Grein þín í Morgunblaðinu nýlega "Jól á Landspítala - háskólasjúkrahúsi", sem fjallaði um mannlegu hliðina á lífi og starfi á spítalanum og fjarlæga stjórnendur hans, vakti töluverða athygli. Hvað rak þig til að skrifa hana?
Grein þín í Morgunblaðinu nýlega "Jól á Landspítala - háskólasjúkrahúsi", sem fjallaði um mannlegu hliðina á lífi og starfi á spítalanum og fjarlæga stjórnendur hans, vakti töluverða athygli. Hvað rak þig til að skrifa hana?

Þetta var nú orðið nokkuð uppsafnað hjá mér eins og kom fram í greininni. Um jól og áramót lítur maður gjarnan til baka, það er búið að vera mikið álag á starfsfólkinu á deildinni undanfarið og mér fannst allir eiga allt gott skilið. Svo var mjög erfitt að vinna þessa jólakvöldvakt. En það var fyrst og fremst tilfinningin þegar ég afhenti greiðsluna fyrir jólamáltíðina í matsalnum sem ýtti við mér - og þá er ég að sjálfsögðu ekki að tala um að ég sjái eftir peningunum. Jólin eru helg. Þá fögnum við fæðingu frelsarans. Þá er þetta ekki viðeigandi. Ég var búin að kvarta yfir þessu áður en án árangurs. Greinin átti að vera svona til umhugsunar.

Hvernig hafa viðbrögðin verið?

Ótrúlega mikil; ég hef fengið kveðjur frá fólki héðan og þaðan og flestir samstarfsmenn mínir þakkað mér fyrir hana. Svo er fólk á stigagöngunum að spyrja hvort ég heiti Guðrún, þakkar mér fyrir og segir að þetta hafi einmitt verið það sem það hafi verið að hugsa. Deildir hafa hengt hana upp hjá sér, meira að segja á Ísafirði.

Hvað heldur þér í starfi sjúkraliðans?

Starf sjúkraliðans er að mörgu leyti mjög fjölbreytt. Það er enginn dagur öðrum líkur. Nýuppbúið rúm, nýr einstaklingur, ný saga. Erfiðast er að horfa upp á unga fólkið sem lendir í slysum eða langvinnum sjúkdómum. En aftur á móti er yndislegt þegar vel tekst til og bati næst. Samstarfsfólkið er gott og vinnur vel saman.

Hvers vegna lagðirðu þessa starfsgrein fyrir þig?

Á yngri árum vann ég í Samvinnubankanum og vann mig upp í góða stöðu. Síðan var ég heimavinnandi húsmóðir í mörg ár. En þegar ég ætlaði aftur út á vinnumarkaðinn var bankinn minn hættur og erfitt fyrir heimavinnandi húsmóður til margra ára að fá vinnu. Ég dreif mig þá í sjúkraliðanámið því ég vissi að það hentaði mér vel eftir að hafa hugsað um veika aldraða fjölskyldumeðlimi á meðan ég var heima.

Stundum er sagt að mikil stéttaskipting ríki á sjúkrahúsum. Er það þín reynsla?

Það virðast allir sammála um það án þess að ég vilji fara nánar út í það, enda hef ég ekki kynnt mér málið nógu vel þó að margt sé sýnilegt. Mín skoðun er sú að manneskja sem eyðir einhverjum hluta ævinnar í að flokka fólk og athuga hvort að það sé nógu merkilegt fer á mis við margt skemmtilegt í lífinu. Á deildinni minni gengi sú hugsun ekki upp; þar verða allir að hjálpast að, því annars skapaðist hættuástand.

Hvað dreymdi þig í æsku um að verða þegar þú yrðir stór?

Að stofna stórt munaðarleysingjaheimili í sveit.

Hverjir eru fjölskylduhagirnir?

Ég á eiginmann Gylfa Knudsen og þrjú uppkomin börn, Sigurbjörn, Kristjönu og Halldór, sem býr enn heima og tvö barnabörn, Guðrúnu Rósu fjögurra ára og Kristjón Karl tveggja mánaða. Síðan er ég svo heppin að eiga hressa móður og átta systkini.

Hvaða áhugamál áttu?

Eins og hjá flestum eru áhugamálin nokkuð mörg. Fjölskyldan og heimilið, að prjóna, hekla, stunda jóga, útivist, rækta garðinn minn eða sumarhúsið, og svo náttúrulega vinnan.

Veldur reynsla þín í starfi því að þú kvíðir elliárunum?

Alls ekki. Ég hef nú lifað 60 nokkuð góð ár og það þurfa allir að taka því sem að höndum ber.

Hvernig vildirðu helst verja þeim?

Ég gæti vel hugsað mér að eyða drjúgum hluta ársins í Guðrúnarkoti, fjallakofanum mínum austur í Laugardal. Þar horfi ég yfir dalinn, til fjallanna og vatnanna og til himins, sæki vatnið í uppsprettuna eða bara prjóna. | ath@mbl.is