EYJASTÚLKUR hömpuðu á laugardaginn Íslandsmeistaratitlinum í handknattleik kvenna, eftir sigur þeirra á HK 31:27 í Digranesi. Sigur ÍBV var í kortunum allan leikinn þó svo að HK-liðið hafi vissulega látið þær hafa fyrir því að landa sigrinum.

EYJASTÚLKUR hömpuðu á laugardaginn Íslandsmeistaratitlinum í handknattleik kvenna, eftir sigur þeirra á HK 31:27 í Digranesi. Sigur ÍBV var í kortunum allan leikinn þó svo að HK-liðið hafi vissulega látið þær hafa fyrir því að landa sigrinum. ÍBV hefur því endurheimt titilinn sem þær unnu árið 2004 en töpuðu til Hauka í úrslitarimmu fyrir ári síðan.

Eftir Kristján Jónsson

HK-liðið var vængbrotið í þessum leik þar sem örvhenta skyttan Tatjana Zukovska var í leikbanni. Auk þess meiddist þeirra sterkasti leikmaður, Aukse Vysniauskaite, í fyrstu sókn leiksins og lék haltrandi lungað úr leiknum. Framan af leik var nánast jafnt á öllum tölum en undir lok fyrri hálfleiks fór skortur á markvörslu að segja til sín hjá HK.

ÍBV náði sér þar með í góða stöðu fyrir síðari hálfleikinn: 17:14.

Eyjaliðið jók forystuna í upphafi síðari hálfleiks og komst í 22:16 en hið unga lið HK neitaði að gefa sig og komst aftur inn í leikinn. Þær náðu þó ekki að minnka muninn niður í meira en þrjú mörk, fyrr en tæpar fimm mínútur voru eftir og staðan þá 28:26. Renata Horvat svaraði hins fyrir ÍBV með laglegu marki úr hægra horninu og þetta mark létti mjög pressunni af meistaraefnunum, sem kláruðu leikinn af öryggi í framhaldinu.

ÍBV sýndi svo sem enga meistaratakta í þessum leik, þær gerðu það sem þurfti til. Stöðugleiki þeirra í vetur skilaði þeim titlinum en með nýju fyrirkomulagi skipta allir deildarleikir máli. Það eru gömul sannindi og ný, að öflugur varnarleikur leggur grunninn að vegsemd í handknattleik, og það hefur Alfreð Örn Finnsson, þjálfari ÍBV, haft að leiðarljósi í vetur. Varnarleikur liðsins hefur verið geysilega sterkur með baráttujaxlinn Ingibjörgu Jónsdóttur í hjarta varnarinnar. Þar fyrir aftan stendur öflugur markvörður, Florentina Grecu. Í sókninni tekur skyttan Pavla Plaminkova gjarnan af skarið, en annars er breiddin ágæt í sóknarleik liðsins. Liðið þarf ekki að treysta á einn ákveðinn markaskorara.Við þetta bætist að liðið er geysilega sterkt á heimavelli sínum og það vó þungt á tímabilinu.

*Valur tryggði sér annað sæti með því að leggja Stjörnuna í Garðabæ, 23:22, eftir að staðan hafði verið jöfn í hálfleik, 11:11. Valur og Hauka hlutu 30 stig en Valur telst fyrir ofan þar sem liðið hafði betur í innbyrðisleikjum. Alla Georgíjsdóttir skoraði 6 mörk fyrir Val og Drífa Skúladóttir 5 en hjá Stjörnunni var Sólveig Lára Kjærnested með 5 mörk.

*Haukar átti ekki í vandræðum með KA/Þór en Haukarnir sigruðu, 31:18, en í staðan í hálfleik var, 17:9. Ragnheiður Guðmundsdóttir var atkvæðamest í liði Hauka með 7 mörk og Hanna G. Stefánsdóttir skoraði 6.