Jón Baldvin Hannibalsson
Jón Baldvin Hannibalsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Baldvin Hannibalsson skrifar um efnistök blaðsins "Átökin um auðlindina": "Þarna er hvergi vikið að hlut Lúðvíks Jósepssonar, sem var sjávarútvegsráðherra í bæði skiptin, 1958 og 1972, frekar en að hann hafi ekki verið til."

HANNA Arendt, höfundur bókarinnar "Eichmann í Jerúslem" á höfundarrétt að hugtakinu " the banality of evil". Fyrir vöntun á öðru betra má notast við þýðinguna: "Hvunndagsvera hins illa". (Annars vil ég nota tækifærið og lýsa eftir betri þýðingu.)

Meiningin er sú að hið illa birtist okkur ekki bara í froðufellandi brjálæðingum eða kaldrifjuðum glæpamönnum á valdastóli. Hin hversdagslega mynd þess er hinn samviskusami býrókrat, sem lagar sig áreynslulaust að vilja valdsins. En þegar hann álpast út í dagsbirtu eða er staðinn að verki, svarar hann ævinlega fyrir sig með þessum orðum: "Ég bara vinn hérna."

Hanna Arendt lagði útaf þeim mun sem er á stjórnarfari alræðisríkisins og gamaldags einræði. Alræðisríkinu er ekki nóg að stjórna bara orðum og gerðum þegnanna; það þarf að stjórna hugsunum þeirra líka. Til þess þarf að ráða umræðuefninu og falsa söguna. Til dæmis þannig að persónur, sem falla í ónáð, hætta að vera til.

Þann 31. maí sl. fylgdi "innskotsblað" Morgunblaðinu inn á íslensk heimili. Blaðið heitir "Átökin um auðlindina"og var um sögu landhelgismálsins. Tilefnið var undirritun Óslóarsamkomulagsins 1. júní 1976, sem fól í sér viðurkenningu Breta á 200 mílna fiskveiðilögsögu Íslands. Útgefandi er KOM almannatengsl (Jón Hákon Magnússon), ábyrgðamaður er Sigurður Sverrisson og meðal styrktaraðila eru íslensku bankarnir, sem fá sómaviðtöl við bankastjórana, enda hafa þeir væntanlega borgað brúsann.

Þótt höfuðáhersla sé lögð á aðdraganda Óslóarsamkomulagsins 1976 fer ekki hjá því að víða er vikið að sögu landhelgismálsins, þ.á m. að útfærslunni í 12 mílur 1958 og 50 mílur 1972. Eitt vekur athygli mína. Þarna er hvergi vikið að hlut Lúðvíks Jósepssonar, sem var sjávarútvegsráðherra í bæði skiptin, 1958 og 1972, frekar en að hann hafi ekki verið til. (Undantekningin er ágætt viðtal við dr. Guðna Th. Jóhannesson, sagnfræðing og höfund bókarinnar: "Þorskastríðin þrjú".) Hvort sem mönnum líkar betur eða verr, er hlutur Lúðvíks í sögu landhelgismálsins svo stór, að hann verður ekki sniðgenginn, vilji menn hafa það sem sannara reynist. Bandaríska vikuritið Time hafði á sínum tíma ákveðið að setja mynd hins harðsnúna útkjálkamanns Lúðvíks Jósepssonar, á forsíðuna sem dæmi um fulltrúa smáþjóðar, sem þorði að standa uppi í hárinu á breska heimsveldinu. Á seinustu stundu brá til tíðinda fyrir botni Miðjarahafsins svo að Nasser Egyptalandsforseti ruddi Lúðvík útaf forsíðunni í það skiptið. Fréttamat Time segir hins vegar sína sögu.

Lúðvík Jósepsson verðskuldar því sanngjarna umfjöllun í máli og myndum þegar saga landhelgismálsins er reifuð, langt umfram suma þeirra sem sem hampað er á síðum innskotsblaðs Morgunblaðsins. Nú er spurningin: Hver ber ábyrgðina? Flokkast þetta undir vanrækslusynd eða er Sögufölsunarfélag Sjálfstæðisflokksins enn að verki? Ég tek það fram að svarið sígilda: "Ég bara vinn hérna" - er ekki tekið gott og gilt.

Höfundur var utanríkisráðherra 1988-1995.