13. júlí 2006 | Minningargreinar | 7853 orð | 1 mynd

GUÐRÚN P. HELGADÓTTIR

Guðrún Pálína Helgadóttir fæddist í Reykjavík 19. apríl 1922. Hún lést á Landspítala - háskólasjúkrahúsi við Hringbraut hinn 5. júlí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Helgi Ingvarsson, yfirlæknir á Vífilsstöðum, f. 10.10. 1896, d. 14.4. 1980, og Guðrún Lárusdóttir, kona hans, f. 17.3. 1895, d. 4.3. 1981.

Systkini Guðrúnar eru: Ingvar Júlíus forstjóri, f. 22.7. 1928, d. 18.9. 1999, Lárus Jakob, fyrrv. yfirlæknir, f. 10.9. 1930, Sigurður, sýslumaður og bæjarfógeti, f. 27.8. 1931, d. 26.5. 1998, Júlíus, f. 24.12. 1936, d. 27.2. 1937, og Júlía, f. 14.7. 1940, d. 17.6. 1950.

Guðrún giftist 24.4. 1943 Oddi Ólafssyni barnalækni, f. 11.5. 1914, d. 4.1. 1977, en þau skildu. Sonur þeirra er 1) Ólafur Oddsson menntaskólakennari, f. 13.5. 1943, kvæntur Dóru Ingvadóttur framkvæmdastjóra, f. 26.9. 1945. Dætur þeirra eru a) Guðrún Pálína og b) Helga Guðrún.

Guðrún giftist 20.8. 1949 Jóni Jóhannessyni prófessor, f. 6.6. 1909, d. 4.5. 1957. Synir þeirra eru: 2) Helgi, dósent og læknir, f. 16.8. 1952, kvæntur Kristínu Færseth, félagsfræðingi og sérfræðingi, f. 24.1. 1952. Börn þeirra eru Jón, Guðrún Pálína, Einar Andreas og Helgi. 3) Jón Jóhannes Jónsson, dósent og yfirlæknir, f. 21.7. 1957, kvæntur Sólveigu Jakobsdóttur, dósent og kennslufræðingi, f. 26.11. 1958. Börn þeirra eru Jóhanna, Guðrún Pálína og Jón Jakob. Barnabarnabörn Guðrúnar eru fjögur.

Guðrún giftist 24.4. 1975 Jóhanni Gunnari Stefánssyni framkvæmdastjóra, f. 21.7. 1908, d. 23.12. 2001.

Guðrún ólst upp á Vífilsstöðum. Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1941, kennaraprófi 1945, BA-prófi í íslensku og ensku frá HÍ 1949 og doktorsprófi frá háskólanum í Oxford 1968. Fjallaði ritgerð hennar um sögu Hrafns Sveinbjarnarsonar og var hún gefin út 1987.

Guðrún var íslenskukennari við Gagnfræðaskóla Austurbæjar í ellefu ár og hún kenndi um tíma í MR. Hún var íslenskukennari við Kvennaskólann í Reykjavík frá 1955 og skólastjóri þar 1959-1982.

Guðrún samdi margvísleg rit og greinar um bókmenntir, sögu og fleira, m.a. Skáldkonur fyrri alda I-II (1961-1963) og Sýnisbók íslenzkra bókmennta (1953, með Sigurði Nordal og Jóni Jóhannessyni). Ljóðabók Guðrúnar, Hratt flýgur stund, kom út 1982 og bókin Helgi læknir Ingvarsson árið 1989. Guðrún ritaði einnig bækurnar Lárus hómópati (1994) og Brautryðjandinn, Júlíana Jónsdóttir skáldkona (1997). Guðrún var um skeið formaður Bandalags kvenna í Reykjavík og síðar heiðursfélagi þess. Hún var ritstjóri "19. júní" 1958-1962. Hún sat lengi í stjórn Hjartaverndar, í stjórn Minningargjafasjóðs Landspítalans og var formaður sjóðsins um hríð. Guðrún var formaður félags kvenna í fræðslustörfum, Alfa-deild, 1982-1984, síðar heiðursfélagi, og hún sat um skeið í stjórn Þjóðvinafélagsins. Guðrún varð stórriddari Hinnar íslensku fálkaorðu 1971.

Útför Guðrúnar P. Helgadóttur verður gerð frá Hallgrímskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Gagnmerkur brautryðjandi og baráttukona, Guðrún P. Helgadóttir, hefur kvatt okkur. Vegir okkar lágu fyrst saman í Kvennaskólanum fyrir hartnær fimmtíu árum. Mikla virðingu bárum við fyrir frú Guðrúnu eins og hún hét í huga ungra námsmeyja. Hún var afburðakennari, réttsýn og þurfti ekki að brýna raust sína til þess að halda aga en gerði það, ef hún vildi leggja sérstaka áherslu á eitthvað í fræðunum.

Guðrún barðist snemma fyrir því að skólinn fengi að útskrifa stúdenta. Sá hún eflaust fyrir að það yrði nauðsynlegt til þess að hann héldi sínum sess í menntakerfinu. Barátta hennar hafði þau áhrif á mig, sem hafði lokið kvennaskólaprófi, að ég vildi verða í hópi fyrstu stúdenta frá skólanum. Það varð þó ekki raunin þá, en ég gerðist utanskólanemi í MR og þar kynntist ég íslenskukennaranum, Ólafi syni hennar.

Það má segja að tengdamóðir mín hafi áður haft mikil áhrif á líf mitt því að hún mælti með mér, nýútskrifaðri úr Kvennaskólanum, til starfa hjá Ríkisútvarpinu, en þar hef ég unnið síðan. Frú Guðrún hafði reyndar brýnt fyrir námsmeyjum að ekki væri traustvekjandi að skipta oft um starf!

Í fjölskyldunni gladdist hún yfir hverjum nýjum afkomanda. Henni fannst ungbörn yndisleg en skemmtilegra þegar þau fóru að tala og hún gat haft vitræn samskipti við þau. Henni þótti sérstaklega vænt um að þrjár af sonardætrum hennar voru skírðar Guðrún Pálína. Hún fagnaði öllum áföngum í námi okkar og starfi og var óspör á hvatningu, sérstaklega til kvenþjóðarinnar. Ef maður efaðist um getu eða hæfni einhvers staðar á leiðinni að settu marki, sagði hún: "Að sjálfsögðu geturðu það."

Líf Guðrúnar var ekki alltaf dans á rósum. Hún fór einstæð móðir í háskólanám og varð síðan ekkja 35 ára með tvo syni og ófrísk að hinum þriðja. Hún var nýflutt á Aragötuna sem ekki var fullbúin og róðurinn var þungur. Hún leigði kjallarann fyrir geymslur og saumaði barnakjóla og seldi ásamt Svönu Teódórsdóttur, frænku sinni og hjálparhellu heimilisins í áratugi. Rúmlega fertug gekkst Guðrún undir tvísýna hjartaaðgerð í Bandaríkjunum og nokkru síðar skellti hún sér í doktorsnám í Oxford.

Árið 1975 giftist Guðrún Jóhanni Gunnari og var það mikið gæfuspor. Þau ferðuðust víða og fóru í sumarleyfi með Helga og Kristínu í Svíþjóð og til Jóns og Sólveigar í Ameríku, auk ferðalaga innanlands. Það var gaman að ferðast með þeim hjónum og varla var gerður stuttur stans án þess að einhver kæmi til hennar og þakkaði fyrir íslenskukennsluna. Einnig nutu þau þess að dveljast í sumarbústað sínum á Þingvöllum.

Guðrún orkaði á suma sem hörkutól en undir niðri sló hlýtt hjarta sem viknaði þegar hún var spurð að því hvort elsta sonardóttirin mætti bera nafn hennar. Og hún táraðist af gleði þegar yngsti afkomandi hennar hlaut nafnið Júlía, en það var nafn systur hennar, sem lést ung að árum.

Blessuð sé minning Guðrúnar.

Dóra Ingvadóttir.

"Við amma erum alveg sömu hörkutólin." Þessi orð yngri dóttur minnar, sem heitir Guðrún Pálína eftir ömmu sinni, rifjuðust upp fyrir mér þegar Guðrún tengdamóðir mín lá í síðasta skipti á sjúkrahúsi. Hún barðist þá svo sannarlega af hörku fyrir lífinu. En þegar hún hafði kvatt nánustu fjölskylduna sína með reisn hætti hjartað að láta að stjórn.

Þar sem heitir og kaldir straumar mætast eru frjóustu og bestu fiskimiðin. Í Guðrúnu var góð blanda af heitum og köldum straumum, kannski var það þess vegna sem hún var svo skapandi í fræðimennsku, skáldskap og kennslu. Hún gat verið mjög rökvís og kaldgreind en að sama skapi tilfinningarík og hlý. Þó að hjartað væri veikt var það á réttum stað. Hún var ákveðinn stjórnandi, metnaðarfull og gerði strangar kröfur til sjálfrar sín og annarra. Allt sem standast átti tímans tönn skyldi vera fyrsta flokks hvort sem um var að ræða skóla eða skrif, eldhúsinnréttingar eða húsgögn. Fyrir unga tengdadóttur, sem lét kannski ekki alveg eins vel að stjórn og Kvennaskólinn, var stundum dálítið taugastrekkjandi í Aragötukjallaranum fyrstu búskaparárin, þó að móttökurnar væru góðar. En eftir því sem tímar liðu og við fengum að kynnast betur og læra hvor á aðra jókst gagnkvæm virðing og væntumþykja okkar jafnt og þétt.

Höfðingsskapur einkenndi tengdamóður mína og heimilið á Aragötu 6 sem ég kom fyrst á árið 1977. Eiginmanns hennar, Jóhanns Gunnars Stefánssonar, naut þá einnig við svo og frænku Guðrúnar, Svönu Teódórsdóttur. Áttum við oft einstaklega góðar stundir með þeim ásamt fleiri ættmennum og vinum. Mjög gestkvæmt var á Aragötunni enda gestrisni þar mikil. Guðrún brá á leik með barnabörnunum. Sköpunarkraftur þeirra var virkjaður og ganginum á Aragötunni fljótt breytt í leikhús, listasafn eða blómlega verslun. Auk þess voru þau, sem voru móttækileg, smituð af hestabakteríu. Dekrað var við börnin og þau fáu skipti í lífinu sem Guðrún spilaði ekki endilega til sigurs, og sætti sig vel við tap, voru þegar hún spilaði við þau. Yndisleg eru ljóðin hennar en mörg þeirra orti hún til barnabarnanna.

Guðrún barðist alla tíð fyrir Kvennaskólann og þróun hans af mikilli framsýni. Menntun og fræði voru í hávegum höfð og þá ekki síst menntun og skapandi störf kvenna. Ég naut sérstaklega góðs af því viðhorfi þegar ég var í framhaldsnámi í Bandaríkjunum. Veturinn 1993-1994 var ég í þeirri stöðu að þurfa að stunda námið fjarri eiginmanninum og var erlend vinkona mín á sama báti. Hún dauðöfundaði mig því þegar tengdamóðir hennar hringdi frá Kóreu gerði hún ekki annað en að skamma hana fyrir að sinna ekki eiginmanninum almennilega. En þegar Guðrún hringdi í mig frá Íslandi sýndi hún mér ætíð mikinn stuðning og hvatningu sem mjög gott var að fá á þessu erfiða tímabili í náminu. Henni fannst sjálfsagt að menntun mín hefði forgang. Hún hafði líka verið ein af þeim sem ruddu brautina hvað varðar langskólanám kvenna sem níundi kvendoktor Íslands árið 1969 og sjálf þurft að eyða löngum tíma fjarri fjölskyldunni. Hún huggaði mig með því að tíminn yrði fljótur að líða og áreiðanlega fórnarinnar virði.

Guðrún Pálína, dóttir mín, var ekki sérlega sátt við nafnið sitt þegar hún bjó ung telpa í Bandaríkjunum. Engir gátu borið það rétt fram auk þess sem það olli töluverðum ruglingi í fjölskylduboðum á Íslandi að nöfnu virtist að finna á hverju strái. En síðastliðið vor sagði hún: "Núna er ég mjög stolt af því að heita þessu nafni af því að amma mín er ein merkilegasta manneskja sem ég þekki." Ég get svo sannarlega tekið undir þau orð. Guðrún var merk kona sem mjög dýrmætt var að fá að kynnast náið. Hún var fyrirmynd og hélt merkinu hátt á loft á mörgum sviðum - fyrir Kvennaskólann, íslenskar konur og fræði, menningu og listir og fjölskyldu sína. Eitt það síðasta sem hún brýndi fyrir afkomendunum skömmu fyrir dauða sinn var mikilvægi góðs orðstírs. Hún er nú látin, en orðstír hennar sjálfrar mun seint deyja. Ég kveð hana að lokum með orðum eftirlætisskálds hennar, Jónasar Hallgrímssonar, sem eru úr kvæðinu: "Til herra Páls Gaimard."

Tífaldar þakkir því ber færa

þeim, sem að guðdómseldinn skæra

vakið og glætt og verndað fá

viskunnar helga fjalli á.

Sólveig Jakobsdóttir.

Guðrún P. Helgadóttir, amma mín, hefur sagt mér frá ýmsu sem á daga hennar hefur drifið og hef ég dáðst að því hvernig þrautseigjan, stefnufestan og hugsunin um að berjast áfram hefur gefið henni kraft þegar á brattann var að sækja. Amma skildi sátt við sitt ævistarf og var þakklát guði fyrir að hafa gefið sér gott og langt líf og fjölskyldu sem hún unni heitt.

Við barnabörnin nutum þess að amma lauk störfum sem skólastjóri tiltölulega snemma. Hún gat því beint orku sinni að ritstörfum og ómældan tíma hafði hún fyrir okkur. Við vorum alltaf velkomin á Aragötuna til hennar og afa, Jóhanns Gunnars Stefánssonar, hvernig sem á stóð. Það sem í æsku virtust einungis leikir sé ég nú að þjónuðu þeim tilgangi að örva okkur og kenna margt. Við héldum margar myndlistarsýningar, leiruðum af miklum móð undir handleiðslu ömmu, perluðum heil ósköp og settum upp leiksýningar. Töluverður undirbúningar var fyrir leiksýningarnar, til að mynda margar æfingar við samlestur enda lögðum við allt á minnið.

Sérstaklega minnisstæðir kostir ömmu voru festan og hversu samkvæm hún var alltaf sjálfri sér. Við skreyttum til dæmis hjá henni fyrir hver jól og í mínum huga eru jólin ekki komin fyrr en við frænkurnar vorum búnar og amma kemur og segir: "Guð minn almáttugur, nú eru jólin komin á Aragötuna." Stórfjölskyldan hittist alltaf á jólum og alltaf hélt amma upp á afmælið sitt á sumardaginn fyrsta. Amma lagði mikið upp úr því að fjölskyldan stæði saman og hún var sannkallaður ættarhöfðingi. Það var þessi regla sem var svo gott að vita af hjá ömmu, að vita alltaf að hverju maður gekk. "Ég skal, ég get, ég vil, ég ætla" eru orð ömmu sem ég mun hafa í huga þegar á þarf að halda. Amma gaf mér mörg gagnleg ráð sem munu koma sér vel í framtíðinni.

Það var ömmu mikið gleðiefni þegar dóttir mín, Júlía, var skírð í fyrra. Amma sagði mér að henni þætti afar vænt um nafnið og að hún hefði tárast af gleði í skírninni. Ömmu fannst greinilega tími kominn til að einhver af niðjum hennar bæri þetta fallega fjölskyldunafn þótt hún hefði ekki minnst á það fyrir fram. Á sínum síðustu dögum spurði hún mig mikið um Júlíu og talaði um hversu yndisleg hún væri. Amma hafði mikil og góð áhrif á mig og kenndi mér svo margt. Hún háði á sinn einstaka hátt hetjulega baráttu fyrir lífi sínu sína síðustu ævidaga og var skýr til síðustu stundar. Ég er þakklát fyrir þær stundir sem ég þá fékk með henni. Ég sakna ömmu en ég veit að hún er komin á betri stað, hjá guði almáttugum. Þar mun hún fylgjast með mér og veita mér styrk í framtíðinni. Guð blessi minningu elsku ömmu minnar.

Guðrún P. Ólafsdóttir.

Amma er dáin. Eftir standa ótal minningar um elsku ömmu mína. Elstu minningarnar eru úr Klettabænum þar sem við sátum saman og amma var að skrifa niður sögu sem ég var að segja henni. Hún var mjög einbeitt og sagði við mig að við værum að skrifa alvörubók. Ég var fjögurra ára og fannst eins og ég væri fullorðin.

Síðan þá hefur hún hvatt mig til að leggja mig alla fram í því sem ég hef verið að gera og jafnframt kennt mér að ég geti gert allt sem ég vil. Varla er hægt að kenna barnabarni sínu betri lexíu en það.

Í síðasta skiptið sem ég heimsótti ömmu á Aragötuna dró hún upp gömlu minnisbókina og las fyrir mig söguna okkar úr Klettabænum. Bókin var slitin og skökk en "full af besta fjársjóði í heimi", eins og amma orðaði það.

Takk fyrir allt, elsku amma mín.

Hvíl í friði, þín

Guðrún P. Helgadóttir yngri.

Guðrún P. Helgadóttir var kennari af guðs náð. Ég sem barnabarn naut oft góðs af þessum hæfileika hennar. Mér er sérstaklega minnisstætt eitt atvik skömmu eftir að ég flutti heim frá Bandaríkjunum eftir margra ára dvöl. Ég var þá nýbyrjuð í menntaskóla og fyrsta íslenskuverkefni mitt var að skrifa ritgerð um sjálfvalið ljóð. Þetta þótti mér afar erfitt viðfangsefni. Ég þekkti lítið til íslenskrar ljóðlistar og vissi ekki hvar ég ætti að byrja. Þegar ég sagði ömmu frá þessu var hún fljót að draga fram nokkrar vel lesnar ljóðabækur og benda mér á ýmis falleg ljóð. Við spjölluðum lengi um merkingu ljóðanna og mismunandi ljóðstíl. Eftir heimsóknina fannst mér verkefnið ekki lengur óyfirstíganlegt heldur hlakkaði ég til að takast á við það.

Við frændsystkinin leituðum mikið til ömmu þegar við vorum að alast upp. Okkur var alltaf tekið opnum örmum á Aragötu 6 og þar á bæ leiddist engum. Amma gaf sér ávallt tíma til að sinna okkur og stuðlaði að því með ýmsu móti að við notuðum heilann og sköpunargáfuna. Aragatan var á þeim árum miðstöð ýmissa menningarviðburða. Þar voru meðal annars haldnar málverkasýningar og leiksýningar, þar sem ungir listamenn fengu tækifæri til að spreyta sig. Einnig var lesið, skrifað, leirað, perlað og spilað. Auk allra hestaferðanna sem við fórum í með ömmu upp í Kjós.

Amma var mikil fræðikona. Hún sinnti margvíslegum ritstörfum og skráði meðal annars ævisögur ýmissa merkra manna og kvenna. Þegar við eltumst fékk hún okkur frænkurnar oft til að aðstoða sig við rannsóknir sínar og skrif. Þannig kenndi hún okkur að sýna vandvirkni, nákvæmni og fagleg vinnubrögð. Þessi einstaka reynsla hefur veitt mér ómetanlegt veganesti á námsferli mínum.

Amma bar alla tíð hagi barnabarna sinna fyrir brjósti. Ég leitaði oft til hennar og hún reyndist mér alltaf vel. Fáir hafa haft eins mikil áhrif á mig eða kennt mér jafn mikið og hún. Ég kveð hana með söknuði og sorg en jafnframt þakklæti fyrir að hafa fengið að njóta samvista við hana í aldarfjórðung.

Jóhanna Jónsdóttir.

Þegar ég minnist ömmu minnar, Guðrúnar P. Helgadóttur, kemur fyrst upp í hugann hversu sterkur persónuleiki hún var, en einnig var hún ákveðin og hafði tilteknar reglur á heimili sínu, Aragötu 6. Amma var mjög lífsglöð og börnum góð fyrirmynd. Hún lagði mikla rækt við barnabörnin og gerði mikið fyrir þau, og við fundum alltaf hversu velkomin við vorum á Aragötuna. Amma reyndi að eiga til kók í gleri, eða kvennaskólakók, eins og við kölluðum það, fyrir gesti sem komu í heimsókn og eitthvert góðgæti með. Allt sem amma tók sér fyrir hendur með barnabörnum sínum gerði hún vel og ekkert var til sparað, hvorki tími né fé eða fyrirhöfn.

Þegar rifjaðar eru upp stundirnar með ömmu, minnist ég þeirra sem skemmtilegra og þroskandi samverustunda. Amma gætti þess alltaf að við hefðum nóg fyrir stafni hjá henni við alls kyns þroskandi föndur. Við teiknuðum myndir, leiruðum og æfðum ýmis leikrit undir stjórn ömmu heima á Aragötunni og hún bauð öllum foreldrum eftir leiksýningarnar upp á kaffi. Á sumrin eru mér mjög minnisstæðar ferðirnar sem hún fór með okkur barnabörnin upp í sveitina á hestbak á Kiðafelli. Hún hafði sjálf gaman af þessu þar sem hún var mikill dýra- og náttúruunnandi.

Amma var mjög áhugasöm um skólagöngu barnabarna sinna og er mér mjög minnisstæð kennslan sem amma veitti mér og frænku minni Guðrúnu P. Helgadóttur í íslensku þegar við vorum í gagnfræðaskóla. Eitthvað gátum við stundum verið þreyttar en amma byrjaði alltaf á réttum tíma. Það þýddi ekki að geispa í kennslustundum. Maður gerði það ekki nema einu sinni! Þessi kennsla hennar skilaði góðum árangri og við stóðum okkur vel í prófum síðar í þessu efni.

Ég kveð ömmu mína Guðrúnu með þakklæti í huga fyrir allar þær góðu og lærdómsríku stundir sem ég átti með henni. Maður varð miklu ríkari en áður við að kynnast henni og læra af henni.

Helga Guðrún Ólafsdóttir.

Guðrún frænka mín verður jarðsungin í dag. Viljinn og baráttuþrekið voru aðalsmerki hennar. Þau bar hún hátt fram á síðasta dag. Enginn, sem fylgdist með, gleymir komu hennar suður í Vífilsstaðahlíð fyrsta laugardag í júní til að fylgjast með þegar minningarreitur um foreldra hennar var fullplantaður. Ekki heldur þegar hún birtist í afmæli móður minnar á þjóðhátíðardaginn og lék á als oddi. Hugur og vilji báru hana þá miklu meir en hálfa leið. Þannig var líf hennar í svo mörgu. Hún sótti til æðstu mennta löngu áður en það varð alsiða að konur lykju háskólaprófi, hvað þá doktorsprófi. Hún stóð keik við sviplegt fráfall eiginmanns síns og barðist fyrir afkomu og menntun sona sinna. Hún varði lunganum úr starfsævi sinni við Kvennaskólann í Reykjavík við að auka og styrkja menntun stúlkna og tókst samt að finna smugur til að iðka fræðimennsku og vísindi og skrifa meðal annar ævisögur föður síns og afa. Hún tókst á við erfiða sjúkdóma á efri árum, hristi þá af sér og efldist við þær þrautir frekar en hitt.

Ég naut þess hjá frænku minni að í fjölskyldunni voru eintómir karlar á milli okkar þótt aldursmunurinn væri þrjátíu ár. Hún bauð mér upp í sveit með sér og fjölskyldunni og fór þá gjarna með mig eins og ætti mig sjálf. Þessa hlýju og alúð sýndi hún mér alla ævi og fyrir hana færi ég bestu þakkir.

Frænka mín barðist oft og hafði oftast betur. Aldrei lagði hún sig þó dyggar fram og aldrei uppskar hún ríkulegar en í þroska og gæfu sona sinna. Við Markús og krakkarnir sendum þeim og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Júlía Ingvarsdóttir.

Foreldrar okkar höfðu lengi verið vinir en við Gunna hittumst fyrst þegar við vorum sjö ára gamlar, ég þá nýflutt til Reykjavíkur. Sólin skein og í laut í Vífilstaðahrauninu rétt við heimili Gunnu sórum við þess eið að verða alltaf vinkonur. Með hraunmolum rispuðum við okkur á vinstri þumli þar til blóð vætlaði, nudduðum þeim svo saman. Eiðurinn hélst alla tíð.

Langt var á milli Ásvallagötu og Vífilsstaða á þessum árum svo við sáumst sjaldan þar til við byrjuðum í fyrsta bekk í MR og urðum enn betri vinkonur þó ólíkar værum. Gunna var róleg, vandvirk og stórhuga, en ég var fiðrildi sem tók lífinu létt.

Við bekkjarsysturnar tókum upp á því að heimsækja Gunnu á Vífilsstöðum eins oft og við gátum, ýmist gangandi, hjólandi eða á skíðum. Alltaf vorum við velkomnar og móðir hennar elskuleg gaf sér tíma til að leggja á borð og veita okkur af rausn, þrátt fyrir annir. Og blessuð Gunna fór með okkur á báti út á vatn, í berjamó og sýndi okkur sína uppáhaldsstaði í hrauninu. Helgi læknir kom oft og sagði hlýjum rómi "Elskurnar mínar, þakka ykkur fyrir komuna." Ef eitthvað sérstakt var að gerast hjá bekknum svaf Gunna stundum heima hjá mér. Þar trúðum við hvor annarri fyrir okkar hjartans leyndarmálum. Hennar síðasta var það, að hún væri orðin ástfangin af ungum læknanema sem héti Oddur. Tveim árum síðar hringdi ég til hennar og trúði henni fyrir því að ég væri orðin ástfangin af Ameríkana. Í hvert sinn sem ég kom heim til Íslands heimsótti ég Gunnu. Hún sagði svo skemmtilega frá og var svo hlý. Og ég naut þess að lesa bækurnar hennar, sem hún sendi mér í gegnum árin. Þvílík afrekskona! Við uppsögn MR 2001 sá ég hana háa og virðulega með silfurstafinn sinn leidda uppá sviðið í Háskólabíó. Róleg og skýr ávarpaði hún fjöldann fyrir hönd okkar 60 ára stúdentanna. Ég saknaði hennar nú í vor á 65 ára stúdentsafmælinu.

Elsku Gunna mín, þú áttir gullstaf skilið.

Samúðarkveðjur sendi ég til fjölskyldu hennar.

Hallfríður Guðbrandsdóttir Schneider.

Við hittumst fyrst á tröppunum í Húsmæðraskóla Reykjavíkur haustið 1942. Það var fyrsti heili vetur, sem skólinn starfaði. Við deildum herbergi með fjórum öðrum stúlkum, og er Guðrún sú fyrsta, sem hverfur úr þeim hópi.

Við urðum nánar vinkonur og hélst sú vinátta alla tíð, og var það ekki síst Guðrúnu að þakka. Hún var ákaflega trygg vinum sínum og átti hún ekki langt að sækja það. Foreldrar hennar voru með afbrigðum trygglynd hjón. Faðir minn og faðir Guðrúnar voru skólabræður, bæði í menntaskóla og læknaskólanum.

Guðrún var þrígift. Vorið 1943 giftist hún Oddi Ólafssyni lækni, og áttu þau einn son saman, Ólaf, sem er kennari við Menntaskólann í Reykjavík og mjög dáður af nemendum sínum sem góður kennari. Annar maður Guðrúnar var Jón Jóhannesson prófessor. Hún missti hann eftir aðeins 8 ára sambúð og var það henni mikið áfall. Þau eignuðust tvo syni, Helga og Jón Jóhannes, sem báðir eru læknar í Reykjavík við góðan orðstír. Þriðji maður Guðrúnar var Gunnar Jóhann Stefánsson, mikill ágætismaður.

Guðrún menntaði sig áfram eftir stúdentspróf og gerðist kennari við Kvennaskólann í Reykjavík og síðan skólastjóri við sama skóla. Hún þótti með afbrigðum góður kennari og hafa margir sagt mér, að hún hafi verið einhver besti kennari, sem þeir hafi haft á ævinni. Skólastjórastarfið fórst henni líka vel úr hendi sem hennar var von og vísa, því hún var bæði samviskusöm og dugleg svo af bar og kröfuhörð við sjálfa sig. Árið 1969 varð hún dr. phil. frá Sommerville College. Synirnir voru hér heima á meðan hún dvaldi úti og voru í góðum höndum Svönu, sem var hjá henni í fjöldamörg ár og var ómetanleg hjálparhella við heimilisstörfin og umsjá drengjanna.

Margar bækur, bæði ævisögur og bækur um annan fróðleik, liggja eftir Guðrúnu og gaf hún mér þær allar, mér til mikillar ánægju. Allt það, sem Guðrún kom í verk, væri skrif í heila bók, og læt ég það öðrum eftir. Hún var listræn í sér og átti fallegt heimili og blómakona var hún líka. Margir fagrir gripir, sem hún keypti á ferðum sínum erlendis, prýða heimili hennar. Hún var fjölskyldumanneskja og átti ég margar góðar stundir með fjölskyldu hennar. Hún hélt alltaf upp á afmælið sitt 19. apríl. Seinni árin bauð hún af því tilefni í hádegisverð á Hótel Sögu fjölskyldu og nánustu vinkonum, þrátt fyrir að hún væri þá mikið lasburða, en viljinn og dugnaðurinn voru samir við sig. Ég sá hana seinast á Sóltúni stuttu áður en hún kvaddi þennan heim. Hún var þá orðin mikið veik, en hélt reisn sinni.

Ég kveð þessa góðu vinkonu mína með von um að hennar bíði nýtt og gott líf. Sonum hennar og fjölskyldu allri sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Anna Sigríður Lúðvíksdóttir.

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum.

Á sjónum allar bárur smáar rísa

og flykkjast heim að fögru landi ísa,

að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

Ó, heilsið öllum heima rómi blíðum

um hæð og sund í drottins ást og friði.

Kyssið þið, bárur, bát á fiskimiði.

Blásið þið, vindar, hlýtt á kinnum fríðum.

Vorboðinn ljúfi, fuglinn trúr, sem fer

með fjaðrabliki háa vegaleysu

í sumardal að kveða kvæðin þín,

heilsaðu einkum, ef að fyrir ber

engil með húfu og rauðan skúf, í peysu.

Þröstur minn góður, það er stúlkan mín.

(Jónas Hallgrímsson.)

Vorið 1976 hringdi frú Guðrún P. Helgadóttir í mig og bauð mér vinnu á skrifstofu Kvennaskólans í Reykjavík. Ég fór hikandi í viðtal sem lauk með því að ég var ráðin á skrifstofuna og til að kenna vélritun við skólann. Þetta var síðasti veturinn sem 4. bekkur og landspróf voru starfrækt og því var síðasta Kvennaskólaprófið þreytt vorið 1977. Það kallaði á nýjan starfsvettvang fyrir skólann og stóð Guðrún fyrir því að um haustið var stofnuð uppeldisbraut sem varð grunnurinn að því menntaskólanámi sem nú er starfrækt við skólann. Haustið 1977 innritaði Guðrún fyrsta piltinn í skólann. Á þessum tíma var einungis kennt í elsta húsinu við Fríkirkjuveg en nýbyggingin var í smíðum. Nemendur voru aðeins um tvö hundruð og því notalegt andrúmsloft í skólanum.

Við Guðrún áttum mjög gott samstarf þar til hún lét af störfum vorið 1982 eftir að hafa útskrifað fyrstu stúdentana og síðustu grunnskólanemendurna frá skólanum.

Guðrún bar hag skólans mjög fyrir brjósti alla tíð og spurði alltaf tíðinda úr skólanum þegar við hittumst.

Í apríl ár hvert er haldinn svokallaður Peysufatadagur í Kvennaskólanum. Þá klæðast nemendur í 3. bekk þjóðbúningum og fara um bæinn og syngja íslensk lög og dansa þjóðdansa. Eftir að Guðrún hætti störfum við skólann skapaðist sú hefð að fara í heimsókn til hennar þennan dag. Aldrei tók hún annað í mál en að allur hópurinn kæmi í hús og bauð hún upp á konfekt og gosdrykk sem var vel þegið. Í staðinn sungu þau og dönsuðu fyrir hana og hún ávarpaði þau nokkrum orðum. Þessar heimsóknir glöddu Guðrúnu mjög mikið og ekki síður nemendurna sem komu frá henni með ánægjubros á vör. Voru þau alveg undrandi á dugnaði hennar við að bjóða þeim öllum inn til sín. Mörg hafa nefnt við mig síðar hversu þessar heimsóknir hafi verið ánægjulegar. Síðasta skiptið sem þau heimsóttu Guðrúnu var í apríl í vor þegar þau komu til hennar á Landakot. Þá sungu þau að vanda nokkur lög en ljóð Jónasar Hallgrímssonar "Ég bið að heilsa" var í sérstöku uppáhaldi hjá Guðrúnu alla tíð og alltaf sungið á Peysufatadaginn. Þetta ljóð hef ég alltaf tengt við Guðrúnu og mun gera áfram. Í vor söng einn af piltum skólans einsöng í laginu og var það vel viðeigandi þar sem Guðrún opnaði skólann fyrir piltum tæpum 30 árum fyrr. Engan pilt úr Kvennaskólanum hef ég hitt sem ekki er stoltur af því að hafa verið eða vera þar nemandi.

Við Guðrún áttum notalega stund saman á Landakoti þegar nemendur höfðu kvatt. Við rifjuðum m.a. upp sögu Peysufatadagsins og hún spurði frétta af "sínu" fólki í skólanum.

Ég kveð Guðrúnu með virðingu og þökk fyrir áratuga vináttu. Ég er stolt af að hafa fengið að starfa við hlið hennar þessi ár.

Sonum hennar og öðrum aðstandendum votta ég samúð mína.

Vilhelmína Þ. Salbergsdóttir.

Hvað er langlífi?

Lífsnautnin frjóva,

alefling andans

og athöfn þörf.

Í þessu ljóði veltir skáldið Jónas Hallgrímsson fyrir sér tilgangi lífsins við fráfall ungs vinar. Dr. Guðrún P. Helgadóttir sem hér er minnst átti Jónas að andans vini. Í kveðjuræðu sinni við skólaslit Kvennaskólans í Reykjavík vorið 1982 lagði hún út af ljóðinu. Tók hún undir boðskap þess og við sem þekktum frú Guðrúnu vitum að líf hennar einkenndist af öllu því sem þar stendur. Ævistarf hennar var kennsla og skólastjórnun, hún var afkastamikill fræðimaður og naut lífsins þrátt ýmis sár áföll.

Frú Guðrún starfaði við Kvennaskólann í 27 ár, þar af skólastjóri í 23 ár.

Einn mikilvægasti kostur góðs stjórnanda er skýr framtíðarsýn. Hann þarf að geta greint samtímann og séð fyrir samfélagsþróun og nauðsynlegar breytingar.

Kvennaskólinn í Reykjavík býr að því enn í dag að frú Guðrún var slíkur stjórnandi. Hún setti skólanum háleit markmið í skólastjóratíð sinni, fylgdi þeim fast eftir og kom þeim í framkvæmd. Kvennaskólinn var grunnskóli fyrir 13 til 16 ára stúlkur þegar frú Guðrún tók við skólastjórastarfinu árið 1959 en við starfslok hennar vorið 1982 var skólinn orðinn framhaldsskóli fyrir bæði kynin og útskrifaði frú Guðrún fyrsta stúdentahóp skólans. Þetta var ekki átakalaus umbreyting á skólanum og það andstreymi sem mætti frú Guðrúnu á tímabili fékk mjög á hana. Hún var hins vegar þeirrar gerðar að um uppgjöf var ekki að ræða.

Í daglegu starfi í skólanum þótti frú Guðrún ströng og hélt aga án þessa að virðast hafa nokkuð fyrir því. Allir vissu af henni í húsi og hún kom inn í kennslustundir fyrst á morgnana til að athuga mætingu nemenda og fylgjast þannig með. Hún kom stundum á kennarastofuna þegar hringt var inn, renndi fingri yfir stundatöfluna og leit síðan yfir kennarahópinn. Undir því sat enginn kyrr sem átti að kenna þann tíma. Frú Guðrún fylgdist vel með námsgengi og framförum nemenda, hún fór yfir einkunnir þeirra með umsjónarkennaranum eftir hverja prófalotu, ræddi árangurinn, vanda einstakra nemenda og leiðir til úrbóta og hvatningar. Umhyggja hennar og hlýhugur í garð nemenda og starfsfólks var augljós.

Kennslugrein frú Guðrúnar var íslenska og þótti hún afburða kennari. Hún lagði alltaf mikla áherslu á góða íslenskukennslu við Kvennaskólann. Þegar tekin var upp við skólann kennsla í stórri heimildaritgerð, svokallaðri stúdentsritgerð, var stofnaður verðlaunasjóður frú Guðrúnar P. Helgadóttur til þess að verðlauna árlega bestu ritgerðina með "Stúdentspennanum". Þykja þetta mjög eftirsóknarverð verðlaun og eru þau hvatning til góðra ritsmíða. Stofnfé þessa verðlaunasjóðs er hagnaður af útgáfu afmælisrits með úrvali ritverka frú Guðrúnar sem gamlir nemendur hennar gáfu út henni til heiðurs sjötugri.

Frú Guðrún bar hag Kvennaskólans í Reykjavík alla tíð mjög fyrir brjósti. Ef einhver umfjöllun var um skólann á opinberum vettvangi hringdi hún, spurðist fyrir og tjáði skoðun sína. Ræktarsemi hennar var einstök. Hún sendi okkur í skólanum jólarós á aðventunni um árabil og tók alltaf á móti nemendum á peysufatadaginn, bauð þeim inn til sín í veitingar og hélt ræðu. Veit ég að nemendum þóttu þessar heimsóknir hápunktur dagsins.

Í ávarpi til nýstúdenta vorið 1982 sagði frú Guðrún: "Það er mikil gæfa að geta litið yfir farinn veg og sagt: "Starf mitt hefur gefið lífi mínu eðlilegan tilgang, verið mér mikilvægt og veitt mér ánægju." Þetta heilræði get ég gefið frá eigin brjósti." Kvennaskólinn í Reykjavík kveður dr. Guðrúnu P. Helgadóttur, fyrrverandi skólastjóra, með virðingu og þökk.

Ingibjörg S. Guðmundsdóttir.

Í húsinu númer 9 við Fríkirkjuveg, Kvennaskólanum í Reykjavík, liggur á óhultum stað pappírsörk. Örkin er gjöf frú Guðrúnar P. Helgadóttur til skólans. Á hana er rituð, fínlegri hendi, svipmynd frá 19. öld í formi sendibréfs frá Þóru Gunnarsdóttur í Laufási, þeirrar er Jónas kvað Ferðalok.

Við sem fengum það hlutverk um og upp úr miðri síðustu öld að kenna íslensku gengum að gildum sem heita máttu meitluð í stein, Lestrarbók Sigurðar Nordal og málfræði Björns Guðfinnssonar. Okkur, sem lásum þessar bækur með nemendum okkar vetur eftir vetur, runnu þær smátt og smátt í merg og bein og tíminn eins og stóð í stað um sinn.

Á þessum árum naut ég leiðsagnar frú Guðrúnar með mörgum öðrum, nemendum jafnt sem kennurum, og engu okkar gat dulist yndi hennar af kveðskap Jónasar Hallgrímssonar, virðing og allt að því lotning fyrir orðsmíð hans og málrækt.

Og nú eru "Ferðalok" þessarar konu sem fáa átti sinn líka í sinni samtíð. Stórlynd eins og formæður hennar allt aftur til Íslendingasagna, örlát, tilfinningarík, vinur vina sinna en vinur vina óvina sinna "skyli engi maður".

Þegar Kvennaskólinn varð eitt hundrað ára, árið 1974, var frú Guðrún fjórða forstöðukona skólans frá upphafi. Hún var skólastjóri í hefð hans, myndug, kröfuhörð, ímynd aga og reglusemi.

Fyrst við löng kynni varð það ljóst að hörðustum aga beitti hún sjálfa sig. Tilfinningar voru ekki til þess að bera á torg. Það sem ýmsir héldu ef til vill að væri runnið í stein 100 ára sögu gekk í endurnýjun lífdaganna. Á fáum árum varð til nýr skóli karla og kvenna með miklu víðari skírskotun en áður var. Ákaflega er ólíklegt að það hefði gerst án frú Guðrúnar sem stóð eins og klettur sem að var sótt úr ýmsum áttum. Auðvelt var henni það ekki en með vissum hætti losnaði hún úr álögum. Henni varð það gleði og ánægja að liðsinna lítilmagnanum í ríkri hefð föðurhúsanna.

"Allt er ábati af fórn" sagði hr. Sigurbjörn Einarsson á einum stað. Engum gat dulist að frú Guðrún gekk nærri sér, heilsu sinni og áreiðanlega oft sínum nánustu. Á móti kom að þeim gaf hún sig heils hugar og óskipt þess á milli.

Þótt kennsluferill okkar frú Guðrúnar lægi saman í nærfellt 20 ár urðu samstarfið og kynnin þó nánust þegar við könnuðum saman sögu Kvennaskólans til þess að gefa út á bók á eitt hundrað ára afmælinu. Það var eftirminnileg fjársjóðaleit um háaloft, skúffur og skápa sem margt hvað hafði ekki verið opnað í áratugi. Ritunin sjálf var skóli nákvæmni og ögunar vísindalegra vinnubragða, sem ég varð að vísu aldrei nema lærlingur í, en voru einkunn og aðal doktor Guðrúnar, hverja nafnbót hún bar með sóma.

Kímnigáfa frú Guðrúnar var djúp og næstum því að segja öguð, óaðskiljanleg persónuleika hennar. Aldrei vissi ég hana segja ómerkilega brandara. Þannig var líka hlýjan á bak við það sem hún skrifaði. Án hlýju og væntumþykju gat hún ekki skrifað. Hún tók út þjáningar á meðan hún var að komast inn úr skel frú Þóru Melsteð. Þótta konunnar sem aldrei sneri sér við á götu í Reykjavík. Þar fyrir innan var hins vegar kona sem frú Guðrún fann og skrifaði sig í sátt við.

Við ritun þessara lína hvarflar hugurinn óhjákvæmilega niður að Tjörn. Þar átti ég mitt ævistarf, sagði frú Guðrún margsinnis og þar eru blöð nöfnunnar Gunnarsdóttur. Nokkur augnablik fannst mér eins og þau væru það eina úr eigu frú Guðrúnar sem þar er að finna. Óðara áttaði ég mig á því að skólinn allur er arfleifð hennar og gjöf.

Einni opnu framar en "Ferðalok" í kennslubókinni er "Ég bið að heilsa". Þess biðjum við hjónin að ferðalokum.

Aðalsteinn Eiríksson og Guðrún Larsen.

Kveðja frá Alfadeild Delta Kappa Gamma á Íslandi

Ein af mikilhæfustu konum sinnar samtíðar, dr. Guðrún P. Helgadóttir, fyrrverandi skólastjóri Kvennaskólans í Reykjavík, er látin 84 ára að aldri.

Guðrún helgaði líf sitt skóla- og menntamálum og var ávallt í fremstu röð. Er Alfadeild Delta Kappa Gamma var stofnuð á Íslandi 1975 var hún þar einna kunnust 20 stofnenda og reyndist mikill styrkur og stoð og vann þar að gæfusamri framvindu Alfadeildar fyrstu áratugina, enda fyrsta konan sem var heiðruð í Landssambandinu sem geymir nú margar deildir.

Öll árin hefur hún fylgst af áhuga með störfum Alfadeildar og gefið óbrigðul góð ráð til hinsta dags.

Henni er fært djúpstætt þakklæti fyrir og samúðarkveðjum Alfadeildar til aðstandenda fylgir einlæg virðing fyrir dýrmætri athafnakonu og virtum rithöfundi.

Fögrum svönum á blælygnum vogi hefur fjölgað.

f.h. Alfadeildar D.K.G. á Íslandi,

Jenna Jensdóttir.

Guðrún P. Helgadóttir var kennari minn í íslensku í Kvennaskólanum í Reykjavík og ég kenndi síðar undir stjórn hennar. Voru hvor tveggja kynnin með einstökum ágætum.

Guðrún var afburðakennari. Ljóð eins og Gunnarshólmi eftir Jónas Hallgrímsson og Jón hrak eftir Stephan G., sem áður voru þulin í belg og biðu, fengu djúpa merkingu í umfjöllun hennar. Málfræðin var henni tæki í þágu bókmenntanna og jók skilning á blæbrigðum málsins.

Síðar vann Guðrún að því að gera Kvennaskólann að menntaskóla. Róttæku fólki þótt það afleitt og gerði innrás í skólann veturinn 1969-1970. Lá málið kyrrt um stund en áttundi áratugurinn var tími mikilla breytinga. Gagnfræðapróf og Kvennaskólapróf hurfu með grunnskólalögum 1974. Elstu gagnfræðaskólar landsins, brautryðjendur menntunar á ofanverðri 19. öld, Kvennaskólinn og Flensborgarskóli, hlutu þá nýtt hlutverk. Kvennaskólinn varð að framhaldsskóla árið 1979. Guðrún hafði verið framsýn um þá þróun.

Lærdómsríkt var að fylgjast með skólastjórn Guðrúnar. Hún gekk um bekki á hverjum morgni og fylgdist með stundvísi nemenda. Oft var sagt frá vekjaraklukkum sem hringdu ekki og bílum sem fóru ekki í gang. Allar voru afsakanirnar teknar gildar, en yfirheyrslan kenndi nemendum að gæta sín. Guðrún beitti sjálfa sig mestum aga. Án þess hefði hún ekki orðið sá fræðimaður sem hún var. Hún lauk doktorsprófi eftir að hún varð skólastjóri, gaf út fræðilega unnar ævisögur, orti ljóð og reit sögu skólans. Fólk telur oft "tíðarandann" hafa verið mesta hindrun konum af eldri kynslóð að stunda nám og fræðimennsku. Mest vógu þó efnalegar aðstæður: námslán og rannsóknastyrkir af skornum skammti og heimilisstörf umfangsmeiri en síðar varð. Guðrúnu tókst að sinna sínu með því að laða aðra til verka með sér. Ber þá ekki síst að þakka sonum hennar og ráðskonunni Svönu.

Öllum er skammtaður tími og viðburðaríku lífi Guðrúnar er lokið. Ég vil þakka henni fyrir einstaka handleiðslu í námi og starfi, og votta aðstandendum einlæga samúð.

Kristín Bjarnadóttir.

Látin er mæt heiðurskona, Guðrún P. Helgadóttir, sem tekið var eftir hvar sem hún fór. Ég minnist þess að hún vakti sérstaka athygli mína á fundi með skólastjórum fyrir rúmlega 30 árum, en þá sáust varla konur á slíkum fundum. Ég veitti því athygli hve fagurt og gott mál þessi glæsilega kona talaði og hversu hnitmiðuð orð hennar voru. Nokkru seinna hófust nánari kynni mín af Guðrúnu, en það var í félagsskapnum Delta Kappa Gamma International, Félagi kvenna í fræðslustörfum. Við vorum saman í Alfa-deild, en það var fyrsta deildin sem stofnuð var hér á landi. Til að byrja með voru fundir oftast haldnir í heimahúsum og áhersla lögð á að fræðast um starfsvettvang hverrar konu og tilgang samtakanna. Ég minnist alveg sérstaklega þegar Guðrún P. sagði okkur frá íslenskukennslunni og frá Kvennaskólanum í Reykjavík, þar sem hún var skólastjóri. Á það var unun að hlýða og hún heillaði mann. Þegar hún hætti skólastjórastörfum 1982 tók hún síðan við formennsku í Alfa-deildinni. Á þessum árum voru margvísleg skólamál tekin til umfjöllunar, frumvörp krufin til mergjar og skýrslur og álitsgerðir sendar til fræðsluyfirvalda. Þetta stuðlaði vissulega að samheldni í deildinni og jók á víðsýni okkar kvennanna. Við fengum líka góða utanaðkomandi fyrirlesara og svo voru líflegar umræður á eftir. Ég gleymi ekki hvað mér fannst Guðrún alltaf hafa eitthvað sérlega skynsamlegt til málanna að leggja. Hún var sannkölluð skólamanneskja.

Guðrún hafði blik í auga og hafði til að bera kímni og glaðværð. Það var gaman að vera með henni á góðri stundu, því að hún hafði gamansemina og léttleikann alltaf á reiðum höndum, en samt hélt hún ávallt sínum einstaka virðuleika og tiginmennsku. Hún sagði einhvern tíma að það stórkostlega við það að eldast væri að maður missti ekkert önnur aldurskeið sem maður hefði átt. Hún Guðrún hefði heldur ekki getað afkastað öllu sem hún gerði ef hún hefði ekki verið jákvæð. Hún hefur sýnilega búið að góðu atlæti úr föðurhúsum og þess sjást merki í ljóðabók hennar, Hratt flýgur stund - Mínir nánustu. Þar segir í broti úr ljóðinu Aprílbarn:

Augasteini

föður míns

hlýtur að

vera hlíft,

góðvild hans

voru engin

takmörk sett.

Í raun var Guðrún afrekskona. Hún missti mann sinn, Jón Jóhannes Jónsson prófessor, 1957 frá tveimur ungum sonum, 13 og 4 ára, og þriðja rétt ófæddum. Þá var hún kennari við Kvennaskólann en gerðist svo skólastjóri þar 1959. Hún lét ekki deigan síga og að hugsa sér, á þeim tíma dreif hún sig til frekara náms í Oxford og lauk doktorsprófi þaðan 1968. Guðrún var alltaf að skrifa og eftir hana liggja margvíslegar greinar og bækur um konur og fjöldi fræðirita, auk ljóðabókar. Hún kom víða við og gegndi mörgum trúnaðarstörfum í þjóðfélaginu, m.a. fyrir konur. Hún var formaður Bandalags kvenna í Reykjavík um skeið og í dómnefnd um ritgerðir í tilefni kvennaársins 1975. Ég var svo heppin að njóta vináttu Guðrúnar P. Helgadóttur og hún gaf mér mörg góð ráð og veitti mér stuðning, sem ég mun ætíð meta og vera henni þakklát fyrir. Megi þessi heiðurskona hvíla í friði. Sonum og fjölskyldum þeirra og öðrum ættingjum sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Áslaug Brynjólfsdóttir

Mig langar til að minnast Guðrúnar Pálínu Helgadóttur. Ég og Guðrún Pálína sonardóttir hennar ólumst upp saman í vesturbænum. Ég átti í gott skjól að vernda hjá Guðrúnu og einnig syni hennar Ólafi á uppvaxtarárunum. Það var einstaklega gaman að koma til Guðrúnar eða ömmu á Aragötu eins og hún var oft kölluð. Ég minnist þess að sitja í eldhúsinu og fá kók í gleri með lakkrísröri og annað gotterí. Hún tók okkur ávallt opnum örmum og lagði fyrir okkur ýmis verkefni. Verkefnin voru af ýmsum stærðargráðum, en eftirminnilegastar voru leiksýningar sem hún setti upp með okkur krökkunum úr hverfinu. Hún las með okkur línurnar og við æfðum leikritin aftur og aftur, buðum svo foreldrum okkar á leiksýningarnar, Öskubusku og Hans og Grétu. Í lokin voru bornar fram veitingar. Mér er einnig minnisstætt þegar hún bauð okkur vinkonunum að koma og horfa á Óskarsverðlaunaafhendinguna hjá sér, þá var hún búin að undirbúa komu okkar eins og best varð á kosið, henni var greinilega umhugað um að það færi vel um okkur stöllurnar þessa nótt.

Menntun Guðrúnar hafði mikil áhrif á þau verkefni sem hún lagði fyrir okkur. Þrátt fyrir að við krakkarnir litum á þessi verkefni sem skemmtun, þá sé ég það núna að það liggja djúpar hugsanir að baki hverju verkefni.

Ég er þakklát fyrir kynni mín af þessari merkilegu konu, Guðrúnu Pálínu.

Blessuð sé minning hennar.

María Lapas.

Sumir eru samferðamenn alla ævi, öðrum gengur maður með stutta leið á þessari vegferð sem kölluð er lífið. Við fengum að ganga með Guðrúnu í nokkur ár. Á þeim tíma fengum við að kynnast verkum hennar, lífi og trú á þetta góða - sem hún var svo sannfærð um að væri í öllum. Við fengum að njóta samveru og góðra stunda, fróðleiks og hláturrokna. Samræðna um fréttir líðandi stundar, framtíðina og fortíðina.Við kynntumst konu sem var fyrirmynd annarra og okkar.

Við vorum að hefja nýjan kafla í okkar lífum þegar við komum til Guðrúnar á Aragötuna. Stúdínur úr Kvennaskólanum og í háskólanámi. Hún var óspör á reynslusögur og sagði okkur ósjaldan frá sínum skóladögum, sem nemandi í Oxford og sem kennari og skólameistari í Kvennó. Fáa dyggari stuðningsmenn áttum við í náminu en Guðrúnu. Hún fylgdist vel með og hvatti okkur áfram. Þegar við vorum í prófum vildi Guðrún að við nýttum tímann í að lesa, hún myndi bara gera sér hafragraut í kvöldmat. Auðvitað fórum við alltaf til hennar. Staðreyndin var sú að oft var það okkur endurnýjandi pása að koma upp til hennar. Fá koss á báðar kinnar og hvetjandi augnaráð - vertu nú dugleg stelpa! Guðrún nálgaðist allt í lífi sínu af sömu einstöku virðingu og hún sýndi sjálfri sér. Hún gerði ávallt sitt besta og dró aldrei af. Vandaðri konur voru vandfundnar og afstaða hennar okkur góður skóli. Það fá ekki allar konur á okkar aldri að kynnast þeim konum sem rutt hafa veginn fyrir þær. Við vorum þó svo lánsamar. Guðrún var okkur innblástur og hvatning - og yndislega góð. Þessi ár á Aragötunni hafa verið einstök, enda er þar svo gott að vera. Nú er þar tómlegt enda hjarta hússins farið.

Nú er elsku vina okkar dáin. Okkur er efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að vera samferða Guðrúnu í nokkur ár. Sonum hennar, Óla, Helga og Nonna, og þeirra fjölskyldum vottum við okkar allra dýpstu samúð.

Minning Guðrúnar lifir áfram í verkum hennar og þeim sporum sem hún hefur markað í líf samferðarmanna sinna allra.

Takk fyrir okkur elsku Guðrún, þínar kjallarastúlkur,

María, Barbara Inga og Diljá.

Með dr. Guðrúnu P. Helgadóttur skólastjóra er merk kona gengin sem margir munu minnast með þakklæti. Sjálfur er ég þakklátur fyrir að hafa kynnst henni vel og finnst ég hljóta að minnast hennar með nokkrum orðum og tjá þannig þakklæti mitt fyrir góð kynni og vinsemd í minn garð.

Ég kynntist Guðrúnu fyrst í ársbyrjun 1965 er foreldrar mínir fluttust til Reykjavíkur frá Selfossi. Þau vistaskipti voru mér á móti skapi en móðir mín sagði mér að hún ætti góða vinkonu í Reykjavík og sonur hennar væri jafnaldri minn og fyrir honum yrði ég kynntur. Svo fór að við Helgi, sonur Guðrúnar, urðum bekkjarbræður í Melaskóla og fylgdumst svo að í gegnum Hagaskóla og MR þó að ekki værum við í sömu bekkjardeild.

Allan þennan tíma var ég meira og minna heimagangur á Aragötu 6 en þar bjó Guðrún ásamt sonum sínum þremur, þeim Ólafi, Helga og Jóni Jóhannesi. Hún var orðin ekkja löngu áður en ég kynntist henni en kona að nafni Svana bjó hjá henni og annaðist um heimilið að verulegu leyti enda gegndi Guðrúnu þýðingarmiklum og annasömu störfum, lengst af sem skólastjóri Kvennaskólans.

Á unglingsárum okkar Helga var Aragata 6 oft eins og félagsheimili. Þar vorum við vinir Helga gjarnan heilu helgarnar og héldum reglulega það sem við kölluðum "heimsmeistarakeppnina í íshokkí". Ekki var þó íshokkívöllur á Aragötunni heldur átti Helgi þvílíkt íshokkíspil að þar spiluðum við og kepptum daginn út og inn og var oft hart barist, bæði í 1. og 2. deild!

Alltaf var okkur strákunum tekið af miklum hlýhug og aldrei kom það fyrir að Guðrún léti á sér skilja að þetta væri einhver átroðningur á heimilinu. Þvert á móti máttum við alltaf vænta þess að bankað væri þegar á keppnina var liðið og spurt hvort ekki mætti bjóða okkur súkkulaðitertu. Var það jafnan þegið með þökkum og er brúntertan órjúfanlega tengd íshokkíkeppninni í minningunni.

Síðar vorum við Helgi samtímis við framhaldsnám í Lundi í Svíþjóð um árabil og þangað kom Guðrún að sjálfsögðu í heimsókn.

Eftir að heim var komið á nýjaleik átti ég loks eftir að kynnast Guðrúnu nýjan hátt með því að ég las nokkrar bóka hennar af áhuga og skrifaði ritdóma um þrjár þeirra í eitt af dagblöðunum. Þar ber fyrsta að telja ævisögu Guðrúnar um föður sinn, Helga lækni Ingvarsson á Vífilsstöðum (1989). En hans verður minnst um ókomin ár fyrir það að trúlega átti enginn maður stærri þátt í að sigur vannst á hvíta dauða hér á landi. Þessi bók Guðrúnar er í senn persónuleg en jafnframt þýðingarmikil og sérlega læsileg heimild um merkan þátt í sögu íslenskrar læknisfræði.

Svo fór að lestur þessarar bókar átti að hafa talsverð áhrif á mig og nokkra félaga mína, þ. á m. Helga vin minn og son Guðrúnar. Þegar ég las kaflann um árlegar Strandarkirkjugöngur Helga berklalæknis að Strandarkirkju í Selvogi um þrjátíu ára skeið fæddist sú hugmynd að við félagarnir myndum endurvekja þennan sið og það höfum við gert og gengið Strandarkirkjugöngur árlega frá 1990. En Helgi Ingvarsson hafði gengið þessar göngur í þeirri trú að þær yrðu honum og fjölskyldu hans til heilla enda Helgi trúmaður mikill.

Bók Guðrúnar um afa sinn, Lárus Pálsson (1842-1919) hómópata (1994), er sömuleiðis mikilvægt framlag til sögu lækninga á Íslandi og veitir jafnframt margvíslega innsýn í líf alþýðu manna á síðari hluta 19. aldar og talsvert fram yfir aldamót.

Loks skal hér nefnt hið gagnmerka ritverk Guðrúnar um Skáldkonur fyrri alda sem upphaflega kom út á árunum 1961 og 1963 en var síðar endurútgefið 1995. Þetta rit er tvímælalaust brautryðjendaverk í rannsóknum á hlutdeild íslenskra kvenna í sköpunarsögu íslenskra bókmennta. Þar kemur fram að framlag kvenna til fornbókmenntanna hafi einkum verið í því fólgið að varðveita sögur og ljóð, færa þau í hendur sagnariturum og flytja þannig hinn dýra arf milli kynslóðanna. Skáldskapur íslenskra kvenna var löngum tómstundaiðja þar sem lausavísan var fastur fylginautur.

Af þessu merka riti Guðrúnar verður ljóst hversu ríkan þátt konur hafa átt í varðveislu móðurmálsins og sjálf er Guðrún svo sannarlega gott dæmi um það.

Að leiðarlokum vil ég þakka Guðrúnu P. Helgadóttur löng og góð kynni og bið Guð að blessa minningu hennar og hugga ástvini hennar.

Gunnlaugur A. Jónsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.