[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er hvasst og svalt þegar ég lendi á Akureyri í bítið þennan morgun. Öldurnar liðast kuldalega eftir pollinum þegar ekið er norður Drottningarbrautina og ég er feginn að komast inn í hlýjuna í Samkomuhúsinu, heimkynnum Leikfélags Akureyrar.

Það er hvasst og svalt þegar ég lendi á Akureyri í bítið þennan morgun. Öldurnar liðast kuldalega eftir pollinum þegar ekið er norður Drottningarbrautina og ég er feginn að komast inn í hlýjuna í Samkomuhúsinu, heimkynnum Leikfélags Akureyrar. Þar væsir ekki um nokkurn mann enda Samkomuhúsið einn heitasti staðurinn í bænum þessa dagana, ef marka má umsagnir um Maríubjölluna eftir Vassily Sigarev sem frumsýnd var þar fyrir skemmstu. "Útkoman er sýning sem Akureyringar eiga ekki bara að vera stoltir af heldur ættu umfram allt að drífa sig að sjá," sagði Þorgeir Tryggvason í umsögn í Morgunblaðinu. Það er einmitt stjarna þessarar sýningar, að dómi Þorgeirs, sem ég er kominn til að finna, konan með volduga nafnið, Esther Talia Casey.

Hún er raunar rétt ókomin þegar mig ber að garði og ég nota tímann til að anda að mér loftinu í leiksalnum. Þau verða varla heimilislegri, leikhúsin. Nálægðin við áhorfandann algjör. Það felur sig enginn á þessu sviði.

Esther Talia er sammála því. "Þetta er yndislegt leikhús," segir hún þegar hún hefur losað sig við trefilinn og kápuna. Og það brakar í tröppunum þegar við göngum upp á næstu hæð til að spjalla saman. Það er sál í Samkomuhúsinu.

Ekki í sambandi við föður sinn

Esther Talia Casey er 28 ára gömul. Borinn og barnfæddur Reykvíkingur. Þar hefur hún búið alla sína ævi ef undan eru skilin tvö ár sem hún var búsett í Svíþjóð. Frá fjögurra til sex ára aldurs. Esther Talia er dóttir Guðrúnar Theodóru Sigurðardóttur sellóleikara og Brendans Casey frá Írlandi. "Ég er sumsé hálfur Íri en það slitnaði upp úr sambandi mömmu og pabba áður en ég varð tveggja ára og ég hef ekki verið í neinu sambandi við föður minn. Ég hitti hann einu sinni þegar ég var fjórtán ára en það var voðalega skrýtið allt saman. Ég hef því ekkert farið í þá átt frekar. Mér brá þegar ég sá hvað ég er lík honum enda þótt mamma hafi alltaf sagt að ég sé mjög lík mínu föðurfólki. Ég hef hins vegar ekki fundið hjá mér neina löngun hingað til að kynnast þessu fólki og sakna einskis."

Fyrstu árin ólst Esther Talia því upp hjá einstæðri móður en þær voru jafnframt mikið hjá langömmu Estherar, Guðrúnu Pálsdóttur söngkennara, sem hún hafði miklar mætur á. Hún umgekkst líka móðursystur sínar mikið, Laufeyju Sigurðardóttur fiðluleikara og Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur leikkonu. Enn ein konan í lífi hennar var svo amman, Bríet Héðinsdóttir leikkona. "Ég ólst upp í miklu kvennaveldi," segir Esther Talia og hlær. "Það var engin lognmolla í kringum þessar konur og oft hressilega rifist. Stundum þótti mér hreinlega best að loka mig inni á baði í jólaboðunum meðan þær voru að útkljá sín mál. Þetta eru skapmiklar konur. Umfram allt var þetta þó ákaflega hressandi og notalegt. Þetta eru fínar konur sem hafa haft mjög góð áhrif á mig. Ég held meira að segja að ég hafi fengið það besta og versta úr þeim öllum. Ég er samt örugglega hlédrægust af okkur. Mér kippir kannski ekki alveg í kynið með skapstyggðina."

Hvött áfram af Bríeti ömmu

Esther Talia var ekki mikið hjá Bríeti ömmu sinni en segir að þangað hafi alltaf verið gott að koma. "Amma var afskaplega upptekin kona. Í minningunni var hún alltaf að vinna, með bók í hönd, að skrifa eða fara yfir handrit. Það var samt afskaplega spennandi að koma til hennar og hún var minn hvati í gegnum bæði menntaskóla og leiklistarskóla. Hvorki mamma né systur hennar kláruðu menntaskóla, fóru svo að segja beint í sitt listnám, og langamma hvatti mig til að fara í MR og klára stúdentinn eins og amma Bríet hafði gert."

Esther Talia kveðst oft hugsa til ömmu sinnar í gegnum leiklistina og metur það mikils að Bríet skildi einu sinni ná að sjá hana á sviði áður en hún lést. "Það var í Herranótt í MR. Ég var ákaflega glöð að hún skyldi koma og man að ég heyrði hneggið í henni langar leiðir úr salnum. Svo lék ég líka hjá henni í tveimur sýningum sem barn, Svartfugli í Iðnó og La bohème í Borgarleikhúsinu."

Bríet lagði þó ekki að ömmubarni sínu að feta þessa braut. "Hún sagði stundum við mig að ég ætti ekkert að vera að þessu. Þetta væri ósköp leiðinlegt starf og erfitt. Samt veit ég að hún hefði stutt mig með ráðum og dáð ef á það hefði reynt."

Bríet Héðinsdóttir er ein ástsælasta leikkona þessarar þjóðar frá upphafi og Esther Talia kveðst ekki bera sig saman við hana. Það þjóni engum tilgangi. Hún verður heldur ekki vör við að aðrir geri það. Hún segir fólk heldur ekki bera hana mikið saman við Steinunni Ólínu. "Ætli það sé ekki helst röddin sem er lík," segir Esther Talia og blaðamaður getur staðfest það. "Annars var hún alltaf mín fyrirmynd þegar ég var lítil og það var aldrei afmæli nema Steina kæmi. Ég leit ofboðslega mikið upp til hennar. Steina var flotta, kúl frænkan. Við bjuggum líka saman á tímabili, ég, hún og mamma, þegar ég var unglingur. Það var mjög skemmtilegt tímabil. Þá héldum við alltaf einu sinni á ári grímuball, þangað sem við buðum vinum okkar. Það voru skrautleg partí, með allskonar fólki."

Steinunn Ólína býr nú í Bandaríkjunum og segir Esther Talia þær vera í góðu tölvupóstsambandi.

H og ekkert h, i en ekki í

Blaðamaður hefur séð ýmsar útgáfur af nafni viðmælanda síns á prenti og notar þetta tækifæri til að fá ritháttinn á hreint í eitt skipti fyrir öll. "Það er h í Esther en ekki í Talia," segir hún kímin. "Svo er Talia skrifað með i en ekki í." Þá er það á hreinu.

"Það hefur raunar gengið á ýmsu í sambandi við þetta nafn. Þegar ég var tíu ára kom í ljós að ég hafði af einhverjum ástæðum ekki íslenskan ríkisborgararétt. Bara írskan. Þegar mamma fór að láta laga það þurfti nafnið að fara fyrir mannanafnanefnd sem gat ekki hugsað sér að leyfa nafnið Thalia með h-i. það þótti of útlenskt. Þess vegna endaði þetta svona."

En hvaðan kemur nafnið? "Foreldrar mínir fóru saman í bíó meðan mamma var ólétt af mér og sáu þar mynd með leikkonu sem hét Talia. Þeim fannst hún æðisleg og nafnið æðislegt og þar með var það ákveðið. Þau voru gamlir hippar, skilurðu. En ég kvarta ekki. Þetta er fallegt nafn og mér þykir afskaplega vænt um þetta nafn. Ég vona bara að ég standi undir því," segir hún en Talia er vitaskuld nafn sjálfrar leiklistargyðjunnar.

Esther á sér nærtækari skýringu. Það er nafn föðurömmu hennar. "Þannig að ég sæki fleira en útlitið til Írlands."

Kornungur hálfkínverskur hálfbróðir

Esther Talia segir það ekki hafa háð sér að hafa ekki föðurímynd í sínu lífi en viðurkennir að hún hafi alltaf fundið sérstaka tengingu við feður vinkvenna sinna. "Honum fylgir óttablandin virðing en um leið er hann eitthvað svo absúrd fyrirbæri þessi "pabbi". Svo getur vel verið að Óli hafi verið mín föðurímynd á köflum. Alla vega kvartar hann stundum undan því," segir Esther Talia og skellir upp úr. Þar á hún við sambýlismann sinn, Ólaf Egil Egilsson leikara, en þau hafa verið saman síðan í tíunda bekk grunnskóla.

Esther Talia á ekkert alsystkini en fjögur hálfsystkini. "Mamma á þrjú börn með Szymon Kuran fiðluleikara og fyrir tæpu ári eignaðist hún enn eitt krílið með kínverska hljómsveitarstjóranum Lan Shui. Þannig að ég á hálfkínverskan bróður sem er mjög skemmtilegt. Hann er krúttlegasta barn sem ég hef séð. Mjög góð blanda þarna á ferð," segir Esther Talia og hlær við tilhugsunina. Þau búa öll í Kaupmannahöfn og hafa gert undanfarin fjögur ár.

Esther Talia flutti í Þingholtin við heimkomuna frá Svíþjóð og gekk í Austurbæjarskóla - ásamt mörgum kollegum sínum í dag. "Átta æskuvinir mínir eru leikarar og útskrifuðumst við öll á svipuðum tíma. Ég, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Björgvin Franz Gíslason, Ólafur Egill Egilsson, Ólafur Steinn Ingunnarson, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Þorleifur Örn Arnarsson, Ilmur Kristjánsdóttir og Guðjón Davíð Karlsson. Það er óhætt að segja að þetta hafi verið mikil listakreðsa og við byrjuðum snemma að búa til leikrit og skemmta okkur. Mörg okkar voru m.a. virk í starfi Götuleikhússins."

Og þessi hópur hefur alla tíð verið samferða í gegnum bransann á einn eða annan hátt. "Þegar ég hugsa um það finnst mér ég stundum vera alveg ofboðslega glötuð. Þegar ég fletti símaskránni minni eru þar bara leikarar og listamenn. Ég upplifi mig sem algjöran fagidjót. En sækjast sér um líkir," segir hún og hlær dátt.

Ekki nóg með það. "Þegar við héldum upp á tíu ára útskriftarafmæli okkar úr Austurbæjarskóla tók strákur úr árganginum saman upplýsingar um hópinn. Lokaniðurstaðan var sú að 80% úr þessum árgangi væru barnlausir listamenn í hundraðogeinum."

Tvíefldist við höfnunina

Esther Talia komst ekki inn í leiklistarskólann í fyrstu atrennu. "Eftir á að hyggja var það líklega blessun því Óli komst inn og ég veit ekki hvort við hefðum lifað það af að vera saman í bekk," segir hún og hlær. Hún reyndi aftur að ári og þá gekk rófan. "Höfnunin varð til þess að ég tók endanlega ákvörðun um að læra leiklist. Sumir gefast upp við höfnun en ég tvíefldist við það. Eftir það kom aldrei annað til greina."

Esther Talia segir að árin í leiklistarskólanum hafi verið frábær tími. Bekkurinn hafi á endanum orðið mjög samrýmdur og þegar Bryndís Ásmundsdóttir, bekkjarsystir hennar, ól son á fyrsta árinu hafi hinar stelpurnar ósjálfrátt orðið mömmur líka. "Það má eiginlega segja að við höfum innsiglað vináttu okkar í þessu námi og nú erum við bestu vinkonur í heimi. Köllum okkur "Rotturnar". Mér finnst ég ótrúlega heppin að hafa fengið þessar stelpur inn í líf mitt," segir Esther Talia en bekkjarsysturnar eru Maríanna Clara Lúthersdóttir, María Heba Þorkelsdóttir, Bryndís Ásmundsdóttir og Ilmur Kristjánsdóttir. Strákarnir í bekknum voru Björn Thors, Þorleifur Örn Arnarsson og Davíð Guðbrandsson.

Ekki er hægt að ljúka yfirferðinni um leiklistarnámið án þess að spyrja um sturtumenninguna. Hvernig var henni háttað í þessum bekk?

"Við afgreiddum þessa sturtumýtu í eitt skipti fyrir öll strax eftir fyrstu Nemendaleikhússýninguna. Fórum bara öll saman í sturtu. Við stelpurnar mættum bara í sturtuna til strákanna og þar með var það mál afgreitt. Ósköp einfalt."

Rosaleg líkamsspunavinna og hopp

Esther Talia brautskráðist frá Listaháskóla Íslands árið 2003. Þá um sumarið fékk hún hlutverk í uppfærslu Gunnars Helgasonar á söngleiknum ástsæla Grease í Borgarleikhúsinu. "Það var mjög skemmtileg byrjun og Gunni Helga er einn af mínum uppáhaldsleikstjórum. Það var frábær reynsla að byrja strax á svona keyrslu en við fórum upp undir áttatíu sýningar á stóra sviðinu sem er mjög sjaldgæft. Ég held að sýningin hafi gengið í ár eða meira."

Á eftir Grease tóku við tvær gjörólíkar sýningar sumarið 2004, Úlfhamssaga í Hafnarfjarðarleikhúsinu og Fame í Smáralindinni. "Það var mjög skrýtið að vinna að þessum tveimur verkefnum á sama tíma. Á daginn var ég í rosalegri líkamsspunavinnu og djúpum tilfinningum í Hafnarfirði og fór svo í Smáralindina á kvöldin að renna Fame sem fólst aðallega í því að syngja og hoppa uppi á sviði. Á meðan heyrði maður óminn af veitingastöðum og allskyns verslunarmiðstöðvarhljóð. Þetta var eiginlega alveg geggjað. En ótrúlega gaman." Úlfhamssaga er Esther Taliu sérstaklega kær sýning. "Það var virkilega gaman að vinna hana og leikhópurinn varð svo tengdur henni enda bjuggum við hana til öll saman frá a-ö. Þetta var líka í fyrsta skipti sem ég var "ein" að vinna í leikhúsi, ef þannig má að orði komast. Þ.e. ég þekkti eiginlega engan þegar ég byrjaði. Það var svolítið frábrugðið því sem ég var vön enda vinir mínir yfirleitt alltaf í kringum mig. Þarna fannst mér ég fyrst vera orðin fullorðin í leikhúsinu," segir hún og hlær.

Úlfhamssaga var líka sýnd í Færeyjum og Esther Talia vonar að farið verði víðar. "Ég held að María Ellingsen leikstjóri sé að reyna að koma okkur til Japan. Það yrði ekki leiðinlegt."

Haustið 2003 stofnaði Esther Talia leikhópinn Kvenfélagið Garp ásamt bekkjarsystrum sínum og fleiri leikkonum, m.a. Sólveigu Guðmundsdóttur, og setti hópurinn upp sýninguna Riddarar hringborðsins - með veskið að vopni í Hafnarhúsinu undir stjórn Þórhildar Þorleifsdóttur. Kvenfélagið Garpur stóð einnig fyrir sýningunni Kaktusmjólk í Klink & Bank á ensku í fyrra og nú hefur hópurinn fengið úthlutað 5,8 milljónum króna til að setja á svið Gunnlaðarsögu næsta haust. Sú sýning verður að öllum líkindum sýnd í Hafnarfjarðarleikhúsinu og Þórhildur verður aftur við stjórnvölinn. Sigurbjörg Þrastardóttir semur handritið.

Esther Talia segir þetta mjög spennandi verkefni og það sé góð reynsla að halda utan um það sjálfur. "Ég hef að vísu sloppið í þetta sinn við alla framkvæmd sökum veru minnar hér fyrir norðan og er afar stolt af Maríu Hebu og Sólveigu fyrir dugnaðinn því það er mjög erfitt að standa í öllum þessum umsóknum og fjármögnun. Það er helsti gallinn við sjálfstæðu leikhópana. Svo kemur líka að því að við þurfum t.d. að velja leikara og listræna stjórnendur í samráði við leikstjórann og ýmislegt fleira. Það verður gaman að kynnast þessari hlið á leikhúsinu líka."

Esther Talia segir að mottó kvenfélagsins sé að hugsa stórt og stefnan sé að sigra heiminn með sýningum sem snerta og ýta við fólki. "Skór eiga líka eftir að vera áberandi hjá Garpinum á komandi árum því áherslurnar liggja víðar en á leiklistarsviðinu."

Frábært tækifæri á Akureyri

Esther Talia kom fyrst norður til að leika í fyrra er hún tók þátt í uppfærslu Leikfélags Akureyrar á Óliver Twist. Á liðnu hausti var hún svo fastráðin til eins árs. Í vetur hefur hún tekið þátt í sýningum á Fullkomnu brúðkaupi og Maríubjöllunni. Þessa dagana standa svo yfir æfingar á lokaverkefni leikársins, Litlu hryllingsbúðinni.

Esther Talia segir tímann fyrir norðan hafa verið ósköp notalegan og hér hafi hún öðlast frábæra reynslu. "Hér hef ég fengið frábært tækifæri til að láta ljós mitt skína í ólíkum hlutverkum. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát. Ég hef leikið í farsa og mjög dramatísku verki og í Litlu hryllingsbúðinni verð ég í stóru sönghlutverki. Þetta gæti því ekki verið betra. Hér hef ég líka unnið með æðislegu fólki. Ungu leikararnir eru frábærir og Þráinn Karlsson er náttúrulega mesti snillingur í heimi. Hann er okkur mikill innblástur. Ég held líka að hann hafi mjög gaman af því að vinna með okkur. Þráinn er Leikfélag Akureyrar."

Esther Talia ber Magnúsi Geir Þórðarsyni leikhússtjóra vel söguna. Hann sé óragur við að gefa ungu fólki tækifæri. Hún segist ekki vita annað en Akureyringar séu ánægðir með gang mála - í það minnsta láti þeir sig ekki vanta á sýningar. Það sé alltaf besti mælikvarðinn. Þannig sló Fullkomið brúðkaup áhorfsmet hjá LA fyrir skemmstu.

Esther Talia segir að þar fyrir utan séu hinir ungu leikarar "ágætt skemmtiatriði" í bænum. "Það vita allir að við erum ekki héðan og við stelpurnar gerum stundum í því að skera okkur úr fjöldanum, setja upp skrýtna hatta, fara í pels og ganga um bæinn. Maður hefur alveg séð bílana hægja á sér," segir hún hlæjandi. "Annars er þetta allt til gamans gert."

Esther Talia segist þó ekki hafa kynnst Akureyringum náið. Þeir hleypi aðkomufólki ekki svo glöggt að sér. "Ég þekki fólkið í leikhúsinu, fólkið í búðinni og fólkið á barnum. Það er okkar fólk."

Í vetur hefur Esther Talia leigt íbúð á Akureyri ásamt tveimur öðrum leikkonum, Maríönnu vinkonu sinni og Álfrúnu Örnólfsdóttur. Hún segir það allt annað líf en að búa á hóteli eins og hún gerði í fyrra. "Það er ekki hægt að bera þetta tvennt saman. Mér leið hálfpartinn eins og ég væri í fangelsi á hótelinu enda flugum við Óli, sem var hérna með mér þá, miklu oftar suður. Komum aðallega hingað til þess að sýna um helgar. Í vetur hef ég hins vegar búið á staðnum sem er miklu þægilegra og afslappaðra þegar mikið er að gera hjá manni. Núna getur maður farið heim til sín að lokinni æfingu og haft það huggulegt."

Nú er Ólafur hins vegar fjarri góðu gamni. Hann hefur verið að leika í Reykjavík í vetur. Esther Talia segir fjarbúðina hafa sína kosti og galla. "Það er alltaf gott að fá smá tíma hvort frá öðru og vinna í sjálfum sér en ef ég á að vera alveg hreinskilin gengur þetta ekki til lengdar. Maður verður bara pirraður á endanum. Svo skreppur maður suður í tvo til þrjá daga og verður bara æstur og stressaður, þar sem maður ætlar að gera allt og hitta alla og nær ekkert að slaka á. Ég get því ekki neitað því að ég hlakka til að flytja aftur til Reykjavíkur í vor."

Litla hryllingsbúðin verður með öðrum orðum síðasta verkefni Estherar Taliu norðan heiða. Alla vega í bili. "Að því er ég best veit verður þetta síðasta verkefnið mitt hérna. Alla vega í þessari lotu. Það má vel vera að maður komi einhvern tíma aftur."

Verkefni fremur en hús

Gunnlaðarsaga er eina verkefnið sem er fast í hendi á næsta leikári en Esther Talia ætlar að hafa augun opin. Hún segir það ekkert sérstakt keppikefli að komast að hjá stóru leikhúsunum, Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu, þó það yrði vitaskuld gaman. Hitt sé meira virði að taka þátt í spennandi verkefnum. "Sjálfstæðu leikhópunum hefur vaxið fiskur um hrygg á síðustu árum og atvinnumöguleikarnir eru ágætir. Þess vegna hugsa ég meira um einstök verkefni og leikstjóra en beinlínis húsin sem slík. Það er líka nýja stefnan í Þjóðleikhúsinu að láta leikstjórana sjálfa velja sitt fólk í hvert verkefni, eins og því verður við komið, frekar en stóla alfarið á fastráðinn leikarahóp hússins."

Talandi um Þjóðleikhúsið þá er Esther Talia í nokkuð sérkennilegri stöðu gagnvart Þjóðleikhússtjóra. Tinna Gunnlaugsdóttir er nefnilega tengdamóðir hennar. Skyldi það vera betra eða verra? "Ég hreinlega veit það ekki. Eins og stefnan er ætti það ekki að skipta neinu máli. Ef leikstjóri biður um mig get ég ekki séð hvers vegna það ætti ekki að ganga. En það er mín skoðun. Kannski finnst fólki út í bæ það eitthvað undarlegt. Annars er þessi bransi svo lítill, það eru svo margir tengdir, að menn geta ekki verið að láta svona hluti hafa áhrif á sig. Er rétt að láta leikara gjalda fyrir það að hann er skyldur eða tengdur einhverjum? Að mínu mati verða leikhússtjórar alltaf að taka faglegar ákvarðanir, burtséð frá öllum tengslum."

Á þetta reyndi fyrr í vetur þegar sonur Þjóðleikhússtjóra, Ólafur Egill, og eiginmaður hennar, Egill Ólafsson, stigu báðir á svið í Túskildingsóperunni. Esther Talia segir fólk hafa ýmsar skoðanir á þeirri ákvörðun og neikvæðar raddir t.a.m. heyrst innan geirans. "Það er bara eitthvað sem maður verður að búa við. Nú eru þeir auðvitað báðir löngu búnir að sanna ágæti sitt, óháð tengslum við Tinnu, þannig að þetta hafði engin áhrif á þá. Óli lætur svona lagað sem vind um eyru þjóta. Menn eiga heldur ekkert að skammast sín fyrir það að vilja vinna með foreldrum sínum eða undir þeirra stjórn svo lengi sem þeir eru ráðnir á faglegum og sanngjörnum grundvelli og ekki "bara af því hann er tengdur mér". Annars er þessi umræða ekkert frábrugðin því sem tíðkast hjá öðrum stéttum. Þar sem leikarar eru meira í sviðsljósinu en til dæmis læknar verður þetta bara meira áberandi."

Hexía de Trix draumahlutverkið

Esther Talia á sér ekkert draumahlutverk. Og þó. "Ég væri alveg til í að leika Hexíu de Trix úr Andrésblöðunum, hvort sem gerð yrði bíómynd eða barnaleikrit."

Henni hrís hugur við að festast í sömu rullunni. "Það var gagnrýnandi að tala um það í útvarpinu um daginn að leikarar yrðu að ákveða í hvaða flokki þeir ætluðu að vera. Hvort þeir ætluðu að vera gaman- eða dramaleikarar. Ég er algjörlega ósammála þessu. Góður leikari á að geta gert hvað sem er."

Talandi um gagnrýni þá voru umsagnirnar sem Esther Talia fékk fyrir Maríubjölluna á dögunum ekkert slor. "Fremst í flokki gengur svo Esther Talia Casey sem er frábærlega sönn í hlutverki Leru, sem á að vera veraldarvanari en svo að láta blekkjast af bjánalegu happdrættissvindli en lifir of ömurlegu lífi til að hafa efni á því að sjá í gegnum drauminn. Sömuleiðis hennar besta frammistaða í mínu leikhúsminni," sagði Þorgeir Tryggvason í fyrrnefndri umsögn í Morgunblaðinu.

Esther Talia segir þetta að sjálfsögðu vera hvetjandi. Annars leggi hún ekki mikið upp úr gagnrýni. "Auðvitað er gaman að lesa gott um sig og manni sárnar ef maður les vont um sig. En svo gleymist það bara. Dómar skipta ekki öllu máli fyrir mig sem leikkonu þegar upp er staðið. Ég veit alltaf best sjálf hvort það er eitthvað til í þeim eða ekki. Stundum er maður sammála þeim, stundum ekki. Það er enginn sérstakur gagnrýnandi í uppáhaldi hjá mér."

Hún viðurkennir þó að gagnrýni skipti máli í listum. "Auðvitað gerir hún það. Sérstaklega út á við. Góð gagnrýni selur, það er ekkert vafamál. Slæm gagnrýni getur líka haft vond áhrif á aðsóknina. Eða góð, ég fer til dæmis oft á sýningar sem fá hryllilega dóma bara til að sjá hvað gagnrýnandanum fannst svona hræðilegt."

Að áliti Estherar Taliu er helsti galli íslenskrar leikhúsgagnrýni sú að hún geti verið of persónuleg. Svo sé hún oft og tíðum of bókmenntafræðileg. Gagnrýnendur eyði miklu púðri í að rekja söguþráð og rýna í verkið. Minna fari fyrir umfjöllun um sýninguna sjálfa og stíl hennar - hinu eiginlega leikhúsi. "Mér finnst gagnrýnendur stundum mæta til leiks með fyrirfram ákveðnar skoðanir og svo verða þeir óánægðir af því að þeir fengu ekki nákvæmlega það sem þeir vildu. Þetta er auðvitað misskilningur hjá þeim. Menn verða að fara með opnum huga í leikhús. Laxness í Shakespeare-búningum eða Ibsen á hjólabrettum. Það getur allt gerst í leikhúsinu."

Sagt að fá sér sílíkon í brjóstin

Esther Talia er ekki bara leikkona, hún er líka söngkona og var á árunum 1997-2004 meðlimur í hljómsveitinni Bang Gang ásamt Barða Jóhannssyni. "Við Barði kynntumst í MR og fórum að vinna saman 1997. Það síðasta sem ég gerði með honum var að fara í tónleikaferð um Evrópu 2004. Eftir það held ég að hann hafi hreinlega gefist upp á mér," segir hún og hlær stríðnislega. "Ég skil það svosem alveg. Hann vildi hafa mig 110% í þessu og ég særði hann stundum með því að taka leiklistina fram yfir hljómsveitina. Það var því ekki um annað að ræða en velja annað hvort. Barði er svo frábær og duglegur að hann á ekki skilið að maður sé í þessu af hálfum huga."

Esther Talia á ljúfar minningar um samstarfið við Barða. Orðlagðan hæfileikamann og að sumra dómi sérvitring. "Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að vinna með Barða. Hann er náttúrulega snillingur. Ofsalega klár og vinnusamur. Og eins og með marga snillinga þá er hann dálítið spes. En við Barði erum ofboðslega góðir vinir og náðum strax saman á grundvelli þar sem við gátum tjáð okkur á almennilegan hátt. Hljóðmennirnir í stúdíóinu höfðu stundum áhyggjur af því að hann væri of vondur við mig - jafnvel að brjóta mig niður - enda er Barði ekkert af skafa af hlutunum. Segir alltaf sína meiningu. Ég kippti mér aftur á móti aldrei upp við þetta enda þekkjumst við svo vel að ég veit alveg hvar ég hef hann. Það ríkti alltaf fullkomið traust á milli okkar."

Esther Talia fór um víðan völl með Bang Gang, svo sem til Frakklands, Ítalíu og Sviss og kynntist heimi popptónlistarinnar ágætlega. "Þetta er skemmtilegur heimur. Samt ekki minn heimur. Alla vega ekki sem ævistarf. Þessi lífstíll er of lýjandi fyrir mig. Svo eru kröfurnar stundum mjög skrýtnar. Einu sinni bauð íslenskur maður í þessum bransa okkur út að borða og ráðlagði mér að fá mér sílíkon í brjóstin. Eins og ekkert væri sjálfsagðara. Það var svolítill löðrungur. En svona er þetta bara. Poppið snýst miklu meira um ímyndina en leikhúsið. Ekki það að Barði tæki þetta í mál. Hann hefði aldrei látið mig fara í sílíkonaðgerð."

Enda þótt Esther Talia sé formlega gengin úr Bang Gang vonast hún til að vinna aftur með Barða í framtíðinni. "Kannski fæ ég einhvern tíma að vera gestasöngkona hjá honum í Bang Gang. Kannski gerum við eitthvað allt annað. Það kemur í ljós."

Esther Talia reiknar aðallega með að fást við söng innan veggja leikhússins á næstu árum. Hún á þegar nokkra söngleiki að baki. Svo gæti hún vel hugsað sér að gera plötu. "Ganga ekki allar söngkonur með þann draum í maganum? Vonandi gerist það einhvern tíma. Að einhverju verður maður að stefna." | orri@mbl.is

Eftir Orra Pál Ormarsson Ljósmyndir Skapti Hallgrímsson