Umferð um Fáskrúðsfjarðargöng er mikil.
Umferð um Fáskrúðsfjarðargöng er mikil.
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur steinunn@mbl.is Umferð um göngin talsvert meiri en reiknað var með Fáskrúðsfjarðargöng efldu tiltrú margra Austfirðinga á sterkan miðkjarna með stærra atvinnu- og þjónustusvæði og þar með fjölbreyttari atvinnutækifærum.
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur steinunn@mbl.is

Umferð um göngin talsvert meiri en reiknað var með

Fáskrúðsfjarðargöng efldu tiltrú margra Austfirðinga á sterkan miðkjarna með stærra atvinnu- og þjónustusvæði og þar með fjölbreyttari atvinnutækifærum. Virðist það að einhverju leyti hafa gengið eftir, rúmum fimm mánuðum eftir að göngin voru opnuð. Fólk búsett sunnan ganga virðist talsvert sækja atvinnu yfir í Fjarðabyggð og upp á Hérað og hreyfing er á fasteignum og í nýbyggingum á Suðurfjörðum.

Fáskrúðsfjarðargöng hafa nú verið opin fyrir umferð í rúma fimm mánuði og virðast bæta samgöngur verulega innan Austfirðingafjórðungs, auk þess að tengja betur saman Suðurfirði Austurlands og kjarna Mið-Austurlands.

Göngin stytti leiðina milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar um 31 km og milli Mið-Austurlands og Suðurfjarða um 34 km. Að auki þykja göngin hafa bætt umferðaröryggi, því vegurinn milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar um Vattarnesskriður hafði nokkuð háa slysatíðni og ofanflóð voru algeng. Þá virðist sem göngin hafi gert Fáskrúðsfirðingum og Stöðfirðingum kleift að sækja vinnu í Fjarðabyggð og á Hérað í auknu mæli og greinileg áhrif eru af framkvæmdinni í þéttbýlinu á Fáskrúðsfirði, þar sem húsbyggingar hafa tekið mikinn kipp og verið er að byggja heilt nýtt hverfi, auk fjölbýlishúss.

Stækkaði atvinnusvæðið

Björn Pálsson býr á Stöðvarfirði og hefur ekið daglega til og frá vinnu á Reyðarfirði frá því áður en göngin komu til sögunnar. "Ég vann áður á Stöðvarfirði en horfði auðvitað til þess þegar ég breytti um starf að göngin voru innan seilingar," sagði Björn í samtali við Morgunblaðið. "Áður voru þetta 160 km og að stórum hluta á malarvegi, sem ég ók á dag en núna eru það tæpir 100 km á malbiki og innanhúss að hluta. Ég er svona fjörutíu mínútur aðra leiðina og mér reiknast til að hafa eytt um 30 þúsund krónum í bensín í janúar sl., miðað við að aka á bíl sem eyðir um 8,3 lítrum á hundraðið. Það er sparnaður frá því sem var, en samt mikið."

Björn segir nokkuð marga Stöðfirðinga sækja vinnu á Reyðarfjörð, Eskifjörð og víðar, ásamt fólki sem sækir vinnu yfir á Fáskrúðsfjörð, en milli staðanna tveggja eru 26 km. Enginn vafi sé á að göngin hafi skapað nýtt og auðsóttara atvinnusvæði. Þau hafi og haft víðtæk áhrif, t.d. varðandi fasteignaviðskipti á Stöðvarfirði, sem voru lítil eða engin árin á undan.

"Það breyttist og hér hafa farið fram fasteignaviðskipti eftir að þetta fór fram. Hluti af því er fólk sem er að vinna á Reyðarfirði og annars staðar. Fasteignaverðið er lægra á Stöðvarfirði en á t.d. Fáskrúðsfirði og stutt á milli staðanna, 26 km og svo aðeins 19 km þaðan og yfir á Reyðarfjörð gegnum göngin. Menn horfa í það. Þetta hefur þjappað Mið-Austurlandi markvert saman og mikið um að vera á svæðinu," segir Björn.

Meiri umferð en búist var við

Ársdagsumferð, þ.e. dagleg meðaltalsumferð, var árið 2000 um 210 bílar um Suðurfjarðaveg milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Var umferðaraukning frá árinu 1994 þá um 4% á ári að meðaltali og skiptingin 250 bílar daglega í sumarumferð og 130 daglega á vetrum. Í skýrslu Hönnunar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar kemur fram að áætlað sé að ársdagsumferð um göngin geti orðið um 450-650 bílar á dag árið 2010 og 800-1100 bílar á dag árið 2034 miðað við stóriðjuuppbyggingu á Reyðarfirði og alhliða atvinnuuppbyggingu á miðsvæði Austurlands. Þar er einnig gert ráð fyrir að umferð tvöfaldist á fyrstu árunum eftir opnun jarðganganna miðað við reynslu frá Vestfjarða- og Hvalfjarðargöngum.

"Umferðin er nokkuð misjöfn, eða frá 400 og upp í 600 bíla á sólarhring," segir Páll Elísson, verkstjóri hjá Vegagerðinni á Reyðarfirði. "Mest virðist umferðin vera á föstudögum og þriðjudögum, einhverra hluta vegna. Það hefur komið þægilega á óvart hversu mikil umferðin er og hún er ívið meiri en var búist við, þessa rúmlega fimm mánuði sem göngin hafa verið opin," segir Páll.

Einhverjar talningar hafa verið gerðar á eðli umferðarinnar, þ.e. hversu stór hluti er almenn umferð og hvað þungaflutningar t.d., en um Fáskrúðsfjarðargöng fer stór hluti þungaflutninga um Austurland. Göngin eru jafnframt hluti af einni af þremur leiðum út úr fjórðungnum frá Mið-Austurlandi. Almennt hefur verið reiknað með að göngin hafi jákvæð samfélagsleg áhrif, stækki atvinnu- og þjónustusvæði, liðki fyrir fjölbreyttari atvinnutækifærum og bæti aðgengi að verslun og þjónustu, skólum, íþróttastarfi, menningu og listum. Þá er betri tenging Suðurfjarða við flugvöllinn á Egilsstöðum talin til kosta við göngin. Þau eru tvíbreið og 5,9 km að lengd, með 8,5 km löngum vegtengingum. Kostnaður við gerð þeirra var um 3,9 milljarðar króna. Að auki eru tvenn önnur jarðgöng á Austurlandi; Almannaskarðsgöng sem eru einnig tvíbreið, 1,3 km að lengd og byggð 2005 og þau þriðju og elstu eru Oddskarðsgöng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar. Þau eru einbreið, 640 m löng og voru opnuð árið 1977.