Þátttaka Istanbúl var formlega staðfest með undirskrift. Frá vinstri: Dr. Nalan Engin, Muammer Erol varaborgarstjóri Istanbúl, Tomas Hallberg og Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi sem situr í stjórn forvarnasamtakanna.
Þátttaka Istanbúl var formlega staðfest með undirskrift. Frá vinstri: Dr. Nalan Engin, Muammer Erol varaborgarstjóri Istanbúl, Tomas Hallberg og Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi sem situr í stjórn forvarnasamtakanna.
Eftir Árna Helgason arnihelgason@mbl.is ISTANBÚL, Stokkhólmur og Helsinki hafa gengið inn í forvarnaverkefnið Ungt fólk í Evrópu en stjórnarfundur samtakanna fer fram í Istanbúl um þessar mundir.
Eftir Árna Helgason arnihelgason@mbl.is

ISTANBÚL, Stokkhólmur og Helsinki hafa gengið inn í forvarnaverkefnið Ungt fólk í Evrópu en stjórnarfundur samtakanna fer fram í Istanbúl um þessar mundir. Istanbúl er ein af fimm borgum í Austur-Evrópu sem íslenska lyfjafyrirtækið Actavis styrkir til að taka þátt í verkefninu, en hinar fjórar eru Vilníus, Pétursborg, Sofía og Belgrad.

Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi situr í stjórn samtakanna og er nú staddur í Istanbúl til að vera við inntöku borgarinnar í verkefnið. Hann segir að viðtökur borga í Evrópu við verkefninu hafi verið betri en búist var við og er talið að alls muni í kringum fimmtán borgir taka þátt. Þá sé skemmtilegt til þess að hugsa að þótt samskipti Evrópu og Tyrklands séu á tíðum skrykkjótt gangi samstarfið í tengslum við forvarnir afar vel.

Leitað eftir okkar reynslu

Í verkefninu er leitað eftir reynslu Íslendinga, sérstaklega varðandi samstarf og samhæfingu stjórnvalda við háskóla- og vísindafólk annars vegar og foreldrasamtök og íþrótta- og æskulýðssamtök hins vegar, að sögn Dags.

"Við erum að sjá árangur hér á landi hjá krökkum á grunnskólaaldri sem horft er til víða að og af því spratt áhugi á að búa til alþjóðlegt verkefni á þessu sviði," segir hann og bætir við að þó ekki sé hægt að fullyrða að allt sem við höfum gert muni ganga upp annars staðar, sé það tilraunarinnar virði að prófa.

"Að hleypa af stað verkefni í þessum borgum veitir svar við þeirri spurningu hvort þetta gangi og um leið geta borgirnar lært hver af annarri um hvað sé að virka á hverjum stað við þessar fjölbreyttu aðstæður," segir Dagur.

Í haust verða lagðir fram spurningalistar í öllum þeim borgum sem þátt hafa tekið í verkefninu til að varpa ljósi á hvernig til hafi tekist.

Dagur segir að aðkoma háskólafólks hér á landi hafi vakið athygli sem og aðkoma forseta Íslands, sem er verndari verkefnisins.

"Það vekur auðvitað athygli í alþjóðasamskiptum að áhuginn á þessum málum sé alveg frá efstu stigum í stjórnkerfinu, því sums staðar eiga þessi mál á brattann að sækja."

Veltur á hverri borg

Aðspurður hvernig gangi að innleiða íslenska reynslu í jafnólíkum borgum og Istanbúl og Stokkhólmi, segir Dagur mikið velta á hverri borg fyrir sig.

"Við ætlum ekki að ferðast um heiminn og segja fólki hvernig þetta er best gert, heldur leggja fram þá þekkingu sem við höfum aflað og gefa borgum kost á að nýta sér hana eftir föngum. Við gerum okkur grein fyrir því að það geti þurft aðrar aðferðir til að ná til foreldrafélaga hér í Istanbúl en heima í Reykjavík. En hjörtun slá nú eins hvar sem er í heiminum, engu að síður," segir Dagur.