Frá Þorvaldi Logasyni: "Í TILEFNI af því að sjálfstæðismenn ætla að skreyta mestu náttúruperlu Kópavogs með óperuleikhúsi vill mitt annað egó, Menningar-Jón, bæta þessu við um hámenninguna í Kópavogi: Mér finnst á undanförnum dögum, já ef ekki vikum, gott ef ekki árum, ekki..."

Í TILEFNI af því að sjálfstæðismenn ætla að skreyta mestu náttúruperlu Kópavogs með óperuleikhúsi vill mitt annað egó, Menningar-Jón, bæta þessu við um hámenninguna í Kópavogi:

Mér finnst á undanförnum dögum, já ef ekki vikum, gott ef ekki árum, ekki hafa verið nægur gaumur gefinn að þeirri menningarstarfsemi sem fer fram í Kópavogi. Í Kópavogi höfum við látið okkur nægja eina og hálfa milljón á ári í rekstur leikhúss. Framlag Kópavogs til leiklistar á Íslandi er stórlega vanmetið.

Sjá menn virkilega ekki að við hér í Kópavogi ("hér er gott að búa") getum stöðvað þá óöld sem hefur geisað í leikhúsi Reykjavíkurborgar um árabil. Ekki vil ég kenna R-listanum um, því síður Samfylkingunni en það fólk sem þar starfar hefur einfaldlega ekki það þrek og þann vilja sem þarf til að reka gott leikhús.

Þess vegna vil ég, sem áhugamaður um leikhús um árabil, benda á það góða starf sem unnið hefur verið í Kópavogi.

Það þarf natni, og lagni og sparsemi til að reka gott leikhús. Því vil ég gerast svo djarfur að leggja til að Borgarleikhúsið verði flutt í Kópavog, nánar tiltekið í Borgarholtið. Við getum kallað það: Borgarholtsleikhúsið. Ég er að sjálfsögðu ekki að leggja til að húsið sjálft verði flutt, enda er hús ekki leikhús. Þetta skiljum við hér í Kópavogi. Nei, leikararnir, tímasetningin og textinn sjálfur, "performansinn", það er leikhús. Húsið sjálft skiptir í raun litlu máli og í mörgum tilfellum bara best að sleppa því. Það gerðu Grikkirnir. Og ég held að ég geti sagt að í Kópavogi horfum við til opna leikhússins í Grikklandi hinu forna sem fyrirmyndar í menningarlífi okkar.

Þeir kunnu að spara. En það kunna Reykvíkingar ekki.

Reykvíkingar myndu aldrei setja á svið leikrit á opnu svæði og nýta fegurð náttúrunnar sem leiktjöld. Menn verða kunna sér hóf og hafa listrænt innsæi.

Færum leikhús Reykjavíkur í Kópavog! Bæjarstjórinn hefur sjálfur lofað fimmtíu þúsund krónum í viðbót ef vel gengur.

Ég sé fyrir mér uppfærslu á Dario Fo-leikritinu: Við borgum ekki! Það lýsir baráttu sparsams fólks andspænis valdinu. Söguþráðurinn sem ég er svo hrifinn af er einhvern veginn svona: Fátækar mæður næla sér klókindalega í ókeypis mat og fela hann fyrir lögregluþjóninum. Lögregluþjónninn er reyndar fasisti, í strangasta skilningi Dario Fo, en mér finnst það ljótt orð, við skulum heldur kalla hann peningalöggu eða guðföður peninganna. Á endanum hafa mæðurnar sigur og þurfa ekki að borga. Þetta er frábært leikrit!

En hver ætli geti leikið peningalögguna? Þetta er erfitt hlutverk og þarf að leika af natni. Ég man svo vel hversu nákvæmur og hagrænn Gísli Rúnar var í hlutverkinu og hvernig Siggi Sigurjóns lék af útsjónarsemi einstæðs föður.

Auðvitað geri ég mér grein fyrir að ein og hálf milljón eru ekki miklir peningar en duga, af því að við í Kópavoginum erum sparsamir. Hundruð milljóna, eins og þeir í Borgarleikhúsinu fengu, eru ekki miklir peningar þegar menn kunna ekki að fara með þá - í burtu eins og Árni Johnsen.

Og þá rennur upp fyrir mér að hugsanlega gæti Gunnar Birgisson leikið guðföður peninganna. Já, hann hefur vissulega þá hógværð í leikrænni tjáningu sem nauðsynleg er í flutningi á leikriti í Kópavogi og hinn nægjusama fjölda svipbrigða í anda Roger Moore, hann er í miklum metum hjá mér, sem nauðsynlegur er í ábyrgu uppgangsleikhúsi.

Við megum engan tíma missa. Tímasetning er það mikilvægasta í hverju leikhúsi. Það lærðum við af Borgarleikhúsinu fyrir síðustu kosningar. Rýtingsstungan verður að koma í bakið á réttum leikara á réttum tíma, annars er öll sýningin unnin fyrir gýg. Og það getur verið mjög kostnaðarsamt.

Við þurfum svar við menningarstefnu R-listans í Reykjavík! Flytjum Borgarleikhúsið, eins og Óperuna, á menningarfjárlög Kópavogs! Strax í dag! Áfram Ísland!

ÞORVALDUR LOGASON,

heimspekinemi,

Fannarfelli 8, Reykjavík.

Frá Þorvaldi Logasyni