Breytingar á ríkisstjórn staðfestar á ríkisráðsfundi Guðmundur Árni og Össur boða breytingar TILLAGA Davíðs Oddsonar forsætisráðherra um nýja skipan og skiptingu starfa ráðherra var staðfest á ríkisráðsfundi sem haldinn var í gær.

Breytingar á ríkisstjórn staðfestar á ríkisráðsfundi Guðmundur Árni og Össur boða breytingar

TILLAGA Davíðs Oddsonar forsætisráðherra um nýja skipan og skiptingu starfa ráðherra var staðfest á ríkisráðsfundi sem haldinn var í gær. Samkvæmt tillögunni var þremur ráðherrum, þeim Jóni Sigurðssyni, Eiði Guðnasyni og Sighvati Björgvinssyni veitt lausn frá ráðherraembættum sínum. Forseti Íslands skipaði Sighvat að nýju í embætti viðskipta- og iðnaðarráðherra en tveir nýir ráðherrar voru skipaðir; Guðmundur Árni Stefánsson í embætti heilbrigðisog tryggingamálaráðherra og Össur Skarphéðinsson í embætti umhverfismálaráðherra.

Verkin munu tala

"Við skulum láta verkin tala" voru einkunnarorð Guðmundar Árna Stefánssonar við komuna á nýjan vinnustað sinn í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Hann staðfesti að einhverjar breytingar kynnu að eiga sér stað. Sem heilbrigðisráðherra mun hann þó að eigin sögn einkum berjast fyrir hag allra skjólstæðinga velferðarkerfisins. "Ég mun gera það sem ég get til þess að fólk geti treyst áfram á það skjól og þá þjónustu sem heilbrigðiskerfið veitir," sagði Guðmundur við þetta tækifæri.

Sighvatur Björgvinsson fráfarandi heilbrigðisráðherra bauð Guðmund velkominn og óskaði honum ennfremur alls velfarnaðar í nýju starfi. Aðspurður sagðist Sighvatur kveðja heilbrigðisráðuneytið með söknuði en taldi sig þó hafa lokið flest öllum ætlunarverkum sínum. "Þetta eru ákveðin tímamót fyrir mig og ég er sannfærður um að nú sé rétti tíminn til að skipta," sagði Sighvatur í samtali við Morgunblaðið.

Breytinga ekki að vænta

Sighvatur Björgvinsson lagði áherslu á það er hann tók við lyklum að viðskiptaráðuneytinu að hann væri ekki þangað kominn til að breyta stefnu forvera síns. Jón Sigurðsson fráfarandi viðskipta- og iðnaðarráðherra bauð Sighvat velkominn til starfa í ráðuneytinu og minntist orða Matthíasar Bjarnasonar af sama tilefni fyrir sex árum: "Hér tekur Ísfirðingur við af Ísfirðingi, Vestfirðingur af Vestfirðingi." Hann fullvissaði Sighvat jafnframt um það að með ráðuneytinu tæki hann við góðu búi í þeim skilningi að þar væri starfslið sem gott væri að starfa með. Sighvatur þakkaði fyrir sig og kvaðst að lokum vona að hann og Jón muni áfram eiga saman gott samstarf í framtíðinni.

Össur boðar breytingar

Um leið og Össur tók við lyklavöldunum í umhverfisráðuneytinu af Eiði Guðnasyni lýsti hann yfir því að breytinga væri að vænta með komu hans í ráðuneytið. Hann kvaðst ekki vilja greina frá þeim nánar við svo búið en sagði að "verkin myndu tala." Eiður Guðnason kvaðst vera afar sáttur með þessi tímamót en að svo stöddu vildi hann ekki tjá sig um þær vangaveltur að hann kynni að gerast sendiherra.

Morgunblaðið/Kristinn

Breytt ríkisstjórn

ÞRJÁR breytingar voru staðfestar á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í gær. Sighvatur Björgvinsson sest í stól viðskipta- og iðnaðarráðherra, Guðmundur Árni Stefánsson verður heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra og Össur Skarphéðinsson tekur við umhverfisráðuneytinu.