Ásgeir H. Steingrímsson, Eiríkur Örn Pálsson og Hörður Áskelsson; þeir leika á konunglega trompeta með drottningu hlóðfæranna, pípuorgelinu.
Ásgeir H. Steingrímsson, Eiríkur Örn Pálsson og Hörður Áskelsson; þeir leika á konunglega trompeta með drottningu hlóðfæranna, pípuorgelinu. — Morgunblaðið/Kristinn
TROMPETERÍA er tríó skipað trompetleikurunum Ásgeiri H. Steingrímssyni og Eiríki Erni Pálssyni og Herði Áskelssyni orgelleikara. Í dag kl. 17 heldur Trompetería tónleika í Hallgrímskirkju, en tónleikarnir eru framlag kirkjunnar til Vetrarhátíðar.

TROMPETERÍA er tríó skipað trompetleikurunum Ásgeiri H. Steingrímssyni og Eiríki Erni Pálssyni og Herði Áskelssyni orgelleikara. Í dag kl. 17 heldur Trompetería tónleika í Hallgrímskirkju, en tónleikarnir eru framlag kirkjunnar til Vetrarhátíðar.

Trompetería er þekkt að Hátíðarhljómum við áramót, árlegum tónleikum sínum í Hallgrímskirkju á gamlársdag, en þremenningarnir hafa leikið saman í þrettán ár.

Í október á liðnu ári lék Trompetería í Fílharmóníunni í Pétursborg í Rússlandi, og á tónleikunum á morgun flytja þeir sömu efnisskrá og Rússar fengu að heyra. Þar eystra léku þeir fyrir fullu húsi áheyrenda við frábærar undirtektir. "Það var stórkostleg upplifun," sagði Hörður um tónleikana þar. "Það vildi svo skemmtilega til að nýtt orgel Fílharmóníunnar þar er smíðað af Klais, þeim sama og smíðaði orgelið í Hallgrímskirkju."

Á efnisskránni er nýtt verk eftir Jón Hlöðver Áskelsson, Da Pacem Domine, ásamt sígildum perlum, Tokkötu í D-dúr eftir Alessandro Scarlatti, Konsert í C-dúr eftir Antonio Vivaldi og þáttum úr Orgelsinfóníu nr. 5 op. 42 eftir Charles Marie Widor, glæsiverki eftir franska tónskáldið Pierre Max Dubois, Suite breve í C-dúr, og verki eftir Malcolm Holloway, Pastorale.

Samleikur hinna konunglegu trompeta og drottningar hljóðfæranna, pípuorgelsins, á sér langa sögu. Á endurreisnartímanum eða jafnvel fyrr léku trompetleikarar við kirkjulegar athafnir, lúðraköll undir inngöngu presta, undirspil við sálmasöng og millispil með orgelinu. Samhljómur þessara hljóðfæra kallar fram hughrif hátíðleika, sem á sérstaklega vel við um áramót og á hátíðum á borð við Vetrarhátíð.

Flest tónskáldin á efnisskránni eiga það sameiginlegt að hafa hluta ævi sinnar verið í þjónustu fursta, bæði kirkjulegra og veraldlegra. "Þjónustusamningar" tónskálda sem áður tíðkuðust eru nú aflagðir og í staðinn þjóna tónskáld samtímans meðal annars sem kennarar, líkt og þau hafa gert samtímatónskáldin sem eiga verk á þessum tónleikum, Jón Hlöðver Áskelsson, Malcolm Holloway og Pierre Max Dubois.

Aðgangseyrir er 1.500 kr., ókeypis fyrir börn 17 ára og yngri.