Jóhann Ingvarsson fæddist í Hafnarfirði 29. september 1923. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 29. júní síðastliðinn. Foreldrar hans voru Ingvar Júlíus Björnsson trésmiður, f. 2. júlí 1889, d. 11. febrúar 1976, og Valgerður Brynjólfsdóttir húsmóðir, f. 28. september 1900, d. 18. apríl 1991. Jóhann átti fjögur systkini, á lífi eru Guðrún og Tryggvi, en látin eru Skúli og Bryndís.

Jóhann kvæntist 4. apríl 1953 Rögnu Bergmann Guðmundsdóttur, f. 29. október 1933. Þau eiga sex börn, þau eru: 1) Valur Ragnar, f. 3. september 1953, sambýliskona Sædís Sigurðardóttir, 2) Katrín Gróa, f. 19. mars 1955, maki Trausti Friðfinnsson, 3) Jóhanna Huld, f. 24. nóvember 1956, maki Albert Ingason, 4) Guðrún Edda, f. 5. ágúst 1959, maki Birgir Ingibergsson, 5) Bergþóra Ósk, f. 5. mars 1962, maki Ólafur Eyjólfsson og 6) Örn Ingvar, f. 27. maí 1964, maki Hrefna Hermannsdóttir.

Fyrir átti Jóhann tvo syni, William Ragnar, f. 9. apríl 1946, og Guðmund Reyni, f. 5. mars 1953, maki Inga Rún Garðarsdóttir.

Fyrir átti Ragna einn son, Eirík Þorsteinsson, f. 27. apríl 1950, maki Berglind Björnsdóttir.

Afabörnin eru 26 og langafabörnin 13.

Jóhann var atvinnubifreiðarstjóri, lengst af hjá Bæjarleiðum.

Útför Jóhanns verður gerð frá Bústaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku afi Jói, manstu þegar við sátum við eldhúsborðið og þú kenndir mér að leggja kapal? Það er ein af mínum fyrstu minningum um þig, þú lagðir mikla áherslu á að svindla ekki þó freistandi væri til að kapallinn myndi ganga upp, en þú sagðir að ég græddi ekkert á því, ég væri þá bara að svindla á sjálfri mér. Alltaf sitja þessa setningar ofarlega hjá mér.

Og manstu þegar við horfðum út um gluggann og horfðum á fólkið og bílana fara hjá og þér fannst vera orðinn svo mikill hraði á fólkinu? Við gátum setið klukkutímum saman og horft út um gluggann. Mér fannst og finnst enn gaman að horfa út um glugga.

Ég á fullt af skemmtilegum minningum um þig afi minn og mun ég hugsa oft til þín.

Núna hefur þú stórbrotið útsýni og getur séð allt og alla og lagt alla þá kapla sem þig langar til.

Og kannski tekur þú í pípu, hver veit? Takk fyrir stundirnar okkar saman, ég mun koma visku þinni áfram til barnanna minna.

Guð geymi þig.

Eva Dögg.

Elsku besti afi Jói, margar góðar minningar hafa komið upp í hugann síðustu daga. Jólaboðin á Háaleitisbrautinni voru þau bestu. Við krakkarnir að klæða okkur í föt af ykkur ömmu og þykjast vera að reykja pípurnar þínar og svo sýndum við leikrit fyrir fullorðna fólkið. Þessum jólaboðum mun ég aldrei gleyma og það eiga sennilega engin jólaboð eftir að toppa þessi.

Mér er líka minnisstætt þegar þið amma komuð í heimsóknirnar ykkar í sveitina og komuð alltaf með smurt brauð í margra hæða nestisboxinu ykkar.

Þegar ég hugsa um þig, elsku afi minn, þá heyri ég hláturinn þinn, hringingarnar í klukkunum þínum og sé þig fyrir mér sitjandi við eldhúsborðið að hlusta á útvarpið eða í svarta stólnum við sjónvarpið að fylgjast með lottóinu.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Nú er komið að kveðjustund, elsku afi minn, og loksins ertu búinn að fá hvíldina þína. Þó að kveðjustundin sé sár og erfið fyrir okkur þá vona ég að þér líði vel þar sem þú ert núna, laus við öll þessi veikindi sem hafa hrjáð þig svo lengi.

Elsku amma, missir þinn er mikill og bið ég guð og alla engla að vaka yfir þér og öllum öðrum sem syrgja hann afa Jóa.

Ég elska þig, elsku afi Jói, og mun aldrei gleyma þér.

Þín dótturdóttir,

Birgitta Rún.