Gísli Tryggvason
Gísli Tryggvason
TALSMAÐUR neytenda, Gísli Tryggvason, hefur frá því í nóvember á síðasta ári átt í viðræðum við Sýslumannafélag Íslands um að virkja sáttaúrræði í smærri ágreiningsmálum. Þetta kom fram í erindi sem hann flutti á þingi Neytendasamtakanna í gær.

TALSMAÐUR neytenda, Gísli Tryggvason, hefur frá því í nóvember á síðasta ári átt í viðræðum við Sýslumannafélag Íslands um að virkja sáttaúrræði í smærri ágreiningsmálum. Þetta kom fram í erindi sem hann flutti á þingi Neytendasamtakanna í gær.

"Sem talsmaður neytenda þurfti ég strax að spyrja mig hvaða leiðir væru færar fyrir neytendur innan stjórnsýslunnar og hjá dómstólum. Hér starfar enginn smámáladómstóll og engar sérreglur gilda um einfaldari, þ.e.a.s. greiðari, fljótari og ódýrari meðferð smærri ágreiningsmála, t.d. milli neytenda og söluaðila vöru eða þjónustu."

Sagði hann að í réttarfarslögum væri hins vegar heimild fyrir aðila máls, t.d. neytanda og söluaðila, til að koma sér saman um að vísa máli sínu til sáttaumleitana sýslumanns áður en mál væri höfðað. Þar mætti lögum samkvæmt gera sátt án þess að kröfur hefðu verið gerðar fyrir dómi. Sagði hann að þessi lagaheimild hefði aldrei verið nýtt svo kunnugt væri í þau 14 ár sem hún hefði verið fyrir hendi. Spyrja mætti hvort það væri vegna þess að allt væri í stakasta lagi á þessum vettvangi.

"Skammvinn reynsla mín af neytendamálum og athuganir og reynsla á skyldum vettvangi bendir hins vegar til þess að slíks úrræðis sé þörf. Flestir, sem hafa haft það hlutverk að aðstoða einstaklinga í lagalegum ágreiningsmálum í viðskiptum við sterkari aðila, kannast við að oft eru málin allt of brýn og mikilvæg fyrir einstaklinga til þess að láta þau niður falla, en of lítil til þess einstaklingur geti borið þann kostnað og þolað þá bið og óvissu sem dómsmál fela í sér."

Sáttameðferð er viðbót

Fram kom í máli Gísla að hér á landi væru að vísu starfræktar ýmsar úrskurðarnefndir, m.a. með aðild Neytendasamtakanna, og sáttameðferð væri ekki ætlað að koma í stað þeirra og því síður að grafa undan þeim. "Sáttameðferð er viðbót sem getur stuðst við aðferðafræði sem notuð er í öðrum málaflokkum en á hvað best við í smærri neytendamálum þar sem aðilar hafa bæði fullt vald til og besta möguleika á að finna lausn sem þeim finnst ásættanleg, undir handleiðslu löglærðs fulltrúa sýslumanns. Ef vel tekst til getur þessi leið orðið sveigjanlegri, ódýrari og skjótvirkari fyrir báða aðila en önnur úrræði; niðurstaðan er t.a.m. ekki bundin við formlegar eða skriflegar kröfur aðila eins og t.d. fyrir dómstólum. Sáttameðferð er einnig valkostur í málum sem úrskurðarnefndir samkvæmt verklagsreglum þeirra taka ekki til, t.d. ágreiningur um bótafjárhæð og fleira," sagði Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda.