Barbara Nedeljakova, Eli Roth, Eyþór Guðjónsson og Jana Havlickova á rauða dreglinum í Tékklandi.
Barbara Nedeljakova, Eli Roth, Eyþór Guðjónsson og Jana Havlickova á rauða dreglinum í Tékklandi.
Eftir Höskuld Ólafsson hoskuldur@mbl.is KVIKMYNDIN Hostel í leikstjórn Íslandsvinarins Eli Roth og státar meðal annars af Eyþóri Guðjónssyni í stóru aukahlutverki, var frumsýnd á fimmtudaginn í Tékklandi en þar gerist myndin að töluverðu leyti.
Eftir Höskuld Ólafsson hoskuldur@mbl.is

KVIKMYNDIN Hostel í leikstjórn Íslandsvinarins Eli Roth og státar meðal annars af Eyþóri Guðjónssyni í stóru aukahlutverki, var frumsýnd á fimmtudaginn í Tékklandi en þar gerist myndin að töluverðu leyti. Eyþór Guðjónsson var viðstaddur frumsýninguna og segir hann að viðtökurnar hafi komið honum virkilega á óvart.

"Sony sem framleiðir myndina að nokkru leyti, var greinilega búið að vinna sína heimavinnu. Þegar við mættum var búið að girða allt af og þarna var rauður dregill eins og lög gera ráð fyrir og ljóskastararnir sem lýstu upp himininn minntu á frumsýningu á Hollywood-breiðgötunni. Mikið af fjölmiðlafólki var þarna samankomið og óhætt er að segja að mikið hafi gengið á."

Segir Eyþór að atgangur ljósmyndaranna hafi verið slíkur að Eli Roth hafi hvíslað að honum að nú vissi hann hvernig Britney Spears liði. Eyþór segir að lífsreynslan, sem engan endi virðist ætla að taka, komi honum stundum skringilega fyrir sjónir en persóna hans virðist oftast falla best í kramið hjá áhorfendum.

"Ég hef til dæmis heyrt að þeir sem sjái myndina fái helst mínar setningar á heilann og mér finnst það alltaf jafnskrítið þegar fólk kemur upp að mér og lofar leik minn. Það er alveg sama hvað ég reyni, ég á erfitt með að vera sama sinnis."

Eyþór segir þó að nú fari hans vinnu við kynningu á myndinni að ljúka. Hostel hefur fengið frábæra aðsókn í Bandaríkjunum og nú sé hún á leið til allra helstu landa heims í gegnum dreifingarnet Sony en þess má geta að myndin fór beint á toppinn Ástralíu þegar hún var frumsýnd þar í landi. "Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt verkefni sem á eftir að skapa mörg skemmtileg framahaldsáhrif sem ég get ekki greint frá núna. Ég get samt lofað því að það verður ekki á leiklistarbrautinni," segir Eyþór og hlær.

"Ég ákvað að gera þetta á sínum tíma sem eitt og stakt verkefni enda með nóg á minni könnu. Þetta er búið að taka aðeins meiri tíma en ég átti von á en núna ætti ég að geta einbeitt mér alfarið að þeim verkefnum sem ég er með í gangi," en þar vísar Eyþór til teiknimyndafyrirtækis sem hann er meðeigandi að og kallast Blue Turtle Entertainment og fasteignahugmynda sem hann vill ekki útskýra frekar að svo stöddu. "Ég er svo með mörg önnur járn í eldinum en verð líka að gefa mér tíma fyrir konuna og börnin."