Hluti af innsetningu Rachel Whiteread í túrbínusalnum í Tate Modern-listasafninu í Lundúnum í fyrra.
Hluti af innsetningu Rachel Whiteread í túrbínusalnum í Tate Modern-listasafninu í Lundúnum í fyrra. — Reuters
RÚMLEGA 56% þeirrar samtímamyndlistar sem seld er á Bretlandseyjum er keypt af konum. Dagblaðið The Scotsman hefur það eftir tölum Listaráðs Englands (e. Arts Council of England).

RÚMLEGA 56% þeirrar samtímamyndlistar sem seld er á Bretlandseyjum er keypt af konum. Dagblaðið The Scotsman hefur það eftir tölum Listaráðs Englands (e. Arts Council of England). Aukinn áhugi kvenna á því að safna samtímamyndlist er að hluta tileinkuð því að listakonur hafa verið áberandi í landinu á undanförnum árum, m.a. Tracey Emin og Rachel Whiteread.

Patrick Elliott, aðalsýningarstjóri skoska nútímalistasafnsins í Edinborg, segir myndlistarkonur hafa haft gríðarleg áhrif á undanförnum árum. Myndlistarkonur á við Tracey Emin hafi víkkað sjóndeildarhringinn og kveikt aukinn áhuga kvenna á myndlist. Viðhorf gallería gætu einnig verið að breytast.

"Við höfum fjarlægst það umhverfi sem var á 7. áratugnum þegar listagallerí voru með aðlaðandi stúlku við afgreiðsluborðið til þess að veiða karlkyns viðskiptavini. Að því loknu steig maður fram úr bakherbergi og gekk frá sölunni," segir Elliott. Konur séu líka með meira fé milli handa nú en áður. Tugir vellauðugra kvenna safni nú myndlist á Bretlandseyjum. Segir frá þessu í fréttabréfi frá listavefnum Artinfo.com.