GYÐINGAANDÚÐ á Íslandi hefur ekki mikið verið rannsökuð, en það er fullt tilefni til að gera það.

GYÐINGAANDÚÐ á Íslandi hefur ekki mikið verið rannsökuð, en það er fullt tilefni til að gera það. Þetta segir Markus Meckl, lektor við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri, en á laugardag stendur skólinn fyrir málþingi um gyðingaandúð á Íslandi.

Gyðingaandúð (anti-Semitism) er ein elsta tegund samfélagslegra, menningarlegra, trúarlegra og pólitískra fordóma mannkynssögunnar. Á seinustu árum hefur gyðingaandúð komið upp á yfirborðið á Vesturlöndum að nýju og opinber umræða hefur því enn á ný beinst að þessu viðfangsefni með ýmsum hætti.

Meckl segir að gyðingaandúð sé ekki bara eitthvað sem gerist í fortíðinni. Þessa andúð megi finna enn þann dag í dag, en hún birtist með öðrum hætti en á fyrri helmingi þessarar aldar. Dr. Wolfgang Benz, forstöðumaður Zentrum fuer Antisemitismusforschung í Berlín, myndi ræða þetta sérstaklega á málþinginu. Meckl sagði að í V-Evrópu væri litið á gyðingaandúð mjög alvarlegum augum og það endurspeglaðist í löggjöf. Hann sagði að það væri mikill fengur að því að frá dr. Benz til Íslands til að ræða þessi mál, en hann væri einn helsti sérfræðingur heimsins á þessu sviði.

Á Íslandi var aldrei að finna eiginlegt samfélag gyðinga. Hér eru ekki til nein samkunduhús þeirra (sýnagógur) og aðeins örfáir gyðingar hafa búið eða búa nú á Íslandi. Í íslenskum dagblöðum frá þriðja og fjórða áratug tuttugustu aldar er samt að finna fjöldann allan af staðhæfingum sem bera vott um gyðingaandúð.

Meðal þeirra sem rannsakað hafa gyðingaandúð hér á landi er Einar Heimisson sagnfræðingur, en hann féll frá langt fyrir aldur fram. Systir hans, Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur, mun á málþinginu fjalla um tilraun Katrínar Thoroddsen læknis til að bjarga gyðingabörnum. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, Ph.D., fornleifafræðingur og sjálfstætt starfandi fræðimaður, Danmörku, mun á ráðstefnunni fjalla um gyðinga á Íslandi á 20. öld, en Vilhjálmur hefur rannsakað örlög gyðinga í Danmörku og vöktu þær rannsóknir mikla athygli. Þá mun Hjalti Hugason, prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands, fjalla um réttindi gyðinga í Íslandi á 19. öld.

Í tengslum við málþingið verður opnuð sýning í Ketilhúsi á Akureyri sem Markus Meckl og nemendur hans hafa skipulagt, en hún ber yfirskriftina "Útlendingar í Eyjafirði". Um 400 manns af erlendum uppruna búa í Eyjafirði. Í þeim hópi eru m.a. læknar og fiskvinnslufólk. Á sýningunni verða birtar myndir af 30 einstaklingum og sagt stuttlega frá þeim. Jón Kristjánsson félagsmálaráðherra opnar sýninguna.

Málþingið fer fram nk. laugardag á Sólborg við Norðurslóð í stofu L201. Það hefst kl. 9.