— AP
Hollywood færði veröldinni Svefnvana í Seattle og vill nú stemma stigu við andvökum í úthverfunum, segir breska dagblaðið Sunday Times .

Hollywood færði veröldinni Svefnvana í Seattle og vill nú stemma stigu við andvökum í úthverfunum, segir breska dagblaðið Sunday Times . "Þá sem dreymir um lengri svefn gætu fundið lausnina í safni af vögguvísum sem Scarlett Johansson, Jennifer Garner og Ewan McGregor syngja á geisladisknum Unexpected Dreams. Hann er væntanlegur í apríl og er ætlað að vera svarið við umræðu um andvökur sem sérfræðingar telja í þann mund að valda straumhvörfum."

Sunday Times segir að ein milljón Breta taki svefntöflur að staðaldri og að sumir vísindamenn séu þeirrar skoðunar að maðurinn gangi sífellt á nætursvefninn með sívaxandi álagi á hugann af völdum vinnustreitu, kaffíns og netdægradvöl frameftir nóttu.

"Þeir segja að við fljótum sofandi að feigðarósi," segir breska dagblaðið.

Aðrir halda því fram að svefnvenjur hafi ekki breyst svo ýkja mikið á liðnum árum og að lyfjaframleiðendur séu bara að hafa almenning að féþúfu. Listamennirnir 14 sem syngja á Óvæntum draumförum koma að hluta til fram vegna þess að þeir hafa sjálfir þjáðst af svefntruflunum eða þekkja einhvern sem hefur gert það og vita hversu ömurlegt það er," er haft eftir útgefandanum, Rhino Records.

Gagnrýnendur eiga að vísu eftir að dæma frammistöðu listamannanna; Ewan McGregor flytur The Sweetest Gift (Sade), Scarlett Johannson Summertime og Jeremy Irons Make You Feel My Love (Dylan), svo dæmi séu tekin og því allsendis óvíst hvort flutningurinn truflar eða auðveldar langþráða svefnhöfgi.

Andvökur kosta sitt í Bandaríkjunum, segir Sunday Times ennfremur, en áætlað er að kostnaðurinn af þeirra völdum nemi rúmum 130 milljörðum íslenskra króna á ári vegna slysa og tapaðra vinnustunda. Hefur sala á svefntöflum tvöfaldast á síðastliðnum tíu árum.