SAMEIGINLEGT lið Þórs og KA tekur sæti ÍBV í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu í sumar en stjórn KSÍ ákvað að bjóða Akureyrarliðunum að taka sæti ÍBV eftir að liðið dró sig úr keppnum sumarsins og þáðu forráðamenn félagsins það boð.
Á síðasta tímabili lék norðanliðið undir merkjum Þórs, KA og KS eins og undanfarin ár. Það sigraði í B-riðli 1. deildarinnar og lék aukaleiki við FH um laust sæti í Landsbankadeildinni þar sem FH hafði betur. Haustið 2004 lék Þór/KA/KS í úrvalsdeildinni þar sem liðið hafnaði í næstneðsta sæti og féll úr deildinni eftir að hafa tapað í aukaleikjum við ÍA um sæti í úrvalsdeildinni.
Niðurröðun leikja í Landsbankadeild kvenna mun haldast óbreytt að mestu leyti en reikna má með minniháttar breytingum.
Liðin sem leika í Landsbankadeild kvenna í sumar verða þessi: Breiðablik, Valur, KR, Stjarnan, Keflavík, FH, Fylkir og Þór/KA.