SÍÐUSTU viku hefur Morgunblaðið nær daglega birt greinar eftir mis-súra sjálfstæðismenn sem hafa haft þann sameiginlega tilgang að reyna að höggva í trúverðugleika minn og málflutning.

SÍÐUSTU viku hefur Morgunblaðið nær daglega birt greinar eftir mis-súra sjálfstæðismenn sem hafa haft þann sameiginlega tilgang að reyna að höggva í trúverðugleika minn og málflutning. Óheppnastur var án efa bæjarstjórinn í Garðabæ sem birti grein um velferðaráherslur Garðabæjar beint ofan í fréttir allra fjölmiðla um samanburð á kostnaði fjölskyldufólks í sveitarfélögum. Þar kom fram að hann væri 42-50% hærri í Garðabæ en í þeim sveitarfélögunum sem leggja á lægst gjöld samkvæmt niðurstöðum könnunar ASÍ. Reykjavík er eitt þeirra ódýrustu. Bæjarstjórinn hefði líklega átt að spara sér spjótalög í minn garð fyrir að halda því fram Garðabær dragi lappirnar í velferðarmálum.

Óforskammaðasta greinin var þó eftir Hrafnhildi Björk Baldursdóttur, stjórnarkonu í hverfafélagi Sjálfstæðisflokksins í Grafarholti. Hrafnhildur lét þann virðulega titil raunar ekki fylgja heldur kallaði sig aðeins íbúa í hverfinu. Af hverju þessi feluleikur? Tilgangur greinarinnar var að snúa út úr orðum mínum í borgarstjórn þar sem ég tilkynnti að með breytingum á hinu nýja leiðakerfi strætó myndi ný leið keyra úr Grafarholti í miðborgina. Breytingin tekur gildi innan skamms. Í stað þess að fagna ákvörðuninni gerir Hrafnhildur tortryggilegt að vagnarnir hafi ekki þegar hafið akstur!

Það er aumt að sjá Morgunblaðið taka þennan útúrsnúning upp í Staksteinum. Það dæmir sig sjálft að Sjálfstæðisflokkurinn skipuleggi greinaskrif í aðdraganda kosninga þar sem hallað er réttu máli. Morgunblaðið á hins vegar að vita betur enda hefur blaðið fjallað um breytingarnar á leiðakerfinu í fréttum. Fyllsta ástæða er þó greinilega til að rifja þær upp. Jafnframt er sjálfsagt að bjóða fulltrúum blaðsins í fyrstu ferðina úr miðbænum í Grafarholtið. Og ekki er nema sjálfsagt að stjórn hverfafélags Sjálfstæðisflokksins fái að fljóta með niðrúr. En mætti ekki biðja um að umræður fulltrúa flokksins í aðdraganda borgarstjórnarkosninga verði á ögn hærra plani? Borgarbúar eiga það skilið. Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að eiga eitthvert brýnna erindi við borgarbúa en útúrsnúninga og rangfærslur.

Höfundur er borgarstjóraefni Samfylkingarinnar.