Eftir Hjálmar Jónsson hjalmar@mbl.is ÁLVERÐ hefur stórhækkað á málmmarkaði í London undanfarna mánuði og var í tæpum 2.400 Bandaríkjadölum tonnið í gær eftir að hafa farið hæst vel yfir 2.
Eftir Hjálmar Jónsson hjalmar@mbl.is

ÁLVERÐ hefur stórhækkað á málmmarkaði í London undanfarna mánuði og var í tæpum 2.400 Bandaríkjadölum tonnið í gær eftir að hafa farið hæst vel yfir 2.600 dali tonnið í byrjun þessa mánaðar, en þessi verð eru þau hæstu sem sést hafa á þessum markaði í meira en hálfan annan áratug.

Fyrir ári var verðið á tonninu af áli rúmir 1.900 dalir eða um 500 dölum lægra en það er í dag. Það var um 1.700 dalir fyrir tveimur árum og um 1.450 dalir á þessum tíma árið 2003. Verðið var enn lægra eða um 1.400 dalir tonnið í febrúar árið 2002, eða um 1.000 dölum lægra en það er í dag.

Verð á áli var hátt á síðasta ári í sögulegu samhengi, en sveiflaðist þó talsvert innan ársins. Það var um 1.800 dalir í upphafi árs og hækkaði upp undir 2.000 dali áður en það lækkaði aftur í 1.700 dali á fyrrihluta ársins. Þar var það um miðbik ársins en hefur síðan hækkað jafnt og þétt. Það komst yfir 2.000 dali tonnið í byrjun nóvember og hækkaði síðan jafnt og þétt áfram í rúma 2.600 dali, eins og fyrr sagði, í byrjun þessa mánaðar. Það lækkaði síðan aftur í 2.300 dali, en hefur hækkað nokkuð aftur síðustu dagana.

Horfur góðar

Horfur á álmörkuðum eru almennt taldar góðar og útlit fyrir hátt verð í ár. Ástæðan er aukin eftirspurn eftir áli, m.a. frá Kína og að eftirspurnin eykst hraðar en framleiðslugetan.

"Menn eru að spá frekar háu verði. Hvað það þýðir er kannski erfitt að segja til um, en ég myndi halda að það væri nær því sem verðið er núna heldur en það var fyrir mánuði," sagði Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Alcan, sem á álverið í Straumsvík, og bætti við að þetta væru auðvitað hærri verð en sést hefðu síðustu árin.