"Það má mikið vera ef Ógnareðli 2 kemst ekki á blöð sögunnar sem ein versta mynd allra tíma, það eitt er afsakanlegt tilefni til að berja hana augum," segir m.a. í dómnum.
"Það má mikið vera ef Ógnareðli 2 kemst ekki á blöð sögunnar sem ein versta mynd allra tíma, það eitt er afsakanlegt tilefni til að berja hana augum," segir m.a. í dómnum.
Leikstjóri: Michael Caton-Jones. Aðalleikarar: Sharon Stone, David Morrissey, Charlotte Rampling, David Thewlis. 115 mín. Þýskaland/Spánn/England. 2006.

BORGARÍSJAKAR eru tilkomumikil sjón en kuldaleg, sama má segja um Sharon Stone. Hún er stæðileg sem fyrr, aldurinn og lýtalæknar hafa farið mildum höndum um konuna, en af henni stafar jökulkulda. Hann er aðeins einn mýmargra brotalama Ógnareðlis 2, framhaldsmyndarinnar sem tekið hefur á annan áratug að koma á koppinn. Óþægileg nærvera leikkonunnar bætir ekki upp vel þekktan hæfileikaskortinn. Tálkvendið og metsöluhöfundurinn Catherine Tramell á vissulega ekki að vera umvafin hlýju og notalegheitum en Stone fer langt yfir strikið.

Sögusviðið er að þessu sinni köld og fráhrindandi Lundúnaborg, í stað gömlu góðu kennileitanna sem gera hana að einni glæsilegustu heimsborginni, dvelur kvikmyndagerðarfólkið við nýtískulegri borgarhluta og byggingar; stál og gler og kaldir litatónar þjóna vel smekklausri sögunni.

Í upphafsatriðinu kemst Tramell enn og aftur í kast við lögin er hún verður mannsbani. Er að fróa sér undir stýri á hartnær tvö hundruð kílómetra hraða. Slík athöfn hlýtur að enda með lúðrablæstri og söng: Á augnabliki fullnægjunnar tekst Tramell á loft, í bókstaflegri merkingu, og endar á árbotni Thames. Sportbíllinn virðist búinn undir slíkar flugferðir því ekki sést skráma á skáldkonunni en ferðafélagi hennar er ekki jafnheppinn og Tramell er ákærð fyrir morð, við réttarhöldin er m.a. leitað álitsgerðar sálfræðingsins Glass (Morrissey), sem verður næsti leiksoppur skáldkonunnar og jafn-ástæðulaust að rekja framhaldið nánar og að gera sér ferð til að sjá það í bíó.

Það má mikið vera ef Ógnareðli 2 kemst ekki á blöð sögunnar sem ein versta mynd allra tíma, það eitt er afsakanlegt tilefni til að berja hana augum. Áður hefur verið minnst á frammistöðu Stone, mótleikari hennar, David Morrissey, er ekki hótinu skárri og getur nagað á sér neglurnar að hafa tekið hörmulega illa skrifað hlutverk sálfræðingsins sem fús og glaður lætur Tramell táldraga sig uns hann situr pikkfastur í netinu. Morrissey er sjálfsagt ekki vondur leikari, hann geldur, líkt og Rampling og Thewlis, fyrir afspyrnu vont handrit og nöturlega leikstjórn. Það er eitt af furðum leiklistarsögunnar hvernig hin hæfileikaríka Rampling hefur drabbast niður á tjaldinu og Thewlis virðist vera að leika Graham Sounnes á hliðarlínunni.

Að öllu samanlögðu, engin ástæða að fagna öðru en endinum.

Sæbjörn Valdimarsson