Heimildarmynd um Dag Sigurðarson NÝ heimildarmynd um skáldið og málarann Dag Sigurðsson verður frumsýnd annað kvöld á Hótel Borg. Andrá hf. framleiðir myndina í samvinnu við Mega film, en höfundar hennar eru Kári Schram og Jón Proppé.

Heimildarmynd um Dag Sigurðarson NÝ heimildarmynd um skáldið og málarann Dag Sigurðsson verður frumsýnd annað kvöld á Hótel Borg. Andrá hf. framleiðir myndina í samvinnu við Mega film, en höfundar hennar eru Kári Schram og Jón Proppé. Hér er um að ræða fjörutíu mínútna mynd um sólarhring í lífi Dags, og nefnist hún Dagsverk.

Í myndinni er fylgst með Degi í einn sólarhring og hann reifar skoðanir sínar á mannlífinu og á reykvísku samfélagi, les ljóð sín og málar og rifjar upp ýmislegt frá fyrri tíð.

Íslenskar myndir í Þýskalandi

Dagsverk er framleitt til sýningar í kvikmyndasölum og um helgina verður myndin tekin til sýninga í Reykjavík. Borist hefur boð að sýna myndina á kvikmyndahátíð í Augsburg í Þýskalandi í apríl á næsta ári og segir Karl Schram að í deiglunni sé að helga þá hátíð íslenskum myndum. Einn aðstandenda þessarar "óháðu kvikmyndahátíðar" hafi séð myndina um Dag á forsýningu fyrr í sumar og lýst áhuga á að sýna hana og fleiri myndir héðan. Ef vel gangi að safna saman myndum eftir íslenska kvikmyndagerðarmenn geti þær orðið aðalefni hátíðarinnar.

Dagur á filmu

Dagur birti fyrstu ljóðabók sína árið 1958, en hann er ekki aðeins kunnur fyrir ljóð sín, heldur einnig fyrir bóhemalíf og fyrir harðvítugar árásir á borgaralegt samfélag og siðferði.

Þegar myndin gerist hefur Dagur engan fastan samastað. Hann vaknar á sófa heima hjá kunningja sínum og þegar náttar leitar hann aftur gistingar hjá vinum. Myndin segir frá viðburðum dagsins: heimsókn Dags til ungrar dóttur sinnar, læknisskoðun, matarboðum og æsilegum gjörningum með listamönnum næturlífsins svo eitthvað sé nefnt.

Tökur fóru fram árið 1991 en eftirvinnsla myndarinnar hefur staðið í hálft annað ár. Um klippingu sá Elísabet Rónaldsdóttir, en Einar Melax samdi tónlistina.

Morgunblaðið/Júlíus

Dagur Sigurðarson