Á UNDANFÖRNUM vikum hafa fjölmiðlar séð ástæðu til að upplýsa þjóðina viðstöðulaust um áföll sem þekktar persónur á borð við alþingismenn hafa orðið fyrir.

Á UNDANFÖRNUM vikum hafa fjölmiðlar séð ástæðu til að upplýsa þjóðina viðstöðulaust um áföll sem þekktar persónur á borð við alþingismenn hafa orðið fyrir. Í fyrra tilfellinu keyrði Steingrímur Sigfússon út af við erfiðar aðstæður norður í Húnavatnssýslu. Sjónvarpsstöðvarnar kepptust við að endurskapa óhappið á sem myndrænastan hátt með tilheyrandi vangaveltum um orsakir slyssins. Sagt er að Steingrímur hafi ekki átt annarra kosta völ en að halda blaðamannafund á sjúkrabeðinum til að fá að halda meiðslum sínum fyrir sig og sína. Ferskari eru fréttir af hjartaáfalli Hjálmars Árnasonar. Dagblaðið, af alkunnri smekkvísi, fullyrðir að hann hafi verið endurlífgaður með raflosti.

Ég skil vel hráefnisskort þessara fyrirtækja, en þessi látlausa endurvinnsla á einkalífi og daglegum þjáningum fólks getur ekki verið mjög aðkallandi. Það hefur lengi verið svo að persónuleg áföll, sjúkdómar eða slys sem ekki eru þjóðar- eða alþjóðaeign vegna umfangs, eru ákaflega mikil einkamál. Maður á sjálfur heimtingu á að tilkynna nánustu vinum og ættingjum um óhöpp eða áföll sem henda mann áður en slíkt verður hluti af hlaðborði hinnar daglegu fjölmiðlaveislu. Það er viðurkennt að þátttöku í opinberu lífi fylgir umfjöllun í fjölmiðlum, þetta á við opinbert líf, það er hins vegar ekkert opinbert við slys eða veikindi sem henda fólk úr öllu samhengi við opinberar skyldur þess. Það er augljóst mál að linnulaus fréttaflutningur daginn út og daginn inn krefst hráefnis og þess er leitað alls staðar. Það hlýtur þó að vera hægt að komast að samkomulagi um að einhverjar aðrar breytur ráði umturnun samfélagsins en hagsmunir fjölmiðla og smekkleysa þeirra sem þar vinna. Við erum lítil þjóð og við höfum til þessa verið fullfær um að koma samúð okkar eða hluttekningu á framfæri þar sem við á án íhlutunar fjölmiðla, ég held að það sé tilvalið að hafa það svo áfram.

Mínar bestu kveðjur og óskir um skjótan bata til þeirra sem málið varðar.

Höfundur stundar nám við HÍ.