Kennimerki Hólaskóla er sótt í Guðbrandsbiblíu, segir Skúli Skúlason rektor.
Kennimerki Hólaskóla er sótt í Guðbrandsbiblíu, segir Skúli Skúlason rektor. — Morgunblaðið/RAX
Hverfulleiki tímans er sínálægur í starfi Hólaskóla, háskólans á Hólum. Á meðan verið er að grafa upp menjar um gamalt skólastarf handan vegarins fer starfsemin fram í gömlum húsum, sem þannig hefur verið gefið nýtt hlutverk.

Hverfulleiki tímans er sínálægur í starfi Hólaskóla, háskólans á Hólum. Á meðan verið er að grafa upp menjar um gamalt skólastarf handan vegarins fer starfsemin fram í gömlum húsum, sem þannig hefur verið gefið nýtt hlutverk. Vinnustofa fornleifafræðinga er á gömlu bílaverkstæði, bleikjukynbótastöðin í fjárhúsi, eitt hesthúsið í loðdýrabúi, rannsóknarstofa í frystiklefa og vatnalífssýningin í haughúsinu. Þannig tekur sagan sífellt á sig nýjan búning á Hólum.

Tíu þjóðerni í hestanámi

"Það sem hefur vegið þyngst í síðari tíma þróun skólastarfs á Hólum er að við byggjum á sögu og menningu staðarins, stöndum á öxlum þeirra sem byggðu hann upp," segir Skúli Skúlason, rektor Hólaskóla.

"Sérhæfing í námsþróun skólans hefur einnig haft mikla þýðingu, öflugar rannsóknir, samstarf við aðra skóla og alþjóðleg tengsl. Við erum með marga erlenda nemendur, bæði í rannsóknartengdu meistara- og doktorsnámi og eins í grunnnáminu í hestafræðum. Þar eru níu þjóðerni, tíu með Íslendingum. Við leggjum mikla áherslu á þann þekkingariðnað sem byggst hefur upp í kringumhesta á Íslandi og teljum það gott dæmi um hvernig þekking eykur arðsemi, árangur og vöxt."

Skólahald í níu aldir

Níu aldir eru liðnar síðan skólahald hófst á Hólum með dómsskóla Jóns Ögmundarsonar biskups. Það var einn fyrsti dómsskóli á Norðurlöndum, aðeins átján árum yngri háskólanum í Bologna, þeim elsta í Evrópu.

Mikill metnaður var frá upphafi í skólastarfinu og fékk Jón til landsins lærða menn frá útlöndum, m.a. franskan mann að nafni Rikini til að kenna messugjörð. Sjálfur var Jón mikill áhugamaður um tónlist og annálaður söngmaður; til er saga af því þegar hann stóð aftast í dómkirkjunni í Lundi og upphóf raust sína í messu, þá sneru sér allir við í kirkjunni, jafnvel þótt erkibiskupinn hefði lagt blátt bann við slíku í messugjörð.

"Eftir siðaskiptin breyttist skólinn í latínuskóla, sem fjölfræðingarnir Guðbrandur Þorláksson biskup og Arngrímur lærði hófu til vegs og virðingar," segir Skúli. "Skólahald lagðist af árið 1801 og var flutt til Reykjavíkur, en í huga Norðlendinga var þetta áfram hinn norðlenski skóli. Menntaskólinn og Háskólinn á Akureyri tengjast þessari arfleifð og því hefur verið sterkt samband milli Akureyrar og Hóla."

Svo gerist það að Benedikt Vigfússon bóndi og prestur eignast jörðina árið 1825, byggir staðinn upp og gerir hann færan um að taka við búnaðarskóla árið 1882. Norðlendingar standa að því sameiginlega, en á þeim tíma varð mikil vakning í landbúnaði, ekki síst fyrir frumkvæði Jóns Sigurðssonar forseta, sem beitti sér fyrir uppfræðslu bænda. Þróunin í lok nítjándu aldar er ótrúlega lík þeirri sem varð í lok þeirrar tuttugustu, nema þá færðist allt á háskólastig. Og að nokkru leyti var Jón Ögmundarson í svipuðu brautryðjandahlutverki árið 1106 - að svara kalli tímans."

Meiri sérhæfing og fjölbreytni

Hefðbundinn bændaskóli er starfræktur fram undir 1980, en þá má segja að önnur bylting eigi sér stað í landbúnaði með nýjum atvinnuháttum og viðhorfum, þar sem áhersla er lögð á meiri fjölbreytni.

"Búnaðarmenntun í landinu tók að þróast í átt að því sem tíðkast í Evrópu, enda eru margir helstu náttúruvísindaskólar erlendis gamlir bændaskólar. Þegar Jón Bjarnason tekur við skólanum árið 1980 er tekin sú ákvörðun að sérhæfa skólann og þróa nýjar greinar; það sem verður ofan á er fiskeldi og fiskalíffræði, hestamennska og hrossarækt, og ferðamálafræði með áherslu á menningu og náttúru. Allt tengt atvinnugreinum í örum vexti.

Í byrjun tíunda áratugarins er sú stefna tekin hjá skólanum að byggja upp öflugt rannsóknarstarf og við það styrkjast tengsl við Háskóla Íslands, sem og aðra innlenda og ekki síður erlenda háskóla. Hingað sækir starfsfólk sem tekur þátt í að byggja upp fræðimennsku og rannsóknir í þeim greinum sem kenndar eru við skólann. Fyrir vikið þróast starfið smám saman nær því sem gerist á háskólastigi og gerist það með formlegum hætti árið 2003."

Frábær námsaðstaða

Að sögn Skúla var það algjör bylting fyrir nám á Hólum þegar námið komst á háskólastig, því um leið var markið sett hærra og skólinn gjaldgengur í háskólasamfélaginu. En hann nefnir til viðbótar að grundvöllur þess árangurs sem náðst hafi sé sú góða aðstaða sem byggst hafi upp fyrir nám við skólann.

"Í hestanáminu getum við státað af frábærum hesthúsum og reiðhöllum. Þegar kemur að kennslu og rannsóknum í fiskeldi og fiskalíffræði er ferskvatnsrannsóknarstöð á Hólum og sjávarfræðasetur á Sauðárkróki. Og í ferðamálanáminu er staðurinn sjálfur eins og tilraunastöð í menningar- og náttúrutengdri ferðamennsku, dalurinn, fjöllin og Tröllaskaginn. Varla er hægt að hugsa sér betri stað fyrir slíkt nám."

- Og námið nýtist staðnum líka?

"Já, ferðaþjónustan á Hólum nýtur góðs af því í ýmsum þróunarverkefnum, t.d. hafa nemendur búið til göngustíga og merktar gönguleiðir um allt og rannsóknir snúast m.a. um matargerð út frá menningararfinum."

Jákvæð áhrif á atvinnulíf

Nemendum við Hólaskóla hefur fjölgað á síðustu fjórum árum úr 50 í 140 og er áætlað að þeir verði 300 árið 2010. "Til þess að mæta því erum við að byggja upp nemendagarða. Við uppbyggingu skólans njótum stuðnings stjórnvalda, enda hefur sú byggðastefna skilað góðum árangri að efla menningarsetur og skólastarf á landsbyggðinni. En við njótum einnig mikils stuðnings frá byggðarlaginu, t.d. dýrmæts framlags frá Kaupfélagi Skagfirðinga og FISK Seafood og Skagafjarðarveitum."

Og uppbyggingin mun halda áfram á Hólum, einkum varðandi hvers kyns fræðatengda menningu.

"Sviðið er að breikka, sem gefur vísbendingu um þróunina á næstu árum. Áhersla á greinar á borð við fornleifafræði og guðfræði á eftir að aukast mikið og einnig náttúruvísindi almennt, s.s. tengd fiskum og hestum. Við stefnum t.d. að því að hefja nám í sumarskóla í hestamennsku. Menningar- og fræðasetrið er mjög mikilvægt í þessari uppbyggingu."

Starfsemin á Hólum er farin að hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf í byggðarlaginu, að sögn Skúla. Fyrirtækjum hefur fjölgað sem beita þessari þekkingu, s.s. varðandi hesta, ferðaþjónustu og fiskeldi. Þá er uppbygging sjávarfræðaseturs við höfnina á Sauðárkróki þegar farin að skila nýjum verkefnum eftir aðeins tveggja ára starfsemi.

"Í menningargeiranum búum við svo vel í Skagafirði að eiga sterkar menningarstofnanir, eins og Byggðasafn Skagfirðinga og Vesturfarasetrið á Hofsósi, sem við erum í miklu sambandi við. Og ég hef tekið eftir því sem gamall Akureyringur hvað Skagfirðingar standa þétt saman."

Nýtt ritrýnt tímarit

- Og stuðst er við gamlar hefðir úr skólahaldi á Hólum?

"Skólinn hefur tekið þá stefnu, sérstaklega í kjölfarið á háskólaþróuninni, að tengja sig markvisst við sögu staðarins," segir Skúli. "Besta dæmið er nýtt kennimerki skólans, H, sem sótt er í Guðbrandsbiblíu. Svo búum við að því að geta sótt í söguna aragrúa af tengingum, t.d. endurreistum við Ósýnilega félagið árið 1992, elsta vísindafélag Íslands sem stofnað var á miðri 18. öld. Þá hefur skólinn staðið fyrir alls kyns málþingum og uppákomum, sem byggja á sögu staðarins og fornleifarannsóknum; Hólaskóli keyrir það verkefni áfram með Þjóðminjasafninu og Byggðasafni Skagfirðinga."

Og vegna sögunnar og þeirrar þróunar sem er að verða á háskólanáminu teljum við okkur vera í sterkri stöðu til að fjalla um hvert skólastarf stefnir í landinu. Þess vegna stendur til að við höldum skólaráðstefnu í vor, þar sem m.a. rektor Háskóla Íslands heldur fyrirlestur og einnig formaður samtaka evrópskra háskóla. Reifuð verður saga skólahalds, en einnig rætt á framsækinn hátt um stöðu háskólanáms og undirbúningsnáms á framhaldsskólastigi. Fyrirlestrarnir verða gefnir út og hefjum við með því útgáfu ritrýnds tímarits frá Hólum.

Annað hefti tímaritsins kemur út með fyrirlestrum af alþjóðlegri fornleifaráðstefnu í ágúst. Sú ráðstefna er afrakstur fjögurra ára rannsókna á Hólum, sem um 40 manns af ýmsum þjóðernum hafa unnið að."

- Hvað heitir tímaritið?

"Ef til vill Guðbrandur. Það er við hæfi, ekki síst þegar skoðað er fyrir hvað nafnið stendur."

Frá New York til Hóla

Rannsóknarstarfið sem unnið er á Hólum er ekki aðeins mikil kjölfesta í skólastarfinu heldur hefur það greitt fyrir því að vel menntað starfsfólk ráðist til skólans.

"Einnig spilar inn í að hér er gott að búa," segir Skúli. "Þetta litla samfélag býður upp á mikil lífsgæði, s.s. grunn- og leikskóla, fallegan skóg, sundlaug, menningu, litla búð og svo kjöraðstöðu fyrir hestamennsku. Þannig að háskólafólk sem er að flippa út á stressinu í stórborgum eins og New York sækir hingað, eignast börn og stundar fræðin. Það fer jafnvel enn betur um það hér en í Vesturbænum! Þetta er eitt það helsta sem byggðastefnan gengur út á, að átta sig á lífsgæðum landsbyggðarinnar.

Við erum einmitt að velta fyrir okkur byggðaþróunarnámi, en eins og annað nám hjá okkur yrði það í samstarfi við innlenda og erlenda háskóla og stofnanir. Við sækjum búsetukraftinn í aðstöðuna og byggðarlagið, en eflum faglegu gæðin og fólkið með samstarfi út á við."