— Morgunblaðið/Ingó
VAXANDI áhyggjur eru meðal skotveiðimanna og fuglaverndarsinna af stofnstærð blesgæsar. Um 3000 gæsir eru veiddar hér árlega en blesgæsin er fargestur og dvelur á Íslandi í skamman tíma á haustin og vorin en varpland hennar er á Vestur-Grænlandi.

VAXANDI áhyggjur eru meðal skotveiðimanna og fuglaverndarsinna af stofnstærð blesgæsar. Um 3000 gæsir eru veiddar hér árlega en blesgæsin er fargestur og dvelur á Íslandi í skamman tíma á haustin og vorin en varpland hennar er á Vestur-Grænlandi. Blesgæsastofnin er nú um 25 þúsund fuglar og hefur farið ört minnkandi en veiðar eru þó ekki taldar aðalorsök þess heldur lélegur varpárangur.

Veiðitímabil blesgæsarinnar hér á landi er frá 1. september til 15. mars en víða í nágrannalöndum eru veiðar bannaðar á henni og í ályktun frá Skotveiðifélagi Íslands kemur fram vilji til friðunar blesgæsar. Að sögn Kristins Hauks Skarphéðinssonar, fuglafræðings hjá Náttúrufræðistofnun, hefur rýrnun þessa undirstofns valdið áhyggjum og stofnunin styðji einnig friðun hans verði það lagt til. Hann telur að lélegur varpárangur sé meginorsök þess að stofninn er að rýrna en veiðarnar hafi þó sitt að segja.

Á Hvanneyri er sérstakt verndað búsvæði blesgæsarinnar og á dvalartíma hérlendis fyrirfinnst hún þar í þúsunda tali eða um 15% stofnsins. Blesgæsin hefur viðkomu aðallega á Suðurlandi og Vesturlandi og þar eru nokkur almenn friðarsvæði en vaxandi áhyggjur af stofnstærð hafa leitt til þess að friðun hennar þykir tímabær.