon, Mark Ruffalo, Donal Logue og Dina Waters. Bandaríkin, 95 mín.

Himnesk ást (Just Like Heaven) er rómantísk gamanmynd með grípandi fléttu og yfirnáttúrulegum undirtónum. Þar segir frá landslagsarkitektinum David (Mark Ruffalo), sem flytur inn í íbúð í skammtímaleigu og hyggst leggjast þar í dvala og velta sér upp úr sorgum sínum. Íbúðin er á besta stað í San Francisco og væri fullkomin ef ekki væri fyrir anda ungrar og skeleggrar konu sem telur sig búa í íbúðinni, enda hefur hún ekki horfst í augu við þá staðreynd að hún lifir ekki lengur jarðneskri tilveru. Þetta er andi Elizabeth (Reese Witherspoon), harðduglegs unglæknis sem var á góðri leið með að verða alvarlegur vinnualki þegar hún lenti í árekstri við flutningabíl. David reynir að hjálpa andanum að komast yfir í handanheima í von um að losna við hann úr íbúðinni, en allt kemur fyrir ekki, draugurinn er svo sprækur að sögn sérfræðinga að vonlaust reynist að kveða hann niður. Brátt takast nánari kynni með David og anda Elizabeth, og kemur þá í ljós að það var engin tilviljun að fundum þeirra bar saman. David reynir að hjálpa Elizabeth að finna út hvers vegna hún er föst í limbói handan efnisheimsins, og fyrr en varir er David orðinn ástfanginn af konu sem hann getur ekki snert.

Það er margt vel gert í þessari rómantísku gamanmynd sem er vel fyrir ofan meðallag í gæðum allt þar til væmnin tekur völdin við úrlausn sögunnar í lokin. Með þau Reese Witherspoon og Mark Ruffalo í aðalhlutverkum tekst leikstjóranum hins vegar að gera sér mat úr þeim kómísku möguleikum sem fléttan býður upp á, og er það ekki síst hin viðkunnanlegi Mark Ruffalo sem sýnir á sér óvæntar hliðar með átakalausum gamanleik sínum. Reese Witherspoon bregður sér í kunnuglegan fasa við túlkun hinnar skeleggu Elizabeth, (hún hefur verið í áþekkum hlutverkum í Election og myndunum um lög(u)legu ljóskuna) og tekur hún hlutverkið engum vettlingatökum frekar en fyrri daginn.

Donal Logue sem margir þekkja úr Napoleon Dynamite er sömuleiðis bráðfyndinn sem nördalegur spíritisti, sem botnar ekkert í hinum ódrepandi anda Elizabeth. Leikararnir halda sem sagt meðalgóðu handritinu vel á floti, og óspart er notast við sjarmerandi tónlist til þess gefa myndinni karakter umfram hina dæmigerðu rómantísku gamanmynd (samanber bíræfinn notkunin á Cure-laginu "Just Like Heaven" sem er titillag myndarinnar). En utan við þessa jákvæðu póla er innihaldið rýrt og kemur lágkúrustuðull myndarinnar allt of berlega í ljós þegar hún snýst upp í ofurvæmni í lokin.

Heiða Jóhannsdóttir