25. janúar 1976: "Eitt veigamesta atriði fiskverndar og skynsamlegrar nýtingar fiskstofnanna er friðun hrygningar- og uppeldissvæða.
25. janúar 1976: "Eitt veigamesta atriði fiskverndar og skynsamlegrar nýtingar fiskstofnanna er friðun hrygningar- og uppeldissvæða. Miklu varðar að slík friðunarsvæði verði virt, bæði af okkur sjálfum og erlendum aðilum, sem hér kunna að fá skammtíma veiðiheimildir fram yfir lyktir hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Helztur vinningur útfærðrar fiskveiðilandhelgi er að ná markvissri stjórn á fiskveiðisókninni."

26. janúar 1986: "Ekki er ólíklegt, að þinghaldið það sem eftir er vetrar muni bera þess nokkur merki að sveitarstjórnarkosningar fara í hönd. Vonandi verður það þó ekki til þess, að mikilvægum úrlausnarefnum verði ýtt til hliðar eða um þau fjallað af ábyrgðarleysi, sem því miður einkennir stundum málflutning stjórnmálamanna þegar skammt er til kosninga. Kjarasamningar eru einnig framundan og vafalaust mun óvissan, sem nú ríkir um horfur á vinnumarkaði, setja svip á þingstörfin.

Fyrir þinginu liggja stjórnarfrumvörp til laga um sveitarstjórnir, Seðlabankann, Stjórnarráðið og verðbréfamiðlun, svo nokkuð sé nefnt. Ef samkomulag verður í þingflokkum stjórnarliða má einnig vænta frumvarpa til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, virðisaukaskatt, fasteignasölu og greiðslukort."

28. janúar 1996: "Þær umræður, sem nú standa yfir um framtíð vistheimilisins á Bjargi, eru skýrt dæmi um þær ógöngur, sem sparnaðaraðgerðir á spítölum eru komnar í. Á Bjargi búa að jafnaði 12 til 14 einstaklingar, sem eiga við geðklofasjúkdóm að stríða, sem er einn hinn erfiðasti á sviði geðsýki. Þessir einstaklingar geta ekki, á þeim tíma sjúkdómsins, sem þeir eru vistaðir á Bjargi, búið einir og óstuddir og það er í mörgum tilvikum til of mikils mælzt, að fjölskyldur þeirra sjái um þá [...]

Nú hefur Ríkisspítölum verið gert að draga verulega úr útgjöldum. Að því verki er staðið á þann hátt, að niðurskurðinum er skipt niður á hinar ýmsu deildir, þ.á m. geðdeild Landspítalans. Á þeirri deild hefur hvað eftir annað á undanförnum árum verið gripið til lokana vissan hluta ársins til þess að mæta kröfum um niðurskurð útgjalda og á sl. ári lýstu talsmenn deildarinnar yfir því, að niðurskurðurinn væri kominn svo langt, að af því stafaði bein hætta fyrir sjúklinga."