Frá Helga Gunnlaugssyni: "Á SÍÐASTA ári tók gildi nýtt leiðakerfi strætó á höfuðborgarsvæðinu. Margir kvörtuðu enda breytingar talsverðar. Mun færri sáu nokkuð jákvætt enda farþegar vanafastir."

Á SÍÐASTA ári tók gildi nýtt leiðakerfi strætó á höfuðborgarsvæðinu. Margir kvörtuðu enda breytingar talsverðar. Mun færri sáu nokkuð jákvætt enda farþegar vanafastir. Nú hefur nýja kerfið verið við lýði í nokkra mánuði og raunhæft að leggja mat á ágæti þess. Reynsla mín sem strætófarþega til margra ára er skýr. Nýja kerfið er mun betra en það gamla og í takti við strætókerfi annarra borga á Vesturlöndum. Farþegar komast hraðar milli hverfa og borgarhluta og þurfa ekki að hringsóla í hliðargötum einsog áður.

Ég bý í austurhluta borgarinnar og kemst til vinnu í vesturhlutanum á mun skemmri tíma jafnvel þó eilítið lengra sé í stoppistöðina. Vagnarnir halda einnig miklu betur tímatöflu en kannski á það bara við um leiðirnar mínar. Strætó er annars mjög þægilegur ferðakostur. Einkabílstjóri sér um aksturinn og við getum notið útsýnisins eða litið niður á sívaxandi bíla- og jeppaflota landsmanna sem silast áfram með einmana bílstjóra við stýrið. Áfram strætó!

HELGI GUNNLAUGSSON,

Otrateig 42, 105 Reykjavík.

Frá Helga Gunnlaugssyni: