Póstur og sími tekur í notkun nýja talklukku Nákvæm og örugg og röddin blíðleg NÝ fullkomin talklukka verður tekin í notkun hjá 04 í stafrænu símstöðinni í Landssímahúsinu um miðjan þennan mánuð.

Póstur og sími tekur í notkun nýja talklukku Nákvæm og örugg og röddin blíðleg

NÝ fullkomin talklukka verður tekin í notkun hjá 04 í stafrænu símstöðinni í Landssímahúsinu um miðjan þennan mánuð. Hún er mjög nákvæm og öryggi felst í því að klukkan er tvöföld. Þar af leiðandi mega notendur klukkunnar eiga von á að heyra í nýrri rödd en síðustu þrjátíu ár hefur Sigríður Hagalín leikkona sagt fólki hvað klukkan slær. Ingibjörg Björnsdóttir ljær nýju talklukkunni rödd sína sem er hin þriðja í röð talklukkna á Íslandi. Hin fyrsta var keypt frá Svíþjóð og vakti mikla athygli þegar hún var tekin í notkun árið 1937 en þá var ung námsstúlka, Halldóra Briem, fengin til að tala inn á klukkuna.

Hrefna Ingólfsdóttir, blaðafulltrúi Pósts og síma, segir að þessar þrjár klukkur, sem notaðar hafa verið síðustu 55 ár endurspegli glögglega þá hröðu þróun framfara, sem átt hefur sér stað í rafeindatækni á þessari öld. Hin fyrsta var að sögn hennar keypt frá L.M. Ericson í Svíþjóð og var allt tal hljóðritað á sérstakar filmuplötur. Hljóðið fékkst með því að lýsa í gegnum plöturnar með þartilgerðum lömpum en styrkur ljóssins var numinn með ljósnemum eða fótósellum og breytt í hljóðmerki.

Framfaraskref var stigið fyrir réttum þrjátíu árum árið 1963 þegar Sigríður Hagalín leikkona las tímann inn á sérstakar hljómplötur. Þær hafa síðan aðstoðað marga tímavillta menn en Hrefna segir að hátt í fimm þúsund manns hringi daglega í klukkuþjónustu 04.

Nákvæm og örugg

Annað framfaraskref verður stigið í þessum mánuði. Hin nýja talklukka er að sögn Hrefnu mjög nákvæm og miðar tíma sinn við fjóra senda úr Omega-staðsetningarkerfinu víða um heim. Klukkan geymir talið á stafrænu formi í innbyggðum smárásum líkt og gert er á geisladiskum. Kostir hennar felast meðal annars í því að engir hreyfanlegir hlutir sem gætu slitnað eru í henni. Klukkan er ennfremur mjög örugg í rekstri því hún er í raun tvöföld; ef önnur klukkan bilar það tekur hin við.

Ég vona að rödd mín sé blíð

Ingibjörg Björnsdóttir leikkona er hin nýja "ungfrú klukka" en svo var talklukkan nefnd á fjórða áratugnum. "Ég er afskaplega stolt yfir því að fá að feta í fótspor Sigríðar og Halldóru," sagði Ingibjörg í samtali við Morgunblaðið. Hún er lærður leikari og hefur að eigin sögn komið víða við í leiklistinni. "Það mætti segja að ég hafi verið viðloðandi leikhús alla ævi."

En hvernig vildi það til að rödd hennar var valin í talklukkuna? "Það var hringt í mig eftir ábendingu eins leikstjóra í bænum og ég boðuð í raddprófun. Ég veit ekki hvort fleiri hafa verið prófaðar en ég hlaut aftur á móti náð fyrir augum Póst- og símamálayfirvalda." Hún segir að upptökur hafi farið fram í aprílmánuði en að unnið hafi verið úr þeim erlendis. En hvernig stóð Ingibjörg sig? "Ég held og mér var sagt það að rödd mín hafi verið afskaplega blíð. Ég vona bara að ég hafi staðið mig í stykkinu," sagði ungfrú klukka að lokum.

Morgunblaðið/Bjarni

Fyrsta talklukkan

FYRSTA talklukkan sem tekin var í notkun árið 1937 vakti óskipta athygli á sínum tíma. Hún þótti mikil völundarsmíð en þjónaði símnotendum allt til ársins 1963.

Ný "ungfrú klukka"

INGIBJÖRG Björnsdóttir ljáði hinni nýju talklukku rödd sína en í þrjátíu ár hafa notendur 04 hlustað á Sigríði Hagalín þylja upp 11-59-59, 12-00-00...