Jóna Jakobína Jónsdóttir fæddist á Litluströnd í Mývatnssveit 31. desember 1923. Hún lést á heimili sínu á Langholtsvegi 139 hinn 11. janúar síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Reykjahlíðarkirkju 20. janúar.

Aðeins fátækleg þakkarorð á kveðjustundu vinu; Jónu J. Jónsdóttur, húsfreyju í Vogum 3 í Mývatnssveit. Allt frá því er við hittum hana fyrst geisluðu augu hennar gleðinni yfir því lífsins láni, er umvafði hana á ævinnar braut. Hún átti æskuslóð í töfraheimi þeirrar menningar er þjóð okkar er stoltust af. Hún hlaut draumaprinsinn sinn, varð drottning í húsi hans, og saman réttu þau íslenzkri þjóð fimm mannvænleg börn, sem þjálfuð voru til klifs í þroskans fjöll.

Húsið hennar við vatnsins vog er ekki hátimbruð höll, en það rúmaði samt stórfjölskylduna alla, afa og ömmu, pabba og mömmu, og börnin öll bæði af holdi og í tengdum, og síðan þeirra afkomendur; allir gátu og geta sagt: Þetta er húsið mitt! Þar voru ævintýri sögð og rædd; þar hljómaði tónsins mál; þar var yfir sigrum fagnað og þar voru þerruð tár.

Já, við urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að teljast meðal vina Jónu og Stefáns, nutum heillandi gáfna þeirra og lífsins þroska. Var það tilviljun, að lífið rétti okkur öllum Langholtskirkju að metnaðarmáli? Við höldum ekki! Og fyrir það skal þakkað, - glaðzt. Stefán bóndi kvaddi jarðsviðið 10. marz 1999, Jóna húsfreyja 11. jan. 2006. Daginn eftir, hinn 12., hefðu þau átt sextugs-brúðkaups-afmæli! Við sjáum Jónu halda með brúðarskóna til fundar við bónda sinn, og þau fagnandi stíga brúðarvalsinn, á ný, í ljóma "himnanna hásals". Kærleikans guð blessi þau og alla sem hjörtu þeirra slógu fyrir.

Kristín og Sig. Haukur.

Mig langar til að setja á blað örfá kveðjuorð til minnar kæru nágrannakonu, Jónu í Vogum.

Við Jóna höfum verið nágrannar á Vogatorfunni, sem við gjarnan köllum svo, síðan 1958 eða hartnær hálfa öld og minningarnar streyma fram. Um langt árabil vorum við Jóna saman í saumaklúbbi og störfuðum saman í slysavarnadeildinni Hring hér í sveit. Það var alltaf svo gott að vera í návist Jónu með sína glaðværð, sitt jákvæða lífsviðhorf og stórkostlegan húmor. Við Vogakonur bárum gæfu til að hjálpast að þegar einhvers konar erfiðleikar steðjuðu að og var Jóna þar ekki eftirbátur annarra. Mér er minnisstætt tímabil þar sem ég lá veik um tíma árið 1969. Þá streymdi inn á heimilið kaffibrauð og ýmislegt góðgæti og höfðu börnin mín ekki lifað aðra eins gósentíð. Þar kom Jóna mín ekki síst við sögu.

Líka fékk ég tækifæri til að hjálpa henni við akstur einhverju sinni þegar hún datt og handleggsbrotnaði skömmu fyrir jól. Við Jóna hittumst í síðasta sinn um það leyti sem hún veiktist í desember síðastliðnum og vorum þá einmitt að rifja þetta upp. Ósjaldan hringdi hún ef hún vissi af bágbornu heilsufari okkar hjóna og spurði frétta og sagðist búin að kveikja á kerti fyrir okkur.

Jóna átti stóra og elskulega fjölskyldu sem umvafði hana og er þeirra missir og harmur mikill. Og víst er að samfélagið hér í Vogum verður ekki samt án hennar.

Vertu svo guði falin, elsku Jóna mín, og þakka þér fyrir allt og megi guð hugga og styrkja ástvini þína alla.

Lilja.

Heim í Voga.

Amma og afi, Jóna og Stefán - nú eru þau öll farin. Jóna okkar er farin. Það kom okkur öllum á óvart, þrátt fyrir allt. Elsku Hinrik, Nína, Jón Árni, Valla, Erna og mamma. Eina ferðina enn breytist kveðjan í Voga. Við komum samt öll heim í Voga og út í Húsnestá. Horfum vestur á vatn, njótum fegurðarinnar, minnumst þeirra sem við söknum. Jóna var fastur punktur okkar í gömlu Vogum afa og ömmu. Hún var í eldhúsglugganum sínum. Tók á móti okkur með sinni hlýju og væntumþykju. Alltaf létt og skemmtileg. Vildi öllum gott. Gjarnan ystingur í pottinum. Hún vissi hvað mér þótti best. Ég man þegar ég kom fyrst ein að sumarlagi í Voga, ung með Guðmund minn 6 mánaða gamlan, "Mumpur minn" kallaði hún hann í gælutón.

Við Pétur skrifuðumst á - sveitasíminn var opinn. Jóna stríddi mér inn um skráargatið. Hún var skemmtilega stríðin. Hélt lífinu í pabba sínum með sinni stríðni og léttleika. "Æi Jóna mín," sagði hann og gat ekki varist brosi. Jóna var jákvæð og létt í lund og lagði gott orð til allra. Ég man dásamlegu silungssúpuna hennar. Lagt á borð sunnan við hús í sólskininu, börnin okkar skoppandi berfætt í grasinu. Lífið var dásamlegt. Börn okkar Péturs og barnabörn áttu athvarf og fengu að njóta hlýju og gestrisni Jónu, þegar þau komu heim í Voga. Barnabörn hennar áttu sitt annað heimili í Vogum, að ógleymdum öllum sumardvalarbörnum, sem nutu hennar umönnunar, alveg eins og við hjá ömmu og afa í Vogum. Þeirra missir er mikill, en þau munu koma eins og við og minnast ömmu sinnar og afa í Vogum. Við minnumst yndislegra sólskinsstunda úti á hól, og úti á palli hjá Jónu yfir kaffibolla og spjalli. Nú setjumst við þar og yljum okkur við minningar um góða konu, sem öllum þótti vænt um. Jóna fékk friðsælt andlát heima á Langholtsvegi, í sínu rúmi með varalitinn á náttborðinu. Hún fór til Stefáns síns, tímanlega til þess að vera með honum á 60 ára brúðkaupsafmæli þeirra, hinn 12. janúar.

Guð blessi minningu elsku Jónu okkar og Stefáns, afa og ömmu, og þeirra sem farnir eru.

Elsku Dísa mín, Jónsi, Kobbi, Óli Þröstur og Solla Valla. Guð veri með ykkur, börnum ykkar, barnabörnum og fjölskyldunni allri.

Sólveig Ólöf Jónsdóttir.

Lífið er ferðalag þar sem endastöðin er óráðin, og við ferðalangar í þessari ferð berum ábyrgð á því að njóta ferðarinnar. Jóna í Vogum lifði svo sannarlega eftir því. Ekkert er gefið í þessum heimin og að við eigum að vera þakklát fyrir það sem að okkur er rétt, reyna að gera sem mest úr því og njóta þess voru skilaboðin frá Jónu.

Ég kynnist Jónu þegar ég á unglingsaldri fór að gera komur mínar í Mývatnsveit. Við unga fólkið fengum leiðsögn Jónu og Stefáns og skemmtilegar sögur til að draga lærdóm af.

Jóna var jafnan hrókur alls fagnaðar á mannamótum í eldhúsinu hennar og hún passaði uppá að fá að fylgjast vel með. Mér er minnisstætt þegar við fórum í eggjatínslu út á vatnið eina sumarnóttina. Um miðja nótt eftir góða ferð og tíðindamikla þá beið okkar ljóstýra í eldhúsglugganum í Vogum III og Jóna gaf merki um að við ættum öll að koma inn í kaffi og meðlæti og segja sögur af ferðinni. Svona var Jóna, það skipti engu þó það væri mið nótt, fólk var á ferðinni kalt og hrakið og skyldi fá að orna sér í eldhúsinu hennar og endurlifa ævintýrið með sögum og hlátrasköllum. Margar svona minningar koma upp í hugann þegar Jóna er komin á sína endastöð þar sem Stefán tekur á móti henni glaður að endurheimta Jónu sína aftur. Með okkur Jónu þróaðist vinátta sem var mér afar kær og í gegnum hana hélt ég tengslum við börnin hennar sem ég kynnist ung þeim Sollu Völu, Óla Þresti og Kobba. Seinna fékk ég svo tækifæri á að kynnast Dísu og Jónsa og flestum hennar barnabörnum og tengdafólki. Jóna var mér fyrirmynd sem ég mun geyma með mér á mínu ferðalagi.

Jónsi, Dísa, Kobbi, Óli Þröstur, Solla Vala, tengdafólk og barnabörn, ég sendi mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.

Elsku amma, það er skrítið til þess að hugsa að næst þegar við komum í Voga verðir þú ekki í glugganum að bíða eftir okkur. Við vorum sumarbörnin þín og við hlökkuðum til að koma allan veturinn. Í sveitinni gerðust ævintýrin og eftir viðburðarríkan dag, berfætt í hrauninu, eða við bústörf niðri við vatn var kærkomið að setjast í eldhúsið og drekka kvöldmjólkina. Kannski ömmu Jónu kleinur sem við dýfðum í mjólk. Í minningunni var alltaf sól í sveitinni og þú varst sveitin sjálf.

Það er svo ótrúlega sárt að fá ekki að njóta félagsskapar þíns lengur. En þrátt fyrir sársaukann þá kalla minningarnar um þig ekki fram annað en bros og hlátur. Minningarnar um ömmu sem tók út úr sér tennurnar fyrir okkur. Ömmu sem lagði kapal og hjálpaði honum bara aðeins að ganga upp. Ömmu sem hafði alltaf tíma til að spjalla og segja okkur sögur af uppátækjunum sínum og hrekkjum. Ömmu sem pissaði einu sinni niður stromp. Ömmu forvitnu. Ömmu sem fann upp ótal ný orðatiltæki. Ömmu út í glugga að fylgjast með mannaferðum. Ömmu sem hraut yfir fréttunum og furðaði sig svo á því hvað þær voru stuttar. Ömmu sem sagði þrjár sögur í einu. Við munum aldrei gleyma því þegar þú huggaðir okkur þegar við höfðum meitt okkur og róaðir okkur þegar við lágum veik. Við munum ávallt minnast ömmu okkar sem sat og gat hlustað endalaust á bullið í barnabörnum sínum og hlegið með.

Elsku amma. Við erum svo þakklát fyrir allt sem þú hefur gefið okkur í gegnum tíðina og að þú fékkst að sjá Jökul og Ísak. Þegar þeir vaxa úr grasi og fá að hlaupa um berfættir í Vogum munum við segja þeim sögurnar þínar.

Hrafnhildur, Hjalti og Daði.

Við systurnar erum að reyna að skrifa nokkur orð um Jónu, þessa hlýju og brosmildu konu. Minningarnar streyma, ef maður ætti að líta upp til einhvers þá var það til Jónu. Sama hve margir voru hjá þeim og hvað hún var að gera, baka kleinur, undirbúa matinn eða eitthvað annað, alltaf fékk maður þetta fallega bros sem gat þýtt svo margt fallegt og gott fyrir tvær systur, sumargesti frá Reykjavík. Við viljum þakka ykkur, Jóna mín og Stefán, fyrir öll árin með ykkur.

Elskulegu fjölskyldur megi góður guð gefa ykkur styrk því mikill er missir.

Marta R. og

Sigurveig Hjörleifsd.