Snorri Skaptason fæddist í Reykjavík 29. janúar árið 1950. Hann lést á heimili sínu í Kaupmannahöfn 3. desember síðastliðinn. Minningarathöfn um hann var í Kaupmannahöfn 16. desember en útför Snorra fór fram frá Kópavogskirkju 6. janúar.

Samferðamennirnir reynast misjafnlega. Sumir fara hjá garði eins og vindblærinn sem ekkert skilur eftir, en aðrir með þeim hætti að sífellt kallar fram góðar og jákvæðar minningar. Einn af því taginu var góðvinur minn Snorri Skaptason, sem jarðsettur var í Kópavogi hinn 6. janúar sl. og hefði orðið 56 ára í dag hefði hann lifað. Vil ég af því tilefni minnast hans með nokkrum orðum.

Forlögin höguðu málum á þann veg að ég náði að fylgjast með Snorra alveg frá fæðingu hans, en ég var viðstödd þegar Ólína amma Snorra sagði Guðrúnu ömmu minni að þau Sísa og Skapti hefðu eignast sitt fyrsta barn sem þótti að sjálfsögðu merkisatburður. Kringumstæðurnar æxluðust síðan með þeim hætti að ég fylgdist bæði óbeint og beint með vexti Snorra og því hvernig hann breyttist úr barni í ungling og loks í fullorðinn mann sem í fyllingu tímans var allt í senn lífskúnstner og fagurkeri, maður með næmar tilfinningar og stórt hjarta og varð smám saman einn minn raunbesti vinur. Líklega reyndi fyrst í alvöru á viðmót Snorra þegar ég hélt til Kaupmannahafnar í framhaldsnám á árinu 1986.

Stödd í nýju landi með 13 ára son mér við hlið flaug mér hvað fyrst í hug að hringja í Snorra og leita aðstoðar hans, þegar áður lofað húsnæði brást, en Snorri hafði þá verið búsettur í Danmörku um árabil. Og það stóð ekki á viðbrögðum. Hann kom út á flugvöll og tók á móti okkur með opinn faðminn, bauð okkur heim til sín margra daga dvöl og góðgerðir eins og ekkert væri sjálfsagðara. Síðan var hann á nokkrum dögum búinn að útvega okkur íbúð til dvalar og síðar reyndist hann okkur betri en enginn við að tryggja okkur góða íbúð á stúdentagarði. Gekk Snorri fram eins og berserkur í því máli og hnýtti vandlega alla lausa enda, því það var ekki hans aðferð að skila hlutunum hálfgerðum. Þegar við mæðginin bjuggum hjá Snorra mátti glöggt finna hversu mikill fjölskyldumaður hann var að upplagi þótt hann byggi einn. Sífellt var hann vakinn og sofinn að liðsinna okkur jafnt í smáu sem stóru, enda urðu þarna til vináttubönd sem aldrei brustu. Snorri var líka hrókur alls fagnaðar í samræðum um dag og veg og kom manni sífellt á óvart með yfirgripsmikilli þekkingu á flestum málaflokkum. Beggi sonur minn fór ekki varhluta af góðvild Snorra enda urðu þeir mestu mátar á stuttum tíma. Síðar reyndi á það er margir vinir Begga komu til Danmerkur ýmist að vinna eða í skóla. Þá varð það einhvern veginn sjálfsagður hlutur að kynna þá alla fyrir Snorra frænda og voru þeir síðan aufúsugestir á heimili hans. Stundum reyndi á þetta með afgerandi hætti t.d. þegar vinahópur Begga átti 30 ára afmæli á árinu 2003. Þá drifu þeir sig til Kaupmannahafnar þar sem Snorri frændi bauð öllum herskaranum í "Snorrakássu" en svo kallaðist hátíðarrétturinn á Snorrabæ sem vitaskuld var allur samansettur af list og prýði af Snorra sjálfum sem var eins og sjá má af þessu með betri kokkum. Af framanrituðu er ljóst, að framan af bjó Snorri oftast einn og hefur það sjálfsagt verið einmanalegt á köflum. En fyrir sem næst 10 árum kynntist hann loks konu við sitt hæfi, henni Lone. Þau Lone og Snorri áttu einkar vel saman. Ástin sat í öndvegi og gagnkvæm virðing skein af öllum þeirra orðræðum og mikill samhugur ríkti milli þeirra. Til marks um það var sú saga sögð, að einn daginn er Lone var á leið heim úr vinnu kom hún auga á gara-fíkusjurt í búðinni og fannst að planta sú minnti rækilega á margt það besta í sambandi þeirra Snorra. Keypti hún því plöntuna og bar með sér heim til þess að plantan mætti undirstrika allar ljúfar tilfinningar. Þegar Snorri sá blómið hló hann við og sagði Lone að ganga til stofu og viti menn, þar trónir á miðju stofuborði fallegur fíkus, nánast eins og sá sem Lone var að færa í búið og borinn heim af Snorra. Mörgum þykir þessi saga mjög svo táknræn fyrir samskipti þeirra hjóna. Það er með miklum trega í brjósti að allar þessar minningar eru rifjaðar hér upp og gætu þær verið miklu fleiri. Snorri er nú allur en verk hans munu lifa í vitund þeirra sem fengu að njóta elsku hans og mannlegrar hlýju. Um leið og Snorra er þökkuð samfylgdin sendi ég Lone og ættmönnum Snorra samúðarkveðjur.

Steinunn Jónsdóttir.