22. september 2006 | Innlendar fréttir | 2741 orð | 6 myndir

Strangleynileg öryggisþjónustudeild stofnuð um miðja öldina

— Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslensk öryggislögregla eða leyniþjónusta var starfrækt hér á landi um áratugaskeið á tímum kalda stríðsins, að því er fram kemur í grein Þórs Whitehead í tímaritinu Þjóðmálum .
Vísir að íslenskri leyniþjónustu eða öryggislögregludeild var starfrækt hér á landi frá því skömmu fyrir seinni heimsstyrjöldina og voru það áhyggjur ráðamanna af uppgangi nasista og kommúnista sem réðu mestu um stofnun hennar og reynsla þeirra af framgöngu kommúnista á fjórða áratugnum, meðal annars Gúttóslagnum svonefnda þegar 19 af 28 lögreglumönnum lágu sárir og blæðandi og óvígir eftir átök við æstan múg, vopnaðan bareflum.

Þetta kemur meðal annars fram í grein eftir Þór Whitehead, prófessor, í nýju tölublaði af Þjóðmálum, undir heitinu Smáríki og heimsbyltingin, þar sem sagt er frá viðbrögðum íslenska ríkisins við hættunni sem lýðræðisskipulaginu stóð af byltingarstarfsemi og ofbeldisverkum á tímum kreppu, heimsstyrjaldar og kalda stríðsins.

"Eftirgrennslanakerfi"

Þór segir að öfugt við það sem margir halda séu liðin tæp sjötíu ár "frá því að Hermann Jónasson forsætis- og dómsmálaráðherra fól lögreglustjóranum í Reykjavík að koma upp "eftirgrennslanakerfi" í aðdraganda styrjaldar 1939. Þetta var einn liður í áætlun Hermanns um að efla lögregluna til mótvægis gegn kommúnistum og nasistum, sem hér gengju erinda flokksríkjanna þýsku og sovésku og ógnuðu innra öryggi landsins."

Hann bendir á að á Íslandi hafi ríkið hvorki búið yfir styrk til að verja öryggi sitt inn á við né út á við. Þetta hafi verið varanlegur vandi sem stjórnvöld glímdu við í nokkra áratugi á sama tíma og öryggið út á við hafi verið tryggt í samstarfi við önnur vestræn ríki. Til dæmis hafi 25-30 Íslendingar verið við nám í Moskvu á fjórða tug aldarinnar í hinum leynilega Lenínskóla, þar sem þeir hafi meðal annars fengið tilsögn í vopnaburði, launráðum og hernaðarlist.

Agnar Kofoed-Hansen sem var nýskipaður lögreglustjóri á þessum tíma hófst handa um að efla lögregluna með því að fjölga í henni og kaupa ný og öflugri vopn fyrir hana. "Einn liður í eflingu lögreglunnar var stofnun "eftirgrennslanadeildar". Í kynnisferð til Danmerkur stakk yfirlögreglustjóri Dana upp á því við Agnar, að stofnuð yrði íslensk öryggislögregludeild í samvinnu við hina dönsku. Þetta komst ekki í verk fyrr en að stríði loknu, en Agnar beitti útlendingaeftirliti lögreglunnar sem eftirgrennslanadeild og réð sér leynierindreka fyrir fé úr sérstökum sjóði, sem dómsmálaráðuneytið fékk honum."

Þór segir síðan frá því að tæpum tíu árum síðar hafi lögreglunni í Reykjavík bæst maður "sem átti eftir að gegna lykilhlutverki í íslenskum öryggismálum í tæpa fjóra áratugi. Hann hét Árni Sigurjónsson, var 23 ára gamall prestssonur frá Vestmannaeyjum, sem numið hafði verkfræði í eitt ár í Kanada, en stundað sjómennsku á sumrin. Eftir því sem best er vitað var Árni fyrsti maður, sem ráðinn var til lögreglunnar beinlínis til að sinna öryggismálum og gagnnjósnum. Árni var skráður starfsmaður hjá útlendingaeftirlitinu, sem sinnt hafði öryggismálum öðrum þræði a.m.k. frá 1939, en í raun hafði hann frjálsar hendur og eftirlitið var að hluta til yfirvarp ("cover") fyrir leynistörf hans næstu áratugina. Bjarni Benediktsson dómsmálaráðherra, sem var að láta kanna kosti þess að koma hér upp öryggisdeild hjá lögreglunni, eins og Hermann Jónasson hafði ráðgert, stóð á bak ráðningu Árna. Gerðist hann fljótt mjög handgenginn ráðherranum og yfirmanni sínum, lögreglustjóranum nýja, Sigurjóni Sigurðssyni, sem Bjarni hafði einnig ráðið til starfa."

Með ramma bassarödd

Í greininni er Árna lýst með svofelldum hætti: "Árni Sigurjónsson (1925-2000) var hár maður vexti og allmikill á velli, álútur nokkuð og þungbúinn, fámáll, með ramma bassarödd, bar lengi lituð gleraugu, og reykti sterkar sígarettur. Samstarfsmenn segja að Árni hafi helgað sig starfi sínu af gríðarlegum áhuga, hugrekki og einbeitni. Hann hafi ekki látið sig muna um að vaka svo sólarhringum skipti og krafturinn virst óþrjótandi. Árni hafi einnig verið með afbrigðum þagmælskur og lagt ofuráherslu á að öryggisstörfin færu fram með ströngustu leynd, enda var það fyrsta boðorð í þjálfun hans í Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku og Þýskalandi. Árni hafi hæglega verkað fráhrindandi og leyndardómsfullur gagnvart ókunnugum, en í raun hafi hann verið afar hjartahlýr maður, trölltryggur með ágætt skopskyn, og leikhæfileika. Leikfélag Kópavogs rak hann um skeið. Trúnaðarupplýsingar frá Árna hafi aðeins farið í hendur tveggja manna um áratugaskeið: Sigurjóns Sigurðssonar, sem var jafnhneigður til leyndar og Árni, og Baldurs Möllers ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneytinu. Í áratugi sóttu þeir vinirnir Sigurjón og Árni fundi öryggisstjóra Atlantshafsbandalagsríkja, þar sem ráðgast var um sameiginleg málefni og skipst á upplýsingum. Árni varð varðstjóri í lögreglunni 1962, fulltrúi lögreglustjóra í öryggismálum 1969 og 1970 varð hann yfirmaður útlendingaeftirlitsins og sinnti því starfi jafnhliða öryggismálunum. Með ólíkindum er að í landi, þar sem allt fréttist, skyldi þeim Sigurjóni og Árna takast að halda þvílíkri leynd yfir öryggisstarfi lögreglunnar um áratugaskeið, að landsmenn töldu almennt fráleitt að hún sinnti slíku starfi."

Þór segir síðan frá því að Bjarni Benediktsson hafi talið brýnt að efla það öryggisstarf sem Árni "hafði tekið að sér í skjóli útlendingaeftirlitsins með því að setja upp strangleynilega öryggisþjónustudeild hjá lögreglustjóraembættinu í nánum tengslum við dómsmálaráðuneytið. Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri valdi Pétur Kristinsson, sem var 46 ára gamall, til þessa starfs úr hópi lögregluþjóna. Sigurjón leit á hann sem mann, er gæti leyst úr öllum óvæntum vanda "með skapstillingu og dómgreind", en auk þess var hann með afbrigðum þagmælskur, jafnvel lokaður að sumra sögn. Pétri var fengin skrifstofa á 2. hæð í gömlu Lögreglustöðinni í Pósthússtræti, þar sem lögreglustjóri og yfirlögregluþjónn sátu fyrir. Sú skrifstofa fylltist brátt af skjalaskápum, eins og síðar verður skýrt, en einnig var þar komið upp tengingu við Símstöðina við Austurvöll til að hægt væri að hlera síma, með því að samstarfsmenn lögreglunnar hjá símanum tengdu þræði sína við bæjarsímkerfið, en til þess þurfti lögum samkvæmt heimild dómara. Pétur var með lausráðna erindreka og hjálparmenn á sínum vegum, en verkaskipting á milli hans og Árna Sigurjónssonar virðist annars hafa þróast á þann veg, að Pétur annaðist einkum gagnasöfnun og spjaldskrár ("kartotek"), en Árni aðgerðir og eftirlit. Vitað er um a.m.k. þrjá hjálparmenn, sem vöktuðu sovéska sendiráðið í Túngötu um þetta leyti."

Húsgagnasmiður að iðn

Pétri er einnig svo lýst í greininni: "Pétur Kristinsson (f. 1904) var húsgagnasmiður að iðn, rak um skeið húsgagnasmíðaverkstæði í Reykjavík. Á fyrri árum tók hann mikinn þátt í starfi KFUM, og var m.a. foringi drengjasveita undir stjórn sr. Friðriks Friðrikssonar. Þá varð hann einn af þekktustu knattspyrnumönnum bæjarins, bakvörður í Valsliðinu, sem tengdist KFUM, sat í stjórn Vals og var formaður félagsins. Á kreppuárunum, 1937, gekk Pétur í lögregluna og sinnti þar brátt ýmsum sérverkefnum. Vinur hans, Sigurjón lögreglustjóri, sagði í minningargrein, að Pétur hefði verið "fyrirmannlegur á velli, þrekmaður mikill, stillilegur, en þó glaðlegur ... Afkastamikill starfsmaður, dulur nokkuð, án þess að vera fáskiptinn og mikill vinur þeirra, sem hann átti samleið með." Frá unga aldri var Pétur nákominn Guðmundi Ásbjörnssyni trésmiði og kaupmanni, sem bjó í sama húsi og foreldrar hans, og var einn helsti athafna- og félagsmálafrömuður bæjarins, var lengi forseti bæjarstjórnar (sat í forsæti 9. nóv. 1932), var um tíma settur borgarstjóri og meðal helstu forystumanna KFUM og Sjálfstæðisflokksins, en þar voru löngum sterkir þræðir á milli. Þegar Pétur varð bráðkvaddur 1961, gat Sigurjón Sigurðsson ekkert sagt beint um bakvarðarstarf hans í öryggisþjónustunni, en sagði hann hafa unnið "við margskonar skýrslugerðir". Öll störf sín hefði hann leyst af hendi "með einstakri samviskusemi og nákvæmni"."

Þór rekur síðan minnisblað óundirritað sem fannst í gögnum Péturs sem voru í skjalasafni Guðmundar Ásbjörnssonar, en hann telur minnisblaðið sennilega hafa verið ætlað lögreglustjóra og dómsmálaráðherra, sem lýsi vel ótta stjórnvalda við yfirvofandi árás á landið, með hjálp erlendra sovétvina, og verkefnum öryggisþjónustunnar. "I Halda ber áfram að safna og vinna úr gögnum, sem unnt er að ná í með sama hætti og hingað til, í þeim tilgangi að fullkomna þær upplýsingar, sem nú þegar liggja fyrir í spjaldskrá og til öflunar nýrra upplýsinga.

II. Leggja ber fyrst um sinn megináherslu á upplýsingaþjónustu hér í Reykjavík og öðrum stöðum, þar sem sérstakt tilefni gefst. Afla ber upplýsinga um grunsamlega menn og hjá fyrirtækjum ríkis og bæjar, öðrum fyrirtækjum þjóðfélagslega mikilvægum svo og fyrirtækjum, sem nota má til framdráttar flokksstarfssemi kommúnista í landinu eða sem tengilið við erlenda skoðanabræður þeirra.

III. Eins og nú á stendur, mun rétt að rannsaka sérstaklega og eins nákvæmlega og unnt er eftirfarandi starfsemi og starfsmannahópa með svo miklum hraða, sem við verður komið:

1.a. Flugvellirnir, Reykjavík, Keflavík

o.s.frv.

b. Símaþjónusta.

c. Póstþjónusta.

d. Tollþjónusta.

e. Veðurþjónusta.

f. Ríkisútvarpið (og sölu viðtækja og varahluta).

2. a. Sjómenn (skráða í skipsrúm).

b. Hafnarverkamenn.

3. a. Yfirstjórn raforkumála.

b. Orkuver.

c. Iðjuver (síldarverksmiðjur o.fl.).

d. Olíustöðvar.

4. Sérstakar athuganir á útlendingum.

5. Starfsemi Kommúnistaflokksins og Æskulýðsfylkingarinnar (virkir félagar og starfsemi þeirra).

IV. Til þess að vinna að þessum málum þyrfti til að byrja með 2-3 menn til viðbótar núverandi starfsliði. Auk þess 3-4 menn, er kalla mætti til, undir sérstökum kringumstæðum.

V. Deildina vantar enn mjög nauðsynleg tæki, sem notuð eru með góðum árangri annars staðar. Gerð hefir verið tilraun til útvegunar nokkurra þeirra erlendis frá, en deildin hefir verið dregin á útvegun þeirra um hálfs árs skeið. Komi tæki þessi ekki innan skamms er nauðsynlegt að gera aðrar ráðstafanir um öflun þeirra."

Fylgst með höfnum

Þór rekur síðan dæmi um þá upplýsingasöfnun sem fram fór, til að mynda hvað varðaði skrásetningu grunsamlegra sjómanna og hafnarverkamanna. "Siglingar (ekki síst farsiglingar) og starfsemi tengd höfninni, sér í lagi í Reykjavík, gátu haft mikla þýðingu fyrir varnir landsins, eins og starfsemi orku- og olíustöðva. Á þessu siglingasviði höfðu norrænar leyniþjónustur nú mikinn andvara á sér gagnvart njósnum, skemmdarverkum, og flutningi á vopnum eða leyniboðum landa á milli. Komintern og leyniþjónusta sovéthersins höfðu stundað slíkt brall í stórum stíl á fyrri árum, sérstaklega á Norðurlöndum og var Ísland þar ekki með öllu undanskilið."

Þá hafi verið um að ræða skrár yfir virka félaga í Sósíalistaflokknum og ungliðadeild Æskulýðsfylkingarinnar, en markmiðið hafi verið það að koma í veg fyrir að menn sem steypa vildu lýðræðisskipulaginu með valdi kæmust í embætti og stöður, sem væru mikilvægar innra öryggi ríkisins: "Slíkar skrár voru einnig við það miðaðar, að hægt væri að handtaka menn eftir þeim á hættu- og stríðstímum, svo framarlega sem þeir væru grunaðir um að vilja ganga erinda óvinaríkja. Enda þótt ekkert liggi fyrir um það, hvernig Reykjavíkurlögreglan hugðist notfæra sér slíkar skrár, verður að ætla að sami tilgangur hafi legið hér að baki. Óljóst er þó, að hve miklu leyti skráin var raunverulega notuð af íslenskum stjórnvöldum til að halda meintum sovétvinum frá störfum eða embættum, en víst er að hún kom að einhverju gagni við að fylgja eftir kröfu Bandaríkjahers um að ráða ekki slíka menn til starfa í bækistöðvum hans. Þá mætti ætla, þótt það verði ekki sannað, að lögreglan hafi gefið Bandaríkjamönnum upplýsingar um nöfn "grunsamlegra manna" á skrám hennar, því að slíkt var altíða í samskiptum öryggisstofnana Atlantshafsbandalagsríkja, sem unnu margar náið saman í kalda stríðinu. Þetta er ein skýringin á því, hve nákvæmar upplýsingar bandaríska sendiráðið í Reykjavík og lögregluyfirvöld vestra höfðu um Íslendinga, sem sóttu um vegabréfsáritanir eða sigldu til Bandaríkjanna í áhöfnum skipa. Í heild ber minnisblaðið það með sér, að íslenska lögreglan var að tileinka sér vinnubrögð og varúðarráðstafanir, sem lengi höfðu tíðkast hjá öryggisstofnunum lýðræðisríkjanna."

Þór segir að bandaríska alríkislögreglan hafi gefið íslensku öryggisþjónustunni eftirlitstæki "eins og Bandaríkjastjórn hafði ráðgert í sérstakri áætlun um að styðja Íslendinga til sjálfshjálpar í öryggismálum í samvinnu við bandaríska sendiráðið. Árni Sigurjónsson, sem hafði dvalist í þjálfun hjá bandarísku alríkislögreglunni, FBI, 1949, hélt aftur vestur um haf fyrir milligöngu Bjarna Benediktssonar til frekara náms í gagnnjósnum og öryggiseftirliti í New York, þar sem hann lærði einnig að fara með tækjabúnaðinn. Gjafir héldu áfram að berast frá bandamönnum allt til loka kalda stríðsins og þannig varð hér til með árunum nokkurt safn eftirlits- og njósnatækja í höndum lögreglunnar, svo sem myndavélar með sérstökum linsum, og hlustunartæki af ýmsum stærðum og gerðum, svo og nætursjónaukar."

Þór rekur símhleranir í aðdraganda heimsóknar Eisenhowers hingað 1951 og segir þær þá og í öðrum tilvikum fyrst og fremst til marks um veikleika íslenska ríkisins. "Lögreglustjóri varð að geta kallað á fjölmennt hjálparlið löghlýðinna borgara, ef hætta var á meiriháttar átökum. Til að kveðja slíkt lið saman, og búa sinn eigin takmarkaða styrk undir átök, þurfti lögreglustjóri í senn tíma og helst öruggar njósnir af því að átök væru í undirbúningi. Þegar sakadómari tók ákvörðun um að leyfa símahlerarnir, þurfti hann þannig að vega almenn réttindi borgaranna á móti öryggi lýðræðislega kjörinna stjórnvalda eða háttsettra erlendra gesta, sem óttast var að yrðu fyrir aðkasti eða árásum manna, sem óvíst væri hvort lögreglan réði við, nema hún fengi umbeðna heimild."

Þór segir einnig frá því að fylgst hafi verið með ferðum sovéskra leyniþjónustumanna og að þeir "færu ekki um eftirlitslausir utan höfuðstaðarins, fremur en í öðrum vestrænum ríkjum. Ella gætu þeir hitt þar að vild erindreka sína, njósnað um bækistöðvar varnarliðsins eða komið sér upp felustöðum fyrir varasaman búnað. Öryggisþjónustumenn veittu sendiráðsmönnum stundum eftirför í bílum, þegar fréttist af þeim á leið út úr bænum, eða ábendingar bárust utan af landi. Vegaeftirlit lögreglunnar sá annars að mestu um þessa gæslu. Eftirlitið var þó fjarri því að vera óbrigðult. Sovéskum sendiráðsmönnum tókst t.d. að fleygja gömlum hlustunartækjum sínum í Kleifarvatn 1973 án þess að lögreglan yrði þess vör. GRU hafði komið sér upp mikilli hlustunarstöð í sendiráðinu í Garðastræti til að hlera fjarskipti varnarliðsins."

Gagnnjósnir

Þór rekur einnig dæmi um gagnnjósnir: "Sjálfstæðisflokkurinn og Morgunblaðið höfðu einnig um árabil fengið upplýsingar um Sósíalistaflokkinn frá flokksmönnum, sem snúist höfðu á laun gegn flokknum og tengslum hans við Sovétríkin. Einn þeirra var Ragnar Gunnarsson, en hann var í þeim "áhættuhópum", sem lögreglan beindi sjónum sínum að (sjá áðurnefnt minnisblað öryggisþjónustunnar). Ragnar hafði verið hafnarverkamaður, setið í stjórn Dagsbrúnar, verið í hópi stækustu sovétsinna í Sósíalistafélaginu og ferðast um Sovétríkin á vegum MÍR, áður en hann hóf vöruflutninga á eigin bílum. Leyniþjónustumenn GRU í sovétsendiráðinu leituðu ákaft eftir liðsinni Ragnars sem félaga í kommúnistahreyfingunni, en án árangurs. Þá reyndu þeir með hjálp Tékka að notfæra sér fjárhagserfiðleika hans til að láta hann njósna um bækistöðvar varnarliðsins, en einnig átti hann að fylgjast með hafnarvinnu í Reykjavík og finna annan mann í fjárhagskröggum til njósna á Keflavíkurflugvelli. Árna Sigurjónssyni tókst með hjálp Ragnars að leiða sovésku leyniþjónustumennina í gildru upp við Hafravatn, þar sem þeir höfðu mælt sér mót við Ragnar í bíl vetrarkvöld eitt 1963."

Þór segir einnig frá símhlerunum í aðdraganda komu Johnsons Bandaríkjaforseta hingað til, lands 1963. Það hafi hins vegar ekki verið gert 1973 þegar forsetar Bandaríkjanna og Frakklands hittust hér á landi. Þá var hins vegar kallað til 200 manna hjálparlið.

"Um þetta leyti var Reykjavíkurlögreglan flutt í nýtt hús við Hverfisgötu þar sem öryggisþjónustumenn hennar fengu herbergi á 3. hæð, en það var sérstaklega styrkt og hljóðeinangrað með hlerunartengingu og skjalaskápum, sem fjölgað hafði á kaldastríðsárunum. Þá hafði Bogi Jóhann Bjarnason varðstjóri fyrir löngu tekið við starfi Péturs Kristinssonar, en aðeins þrír menn aðrir (Árni Sigurjónsson, Bjarki Elíasson og Jóhann G. Jóhannsson aðstoðarmaður Árna) höfðu lyklavöld að "lokaða herberginu" fyrir utan Snjólaugu Sigurðardóttur, systur lögreglustjóra, sem þar færði upplýsingar í spjaldskrár og flokkaði skjöl af stakri nákvæmni, eins og áður í Pósthússtræti. Lítil breyting hafði þess vegna orðið á fjölda fastra starfsmanna, sem vann við að gæta öryggis íslenska ríkisins á mestu njósna- og undirróðurstímum sögunnar: Einn maður sinnti þessum starfa sem fyrr hjá lögreglustjóraembættinu, en tveir í skjóli útlendingaeftirlits, en þeir höfðu að vísu kvatt sér til aðstoðar einn til tvo menn úr lögregluliðinu eftir þörfum og stuðst að nokkru við aðra starfsmenn eftirlitsins."

"Mikill reykur"

"En nú gerðist það skyndilega 1976, að Sigurjón Sigurðsson sótti um starf hæstaréttardómara og taldi sig fá vilyrði fyrir því embætti. Um leið taldi hann tíma til kominn að farga mestum hluta af því skjalasafni, sem lögreglan hafði komið sér upp um kommúnista. Bjarki Elíasson segir, að Sigurjón hafi talið að þetta skjalasafn þjónaði ekki lengur neinum tilgangi við breyttar aðstæður í stjórnmálum. Hann hafi ekki viljað láta eftirmanni sínum eftir þessa arfleifð frá þeim tíma, þegar óttast var að Íslendingar kynnu að hjálpa erlendum her við að ganga hér á land eða hrifsa til sín völdin með ofbeldi. Ekki er heldur að efa, að Sigurjón hefur viljað forðast að vitnaðist um safnið eftir að hann var sestur í Hæstarétt, enda fengið nóg af pólitískum ádeilum á sig í embætti lögreglustjóra. Trúnaðarmaður Sigurjóns flutti því megnið af safninu, þ. á m. spjaldskrár, upp í sumarbústað sinn í nágrenni Reykjavíkur og brenndi gögnin til ösku í götóttri olíutunnu. Af varð "mikill reykur", eins og haft var við orð í þeim fámenna hópi, sem vissi um þessa brennu. Í Hæstarétt settist Sigurjón lögreglustjóri hins vegar ekki, vilyrðið brást, ef það hafði þá verið veitt. Kalda stríðinu var líka fjarri því að vera lokið, en einn þáttur þess hér innanlands hafði verið til lykta leiddur."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.