Hvort sem menn eru beinir eða óbeinir þátttakendur, snýst líf margra heilmikið um alls slags sýningar og uppákomur; leikhúsverk, tónleika, kvikmyndir og sjónvarpsþætti, svo fátt eitt sé nefnt af afþreyingu.

Hvort sem menn eru beinir eða óbeinir þátttakendur, snýst líf margra heilmikið um alls slags sýningar og uppákomur; leikhúsverk, tónleika, kvikmyndir og sjónvarpsþætti, svo fátt eitt sé nefnt af afþreyingu. Í Tímaritinu í dag bregður svo við að flestir sem koma við sögu tengjast einhvers konar listviðburðum eða skemmtunum. Fyrst er að nefna Esther Taliu Casey leikkonu, en gagnrýnandi Morgunblaðsins sagði hana stjörnu Maríubjöllunnar, sem Leikfélag Akureyrar frumsýndi fyrir skemmstu. Í viðtali við Orra Pál Ormarsson kemur fram að henni kippir í kynið því tónlist og leiklist hafa verið ær og kýr kvennanna í fjölskyldunni um árabil. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Esther Talia fengið "frábær tækifæri til að láta ljós sitt skína" eins og hún orðar það og leikið jafnt í försum, söngleikjum og dramatískum verkum. Mörgum listunnendum eflaust til mikillar gleði, enda alkunna að gleði áhorfenda/neytenda er mesti drifkraftur listamannanna. Þessa dagana ræður Sverrir Tynes, viðmælandi Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur, sér vart fyrir gleði því eftirlætishljómsveitin hans, synir Frank Zappa og samleikarar, mun troða upp á Fróni í sumar. Þá er líklegt að Pólverjar, búsettir á Íslandi, og ekki síður landinn, gleðjist yfir pólskri menningarhátíð, sem þær stöllur Anna Wojtynska og Marta Macuga ætla að blása til í haust og státar af mörgum frægum listamönnum frá Póllandi, eins og þær útlistuðu fyrir Þórunni Þórsdóttur. Ítalska tískudrottningin Donatella Versace, sem Helga Kristín Einarsdóttir fjallar um á tískusíðunum, á kannski líka eftir að gleðja margar konur (en sumar náttúrlega ekki) því á vor- og sumartískusýningu 2006 sýndi hún hversdagskjóla, sem ganga minna út á brjóstaklemmu og læraopinberanir en áður. Maður er manns gaman. Ekki einungis fá listamennirnir frábært tækifæri til að láta ljós sitt skína heldur eru tækifærin ekki síðri fyrir okkur hin til að njóta. | vjon@mbl.is