HÆSTIRÉTTUR hefur sýknað karlmann af ákæru fyrir að særa blygðunarsemi konu með því að taka hreyfimyndir af henni inni á kvennasalerni veitingahúss í Kópavogi. Staðfesti Hæstiréttur með þessu dóm Héraðsdóms Reykjaness.

HÆSTIRÉTTUR hefur sýknað karlmann af ákæru fyrir að særa blygðunarsemi konu með því að taka hreyfimyndir af henni inni á kvennasalerni veitingahúss í Kópavogi. Staðfesti Hæstiréttur með þessu dóm Héraðsdóms Reykjaness.

Hæstiréttur taldi ekki hægt að staðhæfa að verknaður mannsins teldist lostugt athæfi, svo sem áskilið sé í 209. grein almennra hegningarlaga um brot gegn blygðunarsemi. Lostugt athæfi í skilningi 209. gr. almennra hegningarlaga sé athöfn af kynferðislegum toga og sem stjórnist af kynhneigð manna en gangi skemmra en samræði og önnur kynferðismök. Ákærði hafi borið því við að athæfi hans hafi ekki verið af kynferðislegum rótum sprottið og að hann hafi eingöngu verið að "fíflast".

Dómurinn taldi að ákærði yrði í sakarmati að njóta vafans í málinu um þá huglægu afstöðu sem bjó að baki verknaði hans.

Málið dæmdu hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Verjandi var Jón Auðunn Jónsson hrl. og sækjandi Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari frá ríkissaksóknara.