SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN fær 44,7% fylgi og Samfylkingin 23,6% þeirra sem afstöðu taka í þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið sem unnin var 18.-25. janúar.

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN fær 44,7% fylgi og Samfylkingin 23,6% þeirra sem afstöðu taka í þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið sem unnin var 18.-25. janúar. Í könnuninni fær Framsóknarflokkurinn 9,6% fylgi, Vinstri grænir 18,1% og Frjálslyndi flokkurinn 3,2%.

Í þingkosningunum 2003 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 33,7% atkvæða og Samfylkingin 31%. Framsóknarflokkurinn fékk 17,7%, VG 8,8% og Frjálslyndir 7,4%.

Í könnun Gallup í desember fékk Sjálfstæðisflokkurinn 41,6%, Samfylkingin 27,4%, VG 17,8%, Framsóknarflokkurinn 10,6% og Frjálslyndi flokkurinn 2,3%.

Óákveðnir 9,7%

Í könnuninni var stuðst við slembiúrtak úr þjóðskrá, sem náði til 1.200 manna á aldrinum 18-75 ára, af öllu landinu. Nettósvarhlutfall, þ.e. þegar látnir, erlendir borgarar og þeir sem búsettir eru erlendis hafa verið dregnir frá úrtakinu, er 70,6%, sem telst ágætt í könnun af þessu tagi. Félagsvísindastofnun telur að úrtakið endurspegli þennan aldurshóp meðal þjóðarinnar allrar ágætlega.

Spurt var hvað menn myndu kjósa ef alþingiskosningar yrðu á morgun. Þeir sem sögðust ekki vita það voru spurðir aftur hvað þeir teldu líklegast að þeir kysu. Segðust menn enn ekki vita voru þeir enn spurðir hvort líklegra væri að þeir kysu Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern vinstri flokkanna og þeim sem sögðust myndu kjósa vinstri flokka deilt niður á þá í hlutfalli við svörin við fyrri spurningum. Með þessu fer hlutfall óákveðinna úr 33,8% eftir fyrstu spurninguna niður í 9,7%.

Leiðrétting 31. janúar - Vinstri grænir eru með listabókstafinn V

Vegna fréttar um skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar í Morgunblaðinu vill Vinstrihreyfingin - grænt framboð taka fram að listabókstafur flokksins er V en ekki U eins og kom fram í frétt blaðsins.