Þær lágu á fallegum grasbala umluktum kjarri og létu sólina leika um nakta líkama. Vitaskuld var það talsverð dirfska en þær bjuggust ekki við mannaferðum úti í guðsgrænni náttúrunni.

Þær lágu á fallegum grasbala umluktum kjarri og létu sólina leika um nakta líkama. Vitaskuld var það talsverð dirfska en þær bjuggust ekki við mannaferðum úti í guðsgrænni náttúrunni. Þess vegna varð þeim hverft við þegar skyndilega heyrðust digrar karlaraddir hóa eftir sauðfé svo að þær gripu í ofboði í flíkurnar og huldu sína launhelgustu staði. Allar nema ein. Sú lagði pilsgopa yfir höfuðið. ,,Við erum allar eins þarna niðri eins og rollurnar sem þeir eru að smala, " sagði hún svo þegar hættan var liðin hjá. "Það er höfuðið á okkur sem skiptir máli."

Þessi saga er rúmlega sjötíu ára en höfð eftir traustum heimildum. Ástæða þess að hún er rifjuð upp núna er sú gegndarlausa klámvæðing sem nú tröllríður samfélaginu og misbýður eðlislægri blygðunarkennd ungmenna. Bein afleiðing af henni er vaxandi kvenfyrirlitning sem fær byr undir báða vængi. í fyrirbærinu Sylvíu Nótt, nýjasta og fyrirferðarmesta framlagi okkar til heimsmenningarinnar.

Hvað er eiginlega fyndið við Silvíu Nótt? Þessa spurningu hef ég lagt fyrir fjölda manns og fengið margvísleg svör. Sum eru á þá lund að hún endurspegli ungar stelpur sem geri út á kynþokkann en hafi ekkert annað fram að færa. Samkvæmt því eru þær galtómar í hausnum og á svipuðu menningarstigi og jarmandi sauðahjarðir. Þegar ég segist ekki þekkja slíkar stúlkur þrátt fyrir daglegt samneyti við stóra hópa af ungmennum, er því svarað að ég fylgist bara ekki með, svona stelpur séu út um allt, í spjallþáttum, slúðurblöðum og jafnvel í Versló! Silvía Nótt sé tímabær ádeila á heimska og klámfengna kvenþjóð. Aðrir segja að maður eigi ekki að taka þetta svona alvarlega. Hér sé aðeins á ferðinni meinlaust grín, svona eins konar ljóskubrandari.

En ef Silvía Nótt er nánast út í bláinn og svo fjarstæðukennd að hún endurspegli engan veruleika, er þá einhver ástæða til að amast við henni? Getur maður þá ekki bara hlegið með? Þótt ég telji mig hafa bærilegt skopskyn segi ég eins og Viktoría Bretadrottning á sínum tíma: "We are not amused." Í fyrsta lagi finnst mér fátt fyndið við ruddalegt orðbragð og klúrar stellingar. Ástæðan er líka sú að krossferð Silvíu, sem sumir segja að beinist gegn taumlausri yfirborðsmennsku í nútímanum, hefur snúist upp í múgsefjun, sem kyndir undir háskalegar ranghugmyndir.

Litlu stelpurnar, sem syngja sigurlagið fullum hálsi með viðeigandi látbragði, líta eðlilega svo á að hér sé komin aðferðin til að ná athygli, slá í gegn, taka Evróvision eða hvað sem er með trompi í stað þess að rækta þá eiginleika sem greina okkur mennina frá sauðahjörð.

Hvort sem fólk hlær að Silvíu eða fitjar upp á trýnið eins og ég verður því ekki á móti mælt að klámvæðing og kvenfyrirlitning ryður sér æ meira til rúms og misbýður eðlislægri blygðunarkennd sem vísað var til í upphafi þessa pistils. Allt slíkt vekur stundarathygli og um hana berjast óprúttin markaðsöfl. Það sem höfðar til vitsmunanna selst hvorki hratt né örugglega.