Það var rétt ákvörðun hjá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra að afleggja einfaldlega samræmdu stúdentsprófin í framhaldsskólum landsins, í stað þess að reyna að lappa upp á þau til að mæta gagnrýni á prófin.

Það var rétt ákvörðun hjá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra að afleggja einfaldlega samræmdu stúdentsprófin í framhaldsskólum landsins, í stað þess að reyna að lappa upp á þau til að mæta gagnrýni á prófin.

Að fenginni tveggja ára reynslu lá fyrir að allir voru óánægðir með samræmdu prófin. Nemendur hunzuðu þau, kennarar sáu ekki tilganginn með þeim og háskólar höfðu engan áhuga á niðurstöðum þeirra. Einkunnir úr þeim voru ekki skráðar í prófskírteini og höfðu ekki áhrif á það hvort fólk útskrifaðist eða ekki. Það eina, sem upptaka þeirra áorkaði, var að tefja fyrir nemendum, sem voru hvort sem er í prófatörn og veitti ekki af öllum sínum kröftum til að klára próf, sem skiptu þá máli.

Bent hefur verið á að það sé fráleitt að t.d. máladeildarmaður og eðlisfræðideildarmaður eigi að taka sama stúdentsprófið í stærðfræði, vegna þess að kunnátta þeirra í faginu er eðli málsins samkvæmt gjörólík. Það er því hæpið að prófin hafi einu sinni þjónað þeim tilgangi að veita menntamálaráðuneytinu upplýsingar sem lið í eftirliti með skólastarfi, en það var einn yfirlýstur tilgangur laganna.

Framhaldsskólar landsins eru ólíkir og eiga að vera ólíkir. Þó hefur það alltof lengi verið viðleitni menntamálaráðuneytisins að steypa þá alla í sama mót með margvíslegum aðferðum. Það er ánægjuefni að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skuli taka þátt í að snúa þeirri þróun við.