FYRIR tæpum sex árum skrifaði ég grein í Morgunblaðið með fyrirsögninni Hæstiréttur missir af strætó. Tilefnið var að þrír reyndir dómarar, allir konur, og einn stjórnarráðsmaður, karl, sóttu um embætti hæstaréttardómara.
FYRIR tæpum sex árum skrifaði ég grein í Morgunblaðið með fyrirsögninni Hæstiréttur missir af strætó. Tilefnið var að þrír reyndir dómarar, allir konur, og einn stjórnarráðsmaður, karl, sóttu um embætti hæstaréttardómara. Hæstarétt höfðu þá skipað alllengi níu dómarar og var einn þeirra kona. Dómsmálaráðherra veitti karlinum embættið, enda þótt hann hefði enga dómarareynslu, en konurnar höfðu allar átt farsælan feril sem dómarar og enginn efaðist um að þær væru hver um sig vel hæfar til að gegna stöðu hæstaréttardómara.

Síðan gerðist það að kona var skipuð hæstaréttardómari og hafa því um hríð tvær konur skipað dómarastöðu í Hæstarétti. Tvær af níu. Önnur þeirra lætur nú af störfum í dóminum lögum samkvæmt og skipa þarf dómara í hennar stað. Um dómaraembættið sækja tvær konur, báðar með langan og farsælan dómarferil. Einnig sækja um embættið tveir karlar, annar fræðimaður og kennari og hinn dómari. Enn þarf dómsmálaráðherra að velja nýjan hæstaréttardómara úr hópi umsækjenda sem ugglaust teljast allir hæfir til að gegna dómarastöðunni.

Fátt er mikilvægara en að dómstólar njóti trausts meðal borgaranna. Eitt af skilyrðum þess er að dómstólana skipi dómarar, sem ekki aðeins búa yfir nægum verðleikum til að gegna starfinu, heldur og að dómstólarnir endurspegli það samfélag, sem við búum í. Ekki verður um það deilt að konur eru um það bil helmingur íbúanna og þetta ætti að endurspeglast með þeim hætti að því sem næst jafnmargar konur og karlar skipi dómarasætin. Þetta á sérstaklega við um Hæstarétt vegna þess að hann á lokaorðið í öllum dómsmálum, sem ekki lýkur í héraðsdómi, og hann kveður upp þá dóma sem ráða því hvort við búum í réttarríki eða ekki og hvort jafnræðisregla stjórnskipunarinnar er virt. Hæstiréttur er jafnframt gæslumaður mannréttinda í landinu.

Sú aðstaða að Hæstarétt skipi tvær konur af níu eða 22% er óviðunandi. Fari svo að kvendómurum fækki og aðeins ein kona skipi dóminn þá er vegið að trausti og virðingu Hæstaréttar. Ég er ekki viss um að almenningur í landinu muni una því að konum í dóminum verði fækkað og hann skipi ein kona og átta karlar. Nógu er ástandið slæmt fyrir. Það er vart til mikils mælst þegar sú krafa er gerð að konum fækki ekki í dómnum. Ekki verður séð að karlumsækjendurnir hafi neitt umfram kvenumsækjendurna nema síður sé. Dómsmálaráðherra, eða settur dómsmálaráðherra, stendur frammi fyrir því að bera ábyrgð á því að Hæstiréttur setji niður fækki hann kvendómurum í réttinum í einn. Hann mun jafnframt sniðganga þá umsækjendur sem mesta dómarareynslu hafa meðal umsækjenda, ef hann velur ekki aðra hvora konuna. Forvitnilegt væri að heyra hvort ekki sé almennt sammæli um þetta viðhorf sem hér hefur verið reifað.

Látum Hæstarétt ekki missa af strætó. Mikilvægt er að hann komist leiðar sinnar.

Höfundur er lögmaður.