Sagt er að næringarlega séð sé quinoa ofurkorn. Það býr yfir álíka miklu prótíni og mjólk og í því er meira járn en öðru korni. Auk þess hefur það amínósýrur sem vantar í annað korn, auk kalíums, kalks, fjölda B-vítamína og annarra bætiefna.

En í raun er quinoa, sem fæst í heilsubúðum, fræ af jurt ekki ólíkri spínati. Það hefur verið ræktað í Suður-Ameríku í meira en 5000 ár. Inkar kölluðu það ,,móðurkornið" og álitu heilagt. Í Suður-Ameríku er það notað í súpur og brauð, í drykk áþekkan bjór og til lækninga.

Það hefur létt og fínt bragð. Frá náttúrunnar hendi kemur það með biturri húð til að hrekja frá skordýr og fugla og er húðin fjarlægð áður en kornið kemst í hendur neytandans. Þrátt fyrir það ætti að skola það vandlega áður en það er matreitt. Það ætti að fjarlægja allar leifar beiska bragðsins. Einnig er gott að setja smá sítrónu saman við. Þegar kornið soðnar, losnar litli frjóanginn frá sem umvefur sérhvert korn, og myndar lítinn hala, ekki ólíkt baunapíru. Þrátt fyrir að kornið sjálft sé kremað og mjúkt undir tönn, helst halinn stökkur sem gefur quinoanu sérstaka og skemmtilega áferð. Sumum þykir gott að rista kornið á þurri pönnu í fimm mínútur áður en það er soðið, til að fá ristað bragð. Notið tvo hluta af vatni á móti einum hluta af quinoa, og það ætti að vera tilbúið eftir 15 mínútur. Mathönnuðurinn Sólveig Eiríksdóttir hefur notað quinoa í meira en 20 ár. Hún veitti uppskriftir að þremur réttum sem gefa góða mynd af því á hve fjölbreyttan máta má nota quinoa.

Umsjón Hildur Loftsdóttir. Ljósmyndir Arnaldur Halldórsson.