Embla - íslenska birkið sem hefur verið kynbætt fyrir tilstilli Gróðurbótafélagsins.
Embla - íslenska birkið sem hefur verið kynbætt fyrir tilstilli Gróðurbótafélagsins. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það tekur langan tíma að kynbæta tré, ekki síst við aðstæður eins og eru á Íslandi. Ein af athyglisverðustu tilraununum sem gerðar hafa verið hérlendis er kynbætt birki, en hið kynbætta tré hefur fengið sögunafnið Embla.

Það tekur langan tíma að kynbæta tré, ekki síst við aðstæður eins og eru á Íslandi.

Ein af athyglisverðustu tilraununum sem gerðar hafa verið hérlendis er kynbætt birki, en hið kynbætta tré hefur fengið sögunafnið Embla.

Tekur mörg ár

"Þetta ferli hefur staðið yfir í fjöldamörg ár enda ekki hlaupið að því að leysa slík verkefni," segir Guðmundur Vernharðsson, eigandi gróðrarstöðvarinnar Markar.

Guðmundur segir að ferlið sé athyglisvert meðal annars af því hve aðferðafræðin sé vönduð.

"Það voru valin úrvalstré og þau fengu síðan eins konar kynbótadóma, ekki ósvipað því sem gerist með hesta eða hunda. Móðurtrén sem valin voru hafa síðan verið látin eignast afkvæmi og svo fá trén einkunn eftir því hversu góð afkvæmin eru, en þá fyrst eru þau tré sem halda áfram valin endanlega."

Guðmundur bætir því við að trén séu bara látin frjóvgast innbyrðis og að það séu fyrst og fremst afkvæmi móðurtrjánna sem skeri úr um það hvaða tré verði áfram með í kynbótunum.

Gróðurbótafélag

Guðmundur segir að oft áður hafi ekki verið notaður nægilega langur tími í kynbótum trjáa, en það sé kannski athyglisverðasta hlið þeirra kynbóta sem leiddu til sköpunar Emblu.

Það er Gróðurbótafélagið, sem stofnað var 1985, sem stendur að baki kynbótum birkisins íslenska.

Það er einkum Þorsteinn Tómasson erfðafræðingur sem staðið hefur fyrir kynbótunum.

Reyndar eru fleiri slík verkefni í gangi á vegum félagsins en þar má nefna meðhöndlun úrvalsefnis frá Alaska sem Gróðurbótafélagið sótti 1985.

Er þar einkum um ösp og víði að ræða en Guðmundur segir að þó búið sé að velja þau tré sem kynbæta á, sé enn verið að skoða erfðaefni þeirra rækilega.

Frá Suðvesturlandi

Birkið, sem valið var til kynbótaferlisins, er einvörðungu af suðvesturhorni landsins enda þrífst það best þar, þó dæmi séu um að Embla hafi haft það ágætt í öðrum landshlutum.

"Sóst er eftir að birkið verði hraðvaxta, beinvaxið með einn ríkjandi stofn og einnig er reynt að hafa stofninn eins hvítan og hægt er."

Þá skiptir greinavöxtur og króna trésins einnig verulegu máli, að sögn Guðmundar.

"Það er verið að sækjast eftir heppilegum greinavinkli, en hann á að vera víður þannig að minni hætta sé á að tréð brotni."

Guðmundur segir að öll fræ sem seld séu frá gróðrarstöðinni Mörk séu af þessu tagi.

"Við seljum fræin og svo eru það aðrir sem selja annaðhvort birkihríslur, fræ eða allstór tré. Það er verið að selja fræ og þetta upp í stærri tré á fleiri stöðum, en þau koma öll héðan upprunalega."