[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Siðferði hefndarinnar er viðfangsefni nýjustu kvikmyndar bandaríska leikstjórans Stevens Spielbergs. Myndin ber nafnið München og vísar til þess þegar palestínskir hryðjuverkamenn réðust inn í Ólympíuþorpið í München á Ólympíuleikunum að morgni 5.

Siðferði hefndarinnar er viðfangsefni nýjustu kvikmyndar bandaríska leikstjórans Stevens Spielbergs. Myndin ber nafnið München og vísar til þess þegar palestínskir hryðjuverkamenn réðust inn í Ólympíuþorpið í München á Ólympíuleikunum að morgni 5. september árið 1972. Þeir tóku 11 liðsmenn úr ólympíuliði Ísraels í gíslingu og kröfðust þess að um 200 palestínskir fangar í Ísrael yrðu látnir lausir. Að baki árásinni stóð hópur, sem nefndi sig Svarta september. Gíslatökunni lyktaði með blóðbaði tæpum sólarhring síðar. Allir gíslarnir létu lífið. Þrír hryðjuverkamannanna lifðu af.

Árásin á Ólympíuþorpið markaði vatnaskil. Hún var upphaf hryðjuverka á Vesturlöndum eftir seinni heimsstyrjöldina. Að vissu leyti má bera árásina saman við hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 1972. Báðar þessar árásir skóku heiminn. Í báðum tilfellum var heimurinn vakinn með ofbeldi og blóðsúthellingum. Ólympíuleikarnir voru í beinni útsendingu og myndirnar frá München brenndu sig inn í vitund fólks líkt og myndirnar af tvíburaturnunum, World Trade Center, á Manhattan í ljósum logum. Þjóðverjar höfðu ætlað að nota Ólympíuleikana til að sýna hversu friðsamir þeir væru og hve mikið vatn hefði runnið til sjávar frá tímum þriðja ríkisins. Þeir gengu svo langt í því að öryggisgæsla við Ólympíuþorpið var nánast engin. Í þokkabót misheppnaðist tilraunin til að frelsa gíslana hrapallega og með skelfilegum afleiðingum. Ekki bætti það ímynd Þjóðverja þegar þeir létu hryðjuverkamennina þrjá, sem voru handteknir, lausa eftir að þýskri farþegaflugvél hafði verið rænt í Mið-Austurlöndum. Sú saga hefur verið lífseig að flugránið hafi verið sett á svið til þess að Þjóðverjar gætu losnað við hryðjuverkamennina úr sinni vörslu.

Hefndin étur innan frá

Kvikmynd Spielbergs fjallar hins vegar ekki um atburðina í München í september 1972 nema að hluta. Hún fjallar einkum um eftirleikinn - hóp manna, sem Ísraelar sendu út af örkinni til þess að myrða þá, sem stóðu á bak við gíslatökuna í München. Í myndinni tekur Spielberg á erfiðu og viðkvæmu máli með aðferðum Hollywood og útkoman er ólík öllu öðru, sem frá honum hefur komið. Í Lista Schindlers fjallaði hann reyndar um helför gyðinga með eftirminnilegum hætti, en ekki umdeildum. München er gerólík henni. Myndin er hrá og þvert á fáguð vinnubrögð leikstjóra, sem hingað til hefur verið þekktur fyrir fullkomnunaráráttu í myndum sínum. Gagnrýnandi Der Spiegel segir að hún minni um margt á harðsoðnar kvikmyndir áttunda áratugarins, myndir á borð við French Connection, en kvikmyndagerð Spielbergs hafi hingað til verið í beinni andstöðu við þann skóla kvikmynda.

Kvikmyndin München er enginn hetjuóður. Ofbeldið er sýnt í návígi og dregið mun afdráttarlausari dráttum en hingað til í myndum leikstjórans. Í myndinni er sýnt hvernig hefndin étur þá, sem hefna, smátt og smátt innan frá, uns þeir undir lokin spyrja sig hvers þeir séu bættari, hvað hafi unnist. Persónur og leikendur eru hvorki gerðir að englum né djöflum og ef til vill er það ein ástæða þess hversu umtöluð og umdeild myndin hefur verið.

Mynd Spielbergs hefur hlotið misjafna dóma gagnrýnenda, en þeir hafa margir farið um hana mjög lofsamlegum orðum. En hún hefur einnig vakið mjög hörð viðbrögð. Ráðist hefur verið á Spielberg fyrir að leggja að jöfnu ódæðisverk hryðjuverkamannanna og svar Ísraela. Árásirnar hafa verið persónulegar. Leikstjórinn hefur verið kallaður blindur friðarsinni og svikari við málstað Ísraels. Í arabaheiminum hefur hann hins vegar verið vændur um að draga taum Ísraels og gera lítið úr málstað Palestínumanna.

Skilningur

þýðir ekki

fyrirgefningu

Í nýjasta tölublaði vikuritsins Der Spiegel er fjallað um myndina í löngu máli og meðal annars rætt við Spielberg. "Þeir sem skrifa svona nokkuð eru sem betur fer lítill, en reyndar mjög hávær minnihlutahópur," segir Spielberg við Der Spiegel . "Mér finnst sorglegt hversu einhliða og kreddufestir margir harðlínumennirnir á hægri vængnum hér í Bandaríkjunum eru. Guði sé lof að fólk, sem er mér mikilvægt, lítur München allt öðrum augum. Frjálslyndir bandarískir gyðingar til dæmis, en einnig nokkrar fjölskyldur fórnarlambanna í Ísrael. Þær hafa gert boðskap myndarinnar að sínum eigin."

Spielberg segir að það sé fráleitt að halda því fram að hann leggi Ísraelana, sem sendir voru til höfuðs hryðjuverkamönnunum, að jöfnu við hryðjuverkamennina: "Þessir gagnrýnendur láta eins og við höfum engan siðferðilegan áttavita. Auðvitað er það slæmur, fyrirlitlegur glæpur þegar gíslar eru teknir eins og í München þar sem fólk var myrt. En það er ekki verið að afsaka verknaðinn þegar spurt er hvað bjó að baki hjá gerendunum og sýnt er að þeir séu einnig einstaklingar með fjölskyldu og sögu. Maður samþykkir ekki morð ef maður vill skilja bakgrunn þess. Skilningur þýðir ekki fyrirgefningu. Skilningur kemur ekkert veikleika við, hann er hugrökk og sterk afstaða."

Spielberg segir að mynd sín eigi ekki að vera áróðurspési eða skrípamynd. Fyrir honum vaki ekki að sýna eina vídd, hann vilji ekki veita einföld svör við flóknum spurningum. Þegar hann er spurður hvort vandinn liggi ekki einmitt í því að málefni Mið-Austurlanda séu svo flókin að það sé ekki einu sinni hægt að nálgast þau í margslunginni tæplega þriggja klukkustunda kvikmynd svarar hann því til að hann setji sig ekki á svo háan hest að hann þykist geta lagt fram friðaráætlun. "En á maður þess vegna að láta hinum miklu einföldunarsinnum sviðið eftir? Öfgasinnuðu gyðingunum og öfgasinnuðu Palestínumönnunum, sem til þessa dags líta á öll tilbrigði samningslausnar í Austurlöndum nær sem einhvers konar svik? Þegja til að verða ekki fyrir leiðindum?"

Nafn myndarinnar, München, hefur margslungnar vísanir. Það er alls ekki gefið að nafn borgarinnar kalli fyrst fram í hugann hryðjuverkin 1972. Það er ekkert síður tengt eftirgjöfinni við nasista í aðdraganda heimsstyrjaldarinnar síðari. Þar funduðu Hitler og Chamberlain og sá síðarnefndi kom af fundinum eftir að hafa látið undan kröfum Þjóðverja með fyrirheit um "frið á okkar tímum" á vörum.

Málamiðlun gagnvart eigin gildum

Hryðjuverkin í München kölluðu á viðbrögð Ísraela. Í mynd Spielbergs er Golda Meir, sem þá var forsætisráðherra Ísraels, látin segja: "Hver siðmenning kemur alltaf aftur að þeim punkti að hún verður að gera málamiðlun gagnvart eigin gildum." Þessi setning er skáldskapur, en í ísraelska þinginu, Knesset, í lok september 1972 lýsti hún markmiðum sínum: "Hvar sem tilræði eru undirbúin, hvar sem fólk leggur á ráðin um að myrða gyðinga og Ísraela - þar verðum við að láta til skarar skríða."

Meir ákvað að láta til skarar skríða gegn þeim, sem stóðu að baki hryðjuverkinu í München. Ahron Jariv, ráðgjafi hennar í baráttunni gegn hryðjuverkum, sagði síðar í viðtali við BBC að hún hefði hikað við, en að lokum hefði hann getað sannfært hana um réttmæti þessarar aðgerðar.

Blaðamaðurinn George Jonas skrifaði bókina "Hefnd", sem mynd Spielbergs byggist á að miklu leyti, og kom hún út 1982. Heimildarmaður hans nýtur nafnleyndar og hefur heimildaöflun við gerð bókarinnar verið gagnrýnd. Hafa komið fram efasemdir, meðal annars í The New York Times , um að ýmislegt í henni fáist staðist. Söguhetja bókarinnar og myndarinnar, Avner, fyllist smám saman efasemdum um verkefni sitt og það sama á við um suma samstarfsmanna hans. Ísraelsk stjórnvöld fá hópinn til starfa, en það kemur skýrt fram að hann sé á eigin vegum og stjórnvöld muni ekki kannast við neitt fari eitthvað úrskeiðis. Hópurinn er upp á sjálfan sig kominn og engan annan. Enginn lýsir yfir ábyrgð á banatilræðum hópsins gegn aröbum í Evrópu í kjölfarið á gíslatökunni í München.

Eftir því sem líkunum fjölgar verður efinn áleitnari og Avner fer að spyrja sjálfan sig spurninga um fórnarlömbin, þar á meðal hvaða sannanir hafi legið fyrir um sekt þeirra. Á hvaða forsendum þær manneskjur, sem hann hafi tekið af lífi, hafi verið dæmdar til dauða. Hvort morð á einum liðsmanni hryðjuverkasamtakanna leiði ekki aðeins til þess að harðsvíraðri hryðjuverkamaður fylli skarð hans. Í myndinni eru bæði Avner og félagar og andstæðingar þeirra gerðir mannlegir. Þeir eru af holdi og blóði, eiga fjölskyldur, konur og börn. Einn liðsmanna Avners laumar sér inn á heimili eins fórnarlambsins, Mahmouds Hamsharis, og þykist vera blaðamaður. Hann fær að heyra ræðu um það að allir tali um fórnarlömb hryðjuverkamannanna í München, en enginn nefni alla Palestínumennina, sem fallið hafi vegna aðgerða Ísraela. Það muni hins vegar breytast. Hamshari setur aðgerðir Palestínumanna fram sem svar við blóðsúthellingum Ísraela og bendir á að 200 manns hafi fallið í valinn í loftárás þeirra eftir gíslatökuna án þess að heimurinn hafi grátið.

Í lok myndarinnar slítur Avner sig frá öllu saman og sest meira að segja að í Bandaríkjunum fremur en að snúa aftur til Ísraels.

Brýnar

spurningar

Ekki ber að líta á myndina München sem heimildarmynd. Þar er margt staðfært og hnikað til. Myndin er síður en svo gallalaus og á kannski ekki að vera það, en þar er tekið á spurningum, sem eiga brýnt erindi á okkar tímum. Það er engin spurning að Ísraelar hafa frá upphafi verið umsetnir fjandvinum sínum og það er ekki auðvelt að taka ákvarðnir undir kringumstæðum þegar annars vegar þarf að verja viðtekin gildi og hins vegar bregðast við kröfunni um öryggi og að svara fyrir sig. En hvernig eiga lýðræðisríki að bregðast við þegar að þeim er sótt? Hvað stendur eftir af réttarríkinu þegar slegið er af kröfum um mannréttindi? Hvernig réttlætir lýðræðisríki hefndaraðgerðir án dóms og laga? Hver er tilgangur slíkra aðgerða og hvað segir að honum verði náð? Hvernig er hægt að verja frelsi með því að afnema það? Er það í þágu mannréttinda að brjóta gegn þeim? Þola lýðræðisríki að gera "málamiðlun gagnvart eigin gildum"?

Árásin á Bandaríkin 11. september hrinti af stað keðju atburða í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn réðust inn í Afganistan og Írak. Fyrri árásin var fremur óumdeild, en öðru máli gegnir um þá síðari. En Bandaríkjamenn hafa ekki síður verið gagnrýndir fyrir að láta sér mannréttindi í léttu rúmi liggja í baráttunni gegn hryðjuverkum. Pyntingar þeirra á föngum hafa vakið hörð viðbrögð, ekki síst hjá bandamönnum þeirra. George Bush Bandaríkjaforseti hefur meira að segja mætt það mikilli andstöðu í þeim efnum úr röðum eigin flokkssystkina að hann varð að kyngja því að skrifa undir lög um að Bandaríkjamenn beittu ekki pyntingum þegar hann sá að hann myndi ekki einu sinni geta beitt neitunarvaldi vegna þess að því yrði hnekkt á þingi. Þá hefur Bandaríkjastjórn vegið að borgaralegum réttindum heima fyrir í þágu baráttunnar gegn hryðjuverkum og hlotið harða gagnrýni fyrir. Fyrir um hálfum mánuði skipulagði bandaríska leyniþjónustan, CIA, loftárás á Pakistan í því skyni að taka af lífi þrjá liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Al-Qaeda. 18 óbreyttir borgarar létu einnig lífið í árásinni. Hvernig samræmast slíkar aðgerðir hugmyndinni um réttarríkið?

Jonas kallar bók sína um aðgerðirnar gegn Svarta september "Hefnd". Samkvæmt frásögn Der Spiegel kemur orðið hefnd hins vegar hvergi fyrir í ísraelskum gögnum um aðgerðirnar. Þar er talað um réttlæti og fyrirbyggjandi aðgerðir, sem eigi að fæla andstæðingana frá því að halda ódæðisverkum sínum áfram. Það sama á við um Bandaríkjamenn eftir 11. september. Það er talað um að hafa hendur í hári ódæðismannanna og að þeir verði hundeltir, en orðið hefnd kemur ekki fyrir. Þó er hin undirliggjandi hefnd ekkert síður hvati en vonin um að hún hafi fyrirbyggjandi áhrif. En hefur hún það? Morðunum á aröbum í kjölfarið á því að gíslarnir voru myrtir í München er ávallt svarað. Háttsettir ísraelskir embættismenn fá sendar bréfsprengjur, framin eru flugrán, saklausir borgarar stráfelldir á flugvöllum. Blóðið rennur í stríðum straumum. Að sama skapi má spyrja hvort öryggi hafi aukist með aðgerðum Bandaríkjamanna. Er ástandið í Írak til vitnis um það? Þar eru hryðjuverk svo tíð að þau eru hætt að teljast fréttnæm. Írak er iðulega lýst sem útungunarstöð hryðjuverkamanna. Hryðjuverkin hafa færst til, en hefur dregið úr þeim?

Samningar eða hjaðningavíg?

Hryðjuverkaöldunni eftir árásina í München linnti um síðir, en var það vegna gagnaðgerða Ísraela? Ekki má gleyma því Ísraelar hafa einnig setið við samningaborðið eins og friðarsamkomulag Anwars Sadats og Menachems Begins 1979 og friðarsamningarnir í Ósló 1993 bera vitni.

Nú hafa samtök, sem hafa byggt á hryðjuverkum, unnið sigur í kosningum til löggjafarþings Palestínumanna. Hamas hefur tortímingu Ísraels á stefnuskrá sinni. Samtökin hafa getað fylgt sinni stefnu eftir án þeirrar ábyrgðar, sem fylgir því að vera við völd. Nú snýst það við. Ekki má gleyma því að Hamas bar sigurorð af Fatah-hreyfingunni, hinum lýðræðislega armi PLO, Frelsissamtaka Palestínu, sem Yasser Arafat veitti forystu og byggði til langs tíma ítök sín á ofbeldisverkum.Raunar er fortíð Fatah mun blóðugri en Hamas. Ísraelum fannst erfitt að kyngja gallinu og Palestínumenn áttu bágt með að stíga það skref að gangast við því að ætti friður að nást yrðu Ísrael og Palestína að geta þrifist hlið við hlið. Engu að síður tókst Bill Clinton Bandaríkjaforseta að ná Rabin og Arafat saman í Hvíta húsinu, þótt síðar hlypi snurða á þráðinn. Nú hóta Ísraelar og Bandaríkjamenn Hamas einangrun. Það hlýtur hins vegar að vera ástæða til að velta því fyrir sér hvort sé vænlegra til árangurs, hefnd á hefnd ofan eða að ganga að samningaborðinu.

Í lok myndarinnar er Avner sýndur á tali við yfirmann sinn úr Mossad, leyniþjónustu Ísraels. Þeir eru staddir í Brooklyn. Avner spyr hvort nokkuð hafi unnist, hvort morðin, sem hann framdi hafi þjónað nokkrum tilgangi. Atriðinu lýkur á því að myndavélin staðnæmist. Í fjarska sjást háhýsin á Manhattan og upp úr skaga tvíburaturnarnir, bein vísun til þess að ofbeldið geti af sér ofbeldi.

Mynd Spielbergs vekur óneitanlega til umhugsunar. Afstaða hans fer ekki á milli mála, en hann gerir sér hins vegar ekki far um að troða henni niður um kokið á áhorfendum. Í viðtalinu í Der Spiegel segist hann skoða heiminn, sem börn hans alist upp í, og blasi við honum myrkur geti hann ekki gert gleðimyndir. "Með aldrinum finn ég fyrir byrði ábyrgðarinnar, sem fylgir jafnáhrifamiklu verkfæri og kvikmyndagerð. Nú vil ég frekar segja sögur, sem hafa raunverulega merkingu."

George Jonas, höfundur bókarinnar, sem áður er getið og mynd Spielbergs byggir á, segir í grein í kanadíska vikuritinu Mclean's frá því þegar hann sá myndina: "Eftir að sýningin hefst segir einhver við mig að Spielberg ætti ekki að fá Óskar fyrir að leysa ekki vandamál Mið-Austurlanda. Ég er sammála, Spielberg ætti að fá Óskar fyrir að gera München, áræðna Hollywood-mynd. Fyrir að leysa ekki vandamál Mið-Austurlanda ætti hann að fá friðarverðlaun Nóbels eins og allir hinir."