Tækifæri Hermann Guðmundsson segir að mikil tækifæri séu bæði fyrir Bílanaust og Olíufélagið eftir kaupin.
Tækifæri Hermann Guðmundsson segir að mikil tækifæri séu bæði fyrir Bílanaust og Olíufélagið eftir kaupin. — Morgunblaðið/Ásdís
Eftir Björn Jóhann Björnsson og Grétar Júníus Guðmundsson bjb@mbl.is, gretar@mbl.is BÍLANAUST, núverandi hluthafar og stjórnendur fyrirtækisins, ásamt nokkrum öðrum fjárfestum, hafa keypt allt hlutafé í Olíufélaginu ehf.
Eftir Björn Jóhann Björnsson og Grétar Júníus Guðmundsson bjb@mbl.is, gretar@mbl.is

BÍLANAUST, núverandi hluthafar og stjórnendur fyrirtækisins, ásamt nokkrum öðrum fjárfestum, hafa keypt allt hlutafé í Olíufélaginu ehf. Með í kaupunum er eignarhluti Olíufélagsins í Olíudreifingu, sem og þjónustustöðvar og flestar aðrar fasteignir í rekstri Olíufélagsins.

Seljandinn, Ker hf., mun hins vegar halda eftir skrifstofuhúsnæði félagsins við Suðurlandsbraut í Reykjavík og ýmsum fasteignum öðrum en bensínstöðvum og eignum tengdum olíudreifingunni.

Í tilkynningu í tilefni kaupanna segir að Olíufélagið og Bílanaust verði í eigu nýs eignarhaldsfélags. Hermann Guðmundsson, framkvæmdastjóri Bílanausts, verður framkvæmdastjóri hins nýja eignarhaldsfélags ásamt því að gegna áfram starfi framkvæmdastjóra Bílanausts. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið að heildarkaupverðið í þessum viðskiptum sé nálægt 20 milljörðum króna, þegar allt er talið með. Kaupverðið á Olíufélaginu sjálfu sé hins vegar nálægt 15 milljörðum. Hann sagði jafnframt að hluthafar hins nýja eignarhaldsfélags hafi óskað eftir því að Bjarni Benediktsson alþingismaður taki að sér stjórnarformennsku í félaginu. Hann hafi ekki gefið svar en ekki aftekið að taka að sér verkefnið.

Fram kemur í tilkynningunni að gert sé ráð fyrir því að fljótlega verði ráðinn nýr forstjóri til Olíufélagsins, en Hjörleifur Jakobsson, núverandi forstjóri Olíufélagsins, muni fyrst um sinn starfa með nýjum eigendum. Hann muni hins vegar síðan snúa sér að öðrum verkefnum í samstarfi við fyrrverandi eigendur Olíufélagsins.

Eignarhaldsfélag á vegum Benedikts Sveinssonar, fyrrv. stjórnarformanns Eimskipafélagsins og Sjóvár-Almennra trygginga, er stærsti hluthafinn í Bílanausti, en hann keypti rétt rúman helming hlutafjár í félaginu í maí á síðasta ári.

Möguleikar í samstarfi

Hermann Guðmundsson segir að ekki sé gert ráð fyrir miklum áherslubreytingum í rekstri Olíufélagsins eftir þessi viðskipti, enda telji kaupendurnir að félagið sé vel rekið í dag. Töluverðir möguleikar séu í samstarfi félaganna, einkum í þróun á þjónustu við bifreiðaeigendur og stórnotendur. Olíufélagið hafi sterkt dreifikerfi um allt land með um eitt hundrað útsölustaði og Bílanaust sé með mesta bílavöruúrval landsins.

"Við sjáum mikil tækifæri fyrir okkar vörur hjá Bílanausti fyrir viðskiptavini Olíufélagsins og eins fyrir vörur þess í verslunum Bílanausts," segir Hermann. "Þá þarf ekki lager á tveimur stöðum. Þetta eru því sóknarfæri fyrir söludeildirnar í báðum félögunum til að bjóða meira vöruúrval. Síðan liggja ýmis tækifæri í fasteignum og lóðum sem við vorum að kaupa. Við þurfum ekki að fara í miklar sparnaðaraðgerðir því Olíufélagið hefur verið vel rekið í mörg ár og skilað fínni afkomu."

Hann segir að Hjörleifur Jakobsson, forstjóri Olíufélagsins, hafi ákveðið að hætta hjá félaginu við þessi tímamót, en muni þó fyrst um sinn starfa með nýjum eigendum. Öllu öðru starfsfólki félagsins standi til boða að halda áfram störfum hjá félaginu. Heildarfjöldi starfsmanna Bílanausts og Olíufélagsins verði um 700 manns.

Hermann segir ljóst að kröfur stjórnvalda vegna verðsamráðs olíufélaganna snúi ekki að Olíufélaginu heldur Keri. Olíufélagið hafi verið stofnað árið 2001 og það sé því miklu yngra en samráðsmálin. Fjölmiðlar hafi ekki talað nógu skýrt í þessum efnum.

Varðandi verðið sem kaupendurnir greiða fyrir Olíufélagið segir Hermann að um sé að ræða flókin viðskipti því margar eignir séu að skipta um hendur. "Heildarviðskiptamagnið er einhvers staðar á bilinu 15 til 20 milljarðar króna í þessum viðskiptum. Við erum bæði að kaupa eignir sem Olíufélagið notar og einnig eignir sem það er ekki að nota. Ef allt er talið með eru viðskiptin nær 20 milljörðum, en nær 15 milljörðum ef einungis er litið til Olíufélagsins. Auk Olíufélagsins, Olíudreifingar og birgðastöðva erum við að kaupa tugi fasteigna og lóða og jarða sem Ker átti en ekki Olíufélagið."

Áhersla út fyrir landsteinana

Olíufélagið var í eigu Kers. Kjalar, félag í aðaleigu Ólafs Ólafssonar, stjórnarformanns Samskipa, Kers og Olíufélagsins, á nærri 87% hlut í Keri. Vogun, sem er félag í eigu Hvals, þar sem Kristján Loftsson og Árni Vilhjálmsson eru meðal stærstu eigenda, er næststærsti hluthafinn í Keri með um 8% hlut. Tilkynnt var hinn 10. janúar síðastliðinn að stjórn Kers hefði ákveðið að selja allt hlutafé félagsins í Olíufélaginu. Greint var þá frá því að ákvörðunin tengdist breyttum áherslum á fjárfestingastefnu Kers sem miði að því að auka vægi fjárfestinga erlendis.

Ólafur Ólafsson sagðist í samtali við Morgunblaðið vera mjög sáttur við viðskiptin og söluferlið af hálfu Íslandsbanka. Hann sagðist jafnframt vera ánægður með nýja eigendur og viðhorf þeirra til Olíufélagsins. "Ég trúi því og treysti að þeir komi fram við starfsmenn af virðingu og væntumþykju. Það skiptir miklu máli því fyrirtækið hefur ýmsum skyldum að gegna víðs vegar um land," sagði Ólafur og var einnig ánægður með hve salan hefði gengið fljótt fyrir sig. Félagið hefði selst á fjórum vikum.

Hvort kaupendurnir hefðu áður verið búnir að sýna Olíufélaginu áhuga sagði Ólafur svo vera, og fleiri fjárfestar til viðbótar sem hefðu skilað sér inn í söluferlið hjá bankanum. Aðspurður hvað Ker myndi gera fyrir söluandvirði Olíufélagsins svaraði Ólafur um hæl: "Við kaupum bara Icelandair," og var þar í hálfkæringi að vísa til sögusagna um þau viðskipti. Ekkert væri hæft í þeim sögum, heldur hefði Ker lýst því áður yfir að dregið yrði úr fjárfestingum hér á landi og áherslan lögð út fyrir landsteinana. "Við munum frekar bæta í fjárfestingar á öðrum efnahagssvæðum en hinu íslenska," sagði Ólafur.

Örn Gunnarsson, forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka, sem hafði umsjón með söluferli Olíufélagsins, segir að söluferlið hafi gengið vel og hraðar en gert hafi verið ráð fyrir. Áhuginn á félaginu hafi og verið mikill.